ASÍ: Launaþjófnaður á vinnumarkaði

18.02.2016 - 08:13
Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, segir að hlutfallslega langstærstur hluti af þeim málum sem stéttarfélög sinna varði ungt fólk og útlendinga sem sé snuðað um laun og réttindi. Þetta séu jaðarhópar sem jafnan þekki lítið til réttinda sinna. Halldór segir að hægt sé að tala um launaþjófnað.

Það sé fjárhagslegt tjón að fá ekki veikindarétt eða orlof greitt eða lægri laun en kjarasamningar segja til um.  „Hvers eðlis brotin eru hvað unga fólkið varðar greinum við helst hreinlega of lágt kaup sem er oftast í formi jafnaðarkaups.“ Ungt fólk sem vinni með skóla sé ekki í dagvinnu og því sé ekki grundvöllur fyrir jafnaðarkaupi. „Veikindaréttur hjá ungu fólki er sjaldan virtur. Ungt fólk í hlutastarfi og óreglulegri vinnu fær ekki sinn veikindarétt.  Hvað útlendingana varðar þá er það allt frá þessu og svo fáum við svæsnari dæmi sem jaðra við mansal.“

Halldór segir erfitt að segja til um hversu algengt það sé að brotið sé á ungu fólki og útlendingum á vinnumarkaði. „Þó það sem við getum fullyrt er að þetta er allt of mikið. Við finnum það bara. Hlutfallslega er þetta 
 langstærstur hluti mála sem stéttarfélög sinna, miðað við stærð þessara hópa á vinnumarkaði. Þetta er því miður dálítið einskorðað við ákveðna geira. Hvað unga fólkið varðar er veitinga-og ferðaþjónustugeirinn mjög erfiður og hvað útlendingana varðar að einhverju leyti líka en þar kemur líka byggingageirinn dálítið inn.“  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi