Air Berlin aflýsti 100 ferðum vegna veikinda

12.09.2017 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: dxme  -  Flickr
Þýska lággjaldaflugfélagið Air Berlin aflýsti um það bil eitt hundrað ferðum í dag vegna óvæntra veikinda í hópi flugmanna. Rúmlega 250 úr hópi þeirra, aðallega flugstjórar, tilkynntu sig veika. Alls starfa um fimmtán hundruð flugmenn hjá félaginu. Stéttarfélag þeirra segist ekki standa fyrir mótmælaaðgerðum af neinu tagi.

Talið er að flugmennirnir hafi ákveðið að sýna andstöðu sína við fyrirhugaða sölu félagsins, jafnvel strax í næstu viku. Air Berlin er gjaldþrota. Rekstrinum er haldið gangandi með fé frá þýskum stjórnvöldum. Tap af rekstri fyrirtækisins nam í fyrra 782 milljónum evra.

Veikindi flugmannanna í dag urðu aðallega til að trufla ferðir Air Berlin til og frá Berlín og Düsseldorf. Einnig féllu niður ferðir þýska flugfélagsins Eurowings sem leigir 38 þotur af Air Berlin.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV