Ákvörðun um brottvísun síðar í september

12.09.2017 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Jón Þór Víglundsson
Útlendingastofnun hefur frestað brottvísun Abrahims og Haniye Maleki, afganskra feðgina, sem átti að vísa úr landi á fimmtudag. Í bréfi Útlendingastofnunar til fréttastofu segir að í gær hafi stofnuninni borist beiðni um frestun frá lögmanni fjölskyldunnar. Beiðninni var komið á framfæri í gegnum Ríkislögreglustjóra.

Útlendingastofnun tók málið til athugunar. Sú athugun leiddi í ljós að kærunefnd útlendingamála fjallar nú um beiðni lögmanns feðginanna sem hafði óskað eftir frestun réttaráhrifa af ákvörðun um brottvísun. Þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir frestist framkvæmdin sjálfkrafa. Niðurstaða kærunefndarinnar ætti að liggja fyrir síðar í mánuðinum.

Feðginunum var tilkynnt á fundi með lögreglu í húsakynnum Útlendingastofnunar í gær að þau yrðu flutt úr landi klukkan hálf tólf fyrir hádegi á fimmtudag. Síðdegis í gær barst svo Útlendingastofnun ósk um að brottvísuninni yrði frestað.

Haniye sýnir alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og geðlægðar eftir flóttann. Hún fæddist sem flóttamaður í Íran og er ríkisfangslaus.