Ætluðu að nota 120 gaskúta í hryðjuverkaárás

20.08.2017 - 14:18
epa06151850 People pay their respect to the victims outside the Liceu Theatre, on the site of a deadly van attack in Barcelona, Spain, 19 August 2017. At least 14 people were killed and some 130 others injured after cars crashed into pedestrians on the La
 Mynd: EPA  -  EFE
Hryðjuverkahópurinn, sem skipulagði tvær hryðjuverkaárásir á Spáni í vikunni, var með 120 gaskúta í húsi í smábænum Alcanar. Lögreglan telur að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað að koma gaskútunum fyrir í ökutækjum sem síðan átti beita í nokkrum árásum í Barselóna.

Þetta kemur fram á vef BBC.

Fjórtán létust og yfir 100 særðust í tveimur hryðjuverkaárásum í Barselóna og strandbænum Cambrils. Ökumanns hvíta sendiferðabílsins sem ekið var niður Römbluna í Barselóna er enn leitað, lögreglan á Spáni hefur ekki viljað gefa upp nafn hans en spænskir fjölmiðlar telja að ökumaðurinn sé Younes Abouyaaqoub, 22 ára gamall Marokkóbúi.

Fljótlega eftir árásirnir í Cambrils og Barselóna fór lögreglu að gruna að sprenging sem varð í húsi í smábænum Alcanar gæti tengst hryðjuverkunum. Nú hefur komið í ljós að í húsinu voru 120 gaskútar sem talið er að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað að koma fyrir í ökutækjum og nota þau síðan í mun stærri hryðjuverkaárás. „Við teljum að mennirnir hafi ætlað að búa til sprengjur í húsinu í Alcanar sem síðan átti að nota í árásum í Barselóna,“ er haft eftir Josep Lluis Trapero, lögreglustjóranum í Katalóníu.

Talið er að tólf menn hafi verið í hryðjuverkahópnum og að þeir hafi lagt á ráðin um árásina í meira en hálft ár. Abouyaaqoub er sá eini sem enn gengur laus, fjórir eru í haldi lögreglu, fimm létust eftir skotbardaga við lögreglu eftir árásina í Cambrils og enn á eftir að bera kennsl á lík tveggja manna sem létust eftir sprenginguna í Alcanar.

Spænskir fjölmiðlar telja að annar þeirra geti hugsanlega verið múslimaklerkurinn Abdelbaki Es Satty en hinn Youssef Aallaa, bróðir eins þeirra sem lést eftir árásina í Cambrils. 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV