Bergur Þór segir suma hreinlega óforbetranlega

30.08.2017 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Bergur Þór Ingólfsson, faðir stúlku sem Robert Downey braut gegn, segist almennt vera fylgjandi betrun fremur en refsingu, hins vegar séu sumir einfaldlega óforbetranlegir. Engin gagnrýni eigi sér stað innan ráðuneytisins þegar veitt sé uppreist æru. Hann vill vita hvaða umsagnir Robert Downey fékk og hverjir það voru sem mæltu með því.

Allsherjar- og menntamálanefnd fjallar á opnum fundi um uppreist æru. Í morgun kom dómsmálaráðherra fyrir nefndina og sagðist vilja fella uppreist æru úr lögum. Oft hafi legið þungt á ráðherrum að veita uppreist æru. Þegar ráðherra hafði lokið sínu máli, var gert stutt hlé á fundinum en að því loknu kom Bergur Þór fyrir nefndina.

Bergur Þór sagðist fyrst hafa heyrt af málinu í fjölmiðlum. Hann sagði fjölskylduna hafi reynt að fá svör við ýmsum spurningum en ekki fengið. Aðspurður hvernig hægt væri að tryggja mannréttindi þeirra sem hlotið hafi dóma sem og brotaþola sagðist Bergur Þór vera fylgjandi betrun. Hann sæi henni þó ekki stað hjá sumum brotamönnum. Sumir væru einfaldlega óforbetranlegir. Siðblindingjar sjái ekki hvað þeir hafi gert rangt. Þeir séu svo slyngir að sálfræðingar séu yfirleitt ekki með fleiri en þrjá slíka í meðferð í einu sökum þessa.

Bergur Þór telur þurfa viðhorfsbreytingu gagnvart kynferðisbrotum. Aflétta þurfi leynd til að auka traust. Hann vill vita hvað þessir þrír dómsmálaráðherrar hafi verið að gera með málið innan ráðuneytisins. Ekkert viðkvæmt sé þar sem þurfi leynd yfir.

Hann vill líka vita hvaða umsagnir maðurinn fékk hjá vottum sínum. Einu skjölin sem hafi fengist sé uppreist æra veitt. Það hafi ekki verið gert til að upplýsa fjölskyldur brotaþola heldur til að losa forsætisráðherra undan klemmu vegna málsins.

„Við viljum öll að þessum lögum verði komið strax á“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að girða verði fyrir að barnaníðingar geti starfað sem lögmenn. Hún segist telja að ráðherra hafi ekki talað fyrir því. Þórhildur telur að nefndin þurfi að leggja fram frumvarp sem setur það skilyrði í lögum um lögmenn að hafi einstaklingur með lögmannsréttindi gerst sekur um brot á almennum hegningarlögum teljist hann ekki hæfur til að gegna lögmennsku. Hún spurði Berg Þór hvort hann sé sammála því að þetta væri leið. 

„Já við viljum öll að þessum lögum verði komið strax á. Persónulega myndi ég líta þannig á það að ef það yrði ekki gert að í því fælist yfirlýsing,“ sagði Bergur Þór.

Fundi nefndarinnar er lokið en hann var í beinni lýsingu á ruv.is.