Baráttukonan Edith Windsor látin

12.09.2017 - 22:24
FILE - In this Dec. 12, 2012 file photo, Edith Windsor speaks during an interview in her New York City apartment. Windsor, who brought a Supreme Court case that struck down parts of a federal law that banned same-sex marriage, died Tuesday, Sept. 12, 2017
 Mynd: AP
Edith Windsor, baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra í Bandaríkjunum, er látin 88 ára að aldri. Windsor fór í mál við bandaríska ríkið eftir að fyrri eiginkona hennar lést og henni var gert að greiða rúma 363 þúsund bandaríkjadali, jafnvirði 38,7 milljóna króna, í erfðaskatt vegna þess að bandarísk lög viðurkenndu ekki að hjónaband þeirra.

Parið hafði verið saman í 44 ár og hafði gengið í hjónaband í Kanada árið 2007. Málið fór fyrir Hæstarétt þar sem Windsor hélt því fram að það orðalag að hjónaband væri eingöngu milli karls og konu kæmi í veg fyrir að hún fengi skattaafslátt sem hjón ættu rétt á og það bryti í bága við stjórnarskrá landsins. Í tímamótaúrskurði Hæstaréttar árið 2013 féllst dómstóllinn á röksemdafærslu hennar og sú ákvörðun hleypti af stað hrinu fleiri úrskurða fyrir dómstólum um aukinn rétt til handa samkynja pörum.

Árið 2015 dæmdi Hæstiréttur Bandaríkjanna að samkynja pör ættu rétt á því að ganga í hjónaband. 

Hún skilur eftir sig eiginkonu, Judith Kasen-Windsor, sem segir í yfirlýsingu sem birt var í New York Times að með fráfalli Edith hafi heimurinn misst hörkutól sem hefði barist fyrir frelsi, réttlæti og jafnrétti.

Robbie Kaplan, verjandi Windsor til fjölda ára, segir í viðtali við Rolling Stone, að það hafi verið honum mikill heiður að fá að tala máli hennar fyrir dómstólum. „Hennar verður minnst í sögubókum sem sannrar bandarískrar hetju. Með fráfalli Edie hef ég ekki aðeins misst náinn skjólstæðing heldur einnig fjölskyldumeðlim.“

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, minntist Windsor á Twitter í dag. „Með því að standa fast á rétti sínum gerði hún það sama fyrir milljónir Bandaríkjamanna. Megi hún hvíla í friði.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV