Bengtsson hjólar í Sobral

18.05.2017 - 12:21
Mynd með færslu
Robin Bengtsson, fulltrúi Svíþjóðar í Eurovision, kemur „skyndibitatónlist“ til varnar og skammast út í Salvador Sobral, sigurvegara keppninnar, fyrir umdeilda sigurræðu.

Bengtsson, sem lenti í fimmta sæti í keppninni með laginu „I Cant't Go On“, segir að ræða Sobral hafi ekki verið sæmandi sönnum sigurvegara.

„Til hamingju með sigurinn, ég er verulega hrifinn af laginu þínu og hvernig þú syngur það. En mér þykir ræðan sem þú fluttir eftir að þú vannst keppnina ekki sæmandi sönnum sigurvegara,“ skrifaði Bengtsson á Instagram. „Skyndibitatónlist getur verið hið besta í heiminum, á réttum stað og réttum tíma. Það gildir einnig um fallegt lag eins og þitt.“

Sobral stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins þar sem hann flutti ballöðuna „Amar Pelos Dois“ (Ást fyrir tvo). Lagið og flutningurinn stakk í stúf við íburðinn sem öllu jafna einkennir keppnina, og virðist það hafa hitt í mark.

Sobral hafði sitthvað að segja um stöðu tónlistar á okkar tímum þegar hann tók á móti verðlaununum.

„Við lifum í heimi einnota skyndibitatónlistar án nokkurs innihalds. Þetta gæti verið sigur fyrir tónlistina, fyrir fólk sem gerir tónlist sem hefur einhverja þýðingu,“ sagði Sobral. „Tónlist er ekki flugeldur, tónlist er tilfinning. Svo reynum að breyta þessu og færum tónlistina aftur heim – sem er það sem skiptir máli.“

Sobral og Bengtsson ættu að þekkja heim skyndibitatónlistar ágætlega, en þeir hafa báðir verið þátttakendur í Idol-sjónvarpsþáttunum, hvor í sínu landi. Það gerði einnig höfundur portúgalska lagsins, systir hans Salvadors, Luisa Sobral.