Áslaug: Jákvætt að skoða sameiningu

19.05.2017 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson  -  Morgunvaktin
Það er jákvætt að litið sé á sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Nefndin átti í dag langan fund með menntamálaráðherra og skólameisturum skólanna tveggja um hugsanlega sameiningu þeirra.

Nemendur og kennarar við Fjölbrautaskólann við Ármúla afhentu menntamálaráðherra undirskriftalista í menntamálaráðuneytinu í dag þar sem sameiningu Fjölbrautaskólans og Tækniskólans er mótmælt.

Áslaug Arna telur sameiningu geta haft jákvæð áhrif. „Ég held að það sé mjög gott að það sé verið að líta á þessa sameiningu. Ég held að hún gæti verið mjög jákvæð fyrir nemendur og þá sérstaklega til að bregðast við þessum vanda og halda uppi mjög fjölbreyttu námi, og að það sé verið að setja starfs-, iðn- og tækninám í forgrunn svo að það verði áfram haldið uppi þeim brautum sem þeir bjóða upp á,“ sagði Áslaug Arna í kvöldfréttum sjónvarps. „Ég fagna því að við séum hér með ráðherra sem er að líta til þeirra sjónarmiða að framhaldsskólarnir standa frammi fyrir miklum vanda vegna fækkunar nemenda og við erum að bregðast við honum.“