Ber fullt traust til Baldurs

11.02.2016 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir  -  RÚV
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist bera fullt traust til Baldurs Guðlaugssonar, sem skipaður hefur verið formaður hæfnisnefndar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti, árið 2012, fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi.

Baldur er lögfræðingur og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Kjarninn greindi frá því í dag að hann hefði verið skipaður formaður hæfnisnefndar sem metur umsækjendur um starf skrifstofustjóra í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Hæfnisnefndin er skipuð af Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Kerfið okkar er nú þannig að þegar að menn hafa lokið afplánun, hafa þeir tekið út sína refsingu. Þannig að já, maður með svo gríðarlega mikla þekkingu á stjórnsýslunni og þessum málaflokkum, ég tel mjög heppilegt að hann sinni þessu starfi. 

Sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag.

Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins, segir í samtali við fréttastofu að engin ákvæði sé að finna í lögum eða reglum sem geri Baldur vanhæfan.