Aðalmeðferð yfir Thomasi lýkur í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Møller Olsen, vegna dauða Birnu Brjánsdóttur, fer fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Meðal þeirra sem gefa skýrslu í dag eru stjórnandi rannsóknarinnar og réttarmeinafræðingur.

Thomas Møller Olsen er ákærður fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og smygl á fíkniefnum. Hann hefur játað fíkniefnasmygl en neitar því að hafa orðið Birnu að dauða.

Dagurinn í dag er sá fjórði sem fer í aðalmeðferð málsins. Tekin var skýrsla af færeyskum skipverjum snemma í síðasta mánuði, áður en formleg aðalmeðferð hófst. Það var vegna þess að þá var skipið Polar Nanoq í höfn í Hafnarfirði og því þótti hagstæðast að taka skýrslu af þeim þá.

Skýrslugjöf annarra vitna fór að mestu fram í byrjun síðustu viku. Þá breytti Thomas framburði sínum í veigamiklum atriðum. Hann sagðist síðast hafa séð til Birnu þegar Nikolaj Olsen, hinn maðurinn sem var í gæsluvarðhaldi, hefði keyrt burt með hana. Það stangast á við fyrri framburð Thomasar hjá lögreglu og það sem lögregla hefur metið af öryggismyndavélum. Thomas hafðu áður sagt hafa átt í samskiptum við Birnu eftir að Nikolaj fór um borð í Polar Nanoq. Í síðustu viku ráku lögreglumenn og starfsmenn lögreglunnar það hvernig lífsýni úr Thomasi hefðu fundist í skóm Birnu og blóð úr henni í bílnum og á úlpu Thomasar. Lögreglumaður sagði að það hefði verið augljóst, um leið og bíllinn sem Thomas leigði fannst, að átök hefðu átt sér stað í bílnum.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn gefur skýrslu í dag, einnig réttarmeinafræðingur og fleiri vitni. Einnig er gert ráð fyrir að málflutningur fari fram í dag.