Askjan í Bárðarbungu líklega að síga

21.08.2014 - 15:07
Mynd með færslu
Skjálftavirkni í öskjunni í Bárðarbungu hefur verið mikil síðan í gærkvöldi. Sérfræðingur á Veðurstofunni segir skjálftana líklega stafa af sigi í öskjunni sjálfri vegna kviku undir jöklinum.

Einn skjálfti af stærðinni 4 varð í öskjunni klukkan 11 í morgun og er hann sá stærsti sem hefur mælst í vikunni.

Gunnar B. Guðmundsson, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að líklega sé askjan í fjallinu sé að síga sem valdi þessum sterku skjálftum. 

„Barmarnir síga niður þegar kvikan streymir úr kvikuhólfi undir öskjunni," segir hann. „Þeir eru allir á svipuðu dýpi."
Gunnar segir engan gosóróa vera að mælast undir jöklinum. Þá séu engin merki um að eldgos sé að hefjast. 

„Ef kvikan kemur upp þá gerir hún það líklegast í Dyngjujökli og undir honum," segir hann. „Auðvitað er alltaf möguleiki í öskjunni sjálfri, þó að það sé ólíklegra."

Ein tilgáta sé að berggangurinn, sem er orðinn meira en 25 kílómetrar að lengd, sé að breikka. Gunnar segir líklegt að á næstu dögum verði hægt að skera úr um hvort þetta verði bara kvikuinnskot undir jöklinum eða eitthvað meira. 

„En það er líka ómögulegt að segja," segir hann. „Maður veit aldrei hvernig þessi eldfjöll haga sér."

sunnav@ruv.is