Allur Fígaró-þríleikurinn

Auglýsing fyrir óperuna "Brúðkaup Fígarós" eftir Wolfgang Amadeus Mozart.
 Mynd: Wikipedia
Um og eftir páskana verða fluttar þrjár óperur byggðar á hinum fræga Fígaró-þríleik eftir franska rithöfundinn Beaumarchais. Það var á seinni hluta 18. aldar sem Beaumarchais samdi þrjú leikrit um hinn ráðsnjalla rakara Fígaró; fyrsta leikritið, „Rakarinn frá Sevilla“ var frumsýnt 1775, annað leikritið „Brúðkaup Fígarós“ kom fram á sjónarsvíðið 1784 og síðasta leikritið, „Seka móðirin“ var frumsýnt 1792.

 

Síðar voru tvær frægar óperur byggðar á fyrri leikritinum tveimur: „Rakarinn frá Sevilla“ eftir Gioacchino Rossini og „Brúðkaup Fígarós“ eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Það er ekki á allra vitorði að einnig hefur verið samin ópera upp úr síðasta leikritinu, það var franska tónskáldið Darius Milhaud sem samdi óperuna „Seka móðirin“ árið 1966. Nú gefst hlustendum Rásar 1 kostur á að heyra allar óperurnar þrjár í réttri röð miðað við söguþráðinn. Á skírdag 24. mars kl. 19.00 verður flutt hljóðritun frá sýningu Íslensku óperunnar á „Rakaranum frá Sevilla“ eftir Rossini, þar sem Oddur Arnþór Jónsson er í titilhlutverkinu. Laugardaginn fyrir páska, 26. mars kl. 18.15, verður bein útsending frá Metrópólitan-óperunni í New York þar sem flutt verður „Brúðkaup Fígarós“ eftir Mozart með Mikhail Petrenko í hlutverki Fígarós. Og fimmtudaginn eftir páska, 31. mars kl. 19.00, verður flutt hljóðritun frá sýningu í Theater An der Wien á óperunni „Seka móðirin“ eftir Milhaud, en þar er það Aris Argiris sem syngur Fígaró. „Seka móðirin“ gerist 20 árum á eftir „Brúðkaupi Fígarós“ og er fróðlegt að heyra hvað drífur á daga Fígarós og Súsönnu þegar þau hafa verið gift í 20 ár. Umsjón með óperukvöldunum hefur Una Margrét Jónsdóttir.

 

 

Una Margrét Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Óperukvöld útvarpsins