Ætti að heimila íbúðabyggingar á ríkislóðum

25.02.2016 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarstjóri segir að ef ríkisstjórnin vill fjölga íbúðum í Reykjavík eigi að ráðast strax í uppbyggingu á fimm ríkislóðum. Húsnæðismálaráðherra ætlar að ræða við sveitarfélögin um hvernig þau geti lækkað byggingarkostnað.

Leiðir til að lækka fasteignaverð og auka íbúðaframboð hafa lengi verið til umræðu og einn snúningur enn var tekinn í málinu í Hörpu í Reykjavík í dag. Eygló Harðardóttir, félag- og húsnæðimálaráðherra, flutti ávarp á ráðstefnunni. Hún benti á ýmiss konar kostnað sem sveitarfélögin leggi á. „Það er mjög margt sem sveitarfélög geta gert til að lækka kostnað,“ segir Eygló. „Ég mun núna á morgun og eftir helgi funda með stærstu sveitarfélögunum og stjórn sambandsins og spyrja hvað er það sem við getum gert til að hjálpa ykkur. Þannig að ef það er eitthvað sem við getum gert til að fjölga lóðum, til þess að einfalda kröfurnar,“ segir Eygló. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri: „Það eru tvær spurningar sem verða fyrstu spurningarnar á fundi með húsnæðismálaráðherra núna. Númer eitt: hvenær fáum við að sjá niðurstöðu Alþingis varðandi húsnæðisfrumvörpin og númer tvö: hvenær fáum niðurstöðu varðandi fjölda lóða í eigu ríkisins sem viljum að byggist upp m.a. fyrir leigumarkaðinn sem okkur gengur ekkert að semja við ríkisstjórnina að fá hér í Reykjavík,“ segir Dagur. „Í fyrsta lagi er þetta Landhelgisgæslureitur úti við Ánanaust, í öðru lagi er þetta Veðurstofureitur við Veðurstofu Íslands, í þriðja lagi er þetta á lóð Borgarspítalans, í fjórða lagi er þetta á Sláturfélagsreitnum inni í Laugarnesi þar sem má byggja umtalsvert og í fimmta lagi höfum við vakið máls á því að hér á Stjórnarráðsreitnum ef þar á nú ekki að vera stjórnarráð þá megi gjarnan friða hús og koma fyrir leiguíbúðum. Þannig að þetta eru fjölmargir reitir og það má eiginlega segja að það sé þumalputtaregla ef það er einhvers staðar ómalbikað plan á góðum stað í borginni þá má nánast gefa sér að ríkið er eigandinn því miður.  Ég held ef  ríkisstjórnin vill gera eitthvað hratt og vel til þess að koma til móts við leigumarkað og uppbyggingu í borginni þá sé mjög nærri lagi að fara í þetta strax,“ segir Dagur. 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV