Aldrei fleiri hælisleitendur

14.02.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Aldrei hafa fleiri hælisleitendur komið til landsins en í janúar. Forstjóri Útlendingastofnunar segir stofnunina búast við í það minnsta sex hundruð hælisleitendum í ár og því er leitað að viðbótarleiguhúsnæði fyrir allt að hundrað manns.

Ríkiskaup sjá um útboð Útlendingastofnunar fyrir leiguhúsnæði, það verður viðbót við það húsnæði sem nú er í notkun og er áætlað að það hýsi allt að hundrað manns, í tveimur byggingum. Kristín Völundardóttir er forstjóri Útlendingastofnunar: „Þegar við lítum á tölurnar fyrir janúar þá eru þetta fimmtíu umsóknir og það er tala sem við höfum aldrei séð í janúar og janúar er yfirleitt rólegasti mánuðurinn. Svo út frá þeim mánuði höfum við breytt okkar spám og við áætlum núna sex hundruð hælisleitendur í ár að lágmarki. Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að vera undirbúin og hafa húsnæði.“

Ef spár Útlendingastofnunar ganga eftir, mun metfjöldi sækja hér um hæli í ár. Kristín segir að gert sé ráð fyrir því að sveitarfélög þjónusti fjölskyldur en nú sé svo komið að úrræði sveitarfélaganna eru fullnýtt. Því er gert ráð fyrir að í nýju húsnæði verði bæði herbergi fyrir einstaklinga sem og íbúðir fyrir fjölskyldur. Óskað er eftir húsnæði til tólf mánaða með möguleika á tólf mánaða framlengingu en Kristín segir ljóst að þetta úrræði sé ekki framtíðarlausn, það þurfi að semja við annaðhvort fleiri sveitarfélög eða fjölga fólki hjá þeim sveitarfélögum sem nú þegar eru samningar við: „Staðan núna er sú að það eru jafnmargir í þjónustu hjá Útlendingastofnun og hjá þeim þremur sveitarfélögum sem við eigum samninga við. Það þykir mér ekki eðlileg þróun þannig að það er mjög margt sem verður gert á næstu mánuðum hvað varðar þjónustuúrræði og móttöku.“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV