Afar brýnt að huga að frekari sameiningu

09.05.2017 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra segir afar brýnt að huga að frekari sameiningu framhaldsskóla. Hann segir miður að ótímabær umræða um sameiningu hafi farið af stað og vonast til að hún spilli ekki fyrir. Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun.

Tilefni fundarins voru fréttir sem spurðust út fyrir helgi af áformum stjórnvalda um að sameina Tækniskólann og Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þar með yrði Ármúlaskóli einkavæddur.

Kristján Þór segir að menntamálaráðuneytið hafi skoðað samstarf og sameiningu framhaldsskóla frá 2013. Stærri skólar ráði betur við nemendafjölda og geti boðið upp á fjölbreyttara nám. „Það stóð til að þessi vinna væri lengra komin þannig að svör lægju fyrir þegar að hugmyndin yrði lögð fram til kynningar fyrir hagsmunaaðila. Það er miður að ótímabær umræða fór af stað áður en þessar upplýsingar lágu fyrir með þeim óþægindum fyrir alla sem það hefur í för með sér fyrir hlutaðeigandi. Vonir mínar standa til þess að það verði ekki til að spilla fyrir og það verði hægt að taka yfirvegaða ákvörðun á grundvelli þeirrar vinnu sem nú stendur yfir.“

Kristján Þór segir að ekki sé verið að skoða aðra sameiningarkosti. „Svo er ekki, fyrir utan þá vinnu sem hefur staðið í hálft annað ár á Norðurlandi, aftur á móti er það skoðun mín eftir að hafa kynnt mér vinnugögn og ýmsar hugmyndir sem upp hafa komið í gegnum tíðina að það er afar brýnt að huga að því að styrkja framhaldsskólakerfið með frekara samstarfi skóla eða sameiningum í þeim tilgangi að framhaldsskólakerfið geti mætt þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir.“