Adolf Ingi vann dómsmál gegn RÚV

05.07.2017 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómur er fallinn í skaðabótamáli Adolfs Inga Erlingssonar, fyrrverandi íþróttafréttamanns Ríkisútvarpsins, gegn RÚV vegna eineltis á vinnustað og ólögmætrar uppsagnar. Adolf Ingi vann málið, en Ríkisútvarpið var dæmt til að greiða honum 2,2 milljónir króna í bætur.

Adolf Ingi höfðaði mál gegn RÚV þann 16. febrúar 2016 og krafðist þess að Ríkisútvarpið greiddi honum rúmar 10 milljónir í skaðabætur og miskabætur, en til vara að bætur yrðu ákvarðaðar að álitum.

Adolf Ingi hóf störf hjá RÚV vorið 1991 við dagskrárgerð í útvarpi og síðar um haustið á íþróttadeild. Í málavaxtalýsingu dómsins kemur fram að bótamálið eigi upptök sín í skipulagsbreytingum sem urðu hjá Ríkisútvarpinu haustið 2008. Var þá íþróttadeildin færð undir sameiginlega fréttastofu og Kristín Hálfdánardóttir ráðin í starf íþróttastjóra skömmu síðar.

Adolf Ingi lýsti í kjölfarið óánægju sinni með ráðninguna vegna reynsluleysis Kristínar. Í framburði vitna kemur fram að Kristín hafi virst óánægð með stöf Adolfs og haft litla þolinmæði gagnvart honum.

Kristín tilkynnti svo Adolfi um breytingar á verkefnum hans árið 2010 og var Adolf að miklu leyti tekinn úr reglulegum verkefnum í sjónvarpi á borð við að lýsa íþróttakappleikjum. Honum var í staðinn falið að skrifa fréttir fyrir vefsíðu og útvarp. Í kjölfarið var Adolf færður úr stað innan útvarpsins og látinn sitja á öðrum stað en aðrir íþróttafréttamenn.

Við þetta tækifæri gerði hann munnlegan samning við yfirmenn sína um að vaktaálagsgreiðslur sem hann hafði fengið í starfi fram að því héldu sér þó verkefni hans innan stofnunarinnar breyttust. Síðar féllu þær greiðslur niður af óútskýrðum ástæðum.

Adolf lýsti því fyrir dómi að einelti gagnvart honum hafi aukist upp úr þessu, en hann hefði ákveðið að „bera harm sinn í hljóði".

Í árslok 2013 reyndist nauðsynlegt að grípa til aðhaldsaðgerða í rekstri Ríkisútvarpsins og var þá gripið til hópuppsagna. Var þá Adolfi Inga sagt upp störfum ásamt öðrum. Hann hafði þá starfað fyrir RÚV í 22 ár og fékk engar málefnalegar skýringar á uppsögninni.

Adolf Ingi ákvað í kjölfarið að höfða mál og byggði dómskröfur sínar á því að Ríkisútvarpið bæri skaðabótaábyrgð á saknæmri háttsemi og aðgerðarleysi starfsmanna sinna vegna eineltis, ítrekaðra meingerða og ólögmætrar uppsagnar. Ríkisútvarpið mótmælti öllum þessum málsástæðum fyrir dómi.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að hvorki gæti talist til eineltis í skilningi laga að Adolf hefði verið færður á annað skrifborð fjarri íþróttadeild né að öðrum hefði verið falið að annast lýsingar á íþróttakappleikjum. Það teljist hins vegar til eineltis að standa ekki við samkomulag um vaktaálagsgreiðslur í kjölfar þess að verkefni hans innan Ríkisútvarpsins breyttust. Fyrir vikið voru honum dæmdar 500 þúsund krónur í miskabætur.

Þá komst dómurinn að því að uppsögn Adolfs Inga hefði verið ólögmæt og RÚV hefði ekki tekist að færa sönnur á að málefnalegar ástæður hefðu legið fyrir henni. Adolf gerði kröfu um rúmar 6,3 milljónir króna í skaðabætur vegna fjártjóns í kjölfar uppsagnar. Dómurinn horfði til þess að Adolf var ekki tekjulaus næstu ár eftir uppsögnina og komst að þeirri niðurstöðu að 1,2 milljón króna skaðabætur væru hæfilegar.

Loks komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að það hefði verið meiðandi í garð Adolfs að segja honum upp störfum eftir 22 ára feril innan RÚV. Honum voru því dæmdar 500 þúsund króna miskabætur vegna þessa.

Vegna þessa var Ríkisútvarpið dæmt til að greiða Adolf 1,2 milljónir króna í skaðabætur vegna fjártjóns og 1 milljón króna vegna miska, samtals 2,2 milljónir. Við upphæðina leggjast vextir og dráttarvextir. Þá var RÚV dæmt til að greiða málskostnað upp á 1,4 milljónir króna.

 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV