Áform hersins verði rædd í utanríkismálanefnd

10.02.2016 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis, hefur óskað eftir því nefndin verði kölluð saman til að ræða áform Bandaríkjahers um aukin umsvif hér á landi.

Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjóra Vinstri grænna um málið kemur fram að Steinunn hafi óskað eftir því að nefndin komi saman tafarlaust til að ræða málið, og afar brýnt sé að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra verði boðaður á fund hennar til að gera frekari grein fyrir málinu.

Ætla að verja þremur milljörðum til framkvæmda

Bandaríkjaher hyggst verja tæpum þremur milljörðum króna til að laga gamalt flugskýli í Keflavík. Utanríkisráðherra segir ljóst að herinn sé að auka umsvif sín hér á landi, en ekki komi til greina að opna herstöð í Keflavík á ný.

Vefrit bandaríska hersins, Stars and Stripes, greindi frá því í gær að Bandaríkjaher ætli að snúa aftur til Íslands og hafa hér tímabundna aðstöðu. Sjóherinn gæti síðar meir farið fram á aðstöðu til langframa. Herinn hefur farið fram á fjármagn á næstu fjárlögum Bandaríkjanna til að setja í stand gamalt flugskýli hersins á Keflavíkurflugvelli. Óskað er eftir jafnvirði tveggja komma sjö milljarða króna í verkefnið.

Þær upplýsingar fengust úr bandaríska sendiráðinu á Íslandi í morgun að fulltrúar sendiráðsins ætli ekki að tjá sig um málið að svo stöddu, og var vísað á bandaríska varnarmálaráðuneytið.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV