„Argasti sóðaskapur“

11.07.2017 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti  -  RÚV
Klósett eru bara fyrir ákveðna hluti og þau eru ekki ruslakista, segir Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans. Myndir af því, sem hent er í klósett á höfuðborgarsvæðinu og rekið hefur upp í fjörur vegna bilunar í skólpdælistöð í Reykjavík, hafa vakið furðu hennar og margra annarra. Á Akureyri er dreift veggspjaldi til að minna á að klósett séu ekki ruslafata. Það heitir Óleyfilegt niðurhal. 

Eyrnapinnar, dömubindi og blautþurrkur eru því miður á víð og dreif um fjörur næst hinni biluðu skólpdælistöð við Faxaskjól í Vesturbæ Reykjavíkur . Slíkt rusl hefur fimm- eða sexfaldast í Bakkavík á sunnanverðu Seltjarnarnesi síðan í apríl. Margir hafa haft samband við Fréttastofu eftir að hafa séð myndir af þessu og undrast að einhverjir virðist láta sér detta í hug að sturta slíku ofan í klósett. 

„Ég bara hugsa fer þetta virkilega í klósettið hjá fólki? Hvað er fólk að hugsa? Maður hendir ekki dömubindum, eyrnapinnum eða blautþurrkum í klósettið. Af hverju heldur fólk að það séu ruslastampar á klósettinu? Þetta er bara argasti sóðaskapur. Það er nú ekkert gaman að fá stífluð klósett.“

Er einhver pottur brotinn í uppeldi?

„Ég held að það hljóti að vera því þetta er nokkuð sem maður kennir börnum og unglingum strax: Þetta fer ekki í klósettið, þetta fer í ruslið. Það er svo mikið hugsunin: Hér kem ég og ég geri það sem ég vil. Og það eru ruslastampar á öllum klósettum hvar sem þú ferð. Bara pakka dömubindunum inn og setja þau í ruslið. Þetta er ekkert flókið. Maður skilur þetta ekki.“

Klósettin eru bara fyrir ákveðna hluti?

„Já, þau eru bara fyrir ákveðna hluti. Það er ekkert flóknara. Þetta er ekki einhver ruslakista.“

Segir Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík

Orku- og veitufyrirtækið Norðurorka hefur látið þetta efni til sín taka. Fyrirtækið hefur lengi dreift veggspjaldi sem heitir Óleyfilegt niðurhal. Það á þó ekkert skylt við ólöglegt niðurhal af netinu heldur er þar brýnt fyrir fólki að muna að klósettið sé ekki ruslafata og þar eru sýndar myndir af því sem ekki má setja þangað. Og þar segir: Hugsum okkur um áður en halað er niður. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Í fjörunni í Bakkavík á Seltjarnarnesi
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV