Átak gegn lifrarbólgu C hafið

22.01.2016 - 16:53
Töfluspjald, pillusphald, pillur í pakkningu.
 Mynd: Pixabay
Átak til að útrýma lifrarbólgu C hér á landi er hafið. Kristján Þór Júliusson, heilbrigðisráðherra skrifaði í dag undir samning milli Landspítalans og Gilead lyfjafyrirtækisins sem leggur til lyfið sem notað verður í átakinu.

Fyrstu sjúklingarnir verða kallaðir til meðferðar í næstu viku. Unnið verður í áföngum og 200 sjúklingar teknir til meðferðar hverju sinni. Talið er að um 800 til 1000 séu smitaðir af lifrarbólgu C hér á landi. Stefnt er að því að bjóða öllum sem greindir eru með sjúkdóminn í meðferð innan tveggja ára.  Fólkið fær lyfið Harvoni sem er eitt þeirra nýju lyfja sem veita hvað bestan árangur og leiðir til lækninga hjá langflestum. Lyfið er framleitt af Gilead og leggur lyfjafyrirtækið það til rannsóknarskyni. Samhliða átakinu fara fram rannsóknir á árangri þess til lengri og skemmri tíma.

Í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins segir að átakið eigi sér vart fordæmi, meðal annars vegna þess hve dýr lyfin eru. Stefnt sé að því að útrýma lifrarbólgu hér á landi sem sé mikill ávinningu fyrir heilbrigðiskerfið þegar til lengri tíma sé litið.