Arnar og Arndís unnu víðavangshlaup ÍR

20.04.2017 - 17:42
Snjókoman vék fyrir sólinni í þann mund er keppendur voru ræstir af stað í víðavangshlaupi ÍR í dag. Upplifun keppenda á veðuraðstæðum var þó mismunandi. Hlaupið er Íslandsmót í 5 km götuhlaupi og urðu Arnar Pétursson og Arndís Ýr Hafþórsdóttir Íslandsmeistarar.

Víðavangshlaup ÍR var nú haldið í 102. sinn en það hefur verið órjúfanlegur þáttur í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar á sumardaginn fyrsta í eina öld. Þetta er elsta hlaup landsins og með elstu almenningshlaupum í Evrópu. Hlaupnir eru 5 km um miðborgina og var 501 keppandi skráður til leiks.

Arnar Pétursson úr ÍR sigraði örugglega í karlaflokki á 15 mínútum og 29 sekúndum og varð 26 sekúndum á undan Kristni Þór Kristinssyni sem varð annar. Þetta er í fyrsta sinn sem Arnar sigrar í hlaupinu en sigur var dæmdur af honum fyrir tveimur árum eftir kærumál því þá hjóp hann út úr braut og stytti sér leið. Arnar gagnrýndi þá reyndar óljósar merkingar á hlaupaleiðinni en sagði allt hafa verið til fyrirmyndar í dag.

Öruggur sigurvegari í kvennaflokki varð Arndís Ýr Hafþórsdóttir úr Fjölni á 17 mínútum og 55 sekúndum en hún varð 39 sekúndum á undan Elínu Eddu Sigurðardóttur úr ÍR sem varð önnur.

Myndir frá hlaupinu og viðtöl við Arnar og Arndísi má sjá í spilaranum hér að ofan.

 

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður