5 ára á skólabekk?

07.01.2016 - 17:37
Samtök atvinnulífsins leggja til að skólaskylda hefjist við 5 ára aldur og að framhaldsskólanámi ljúki við 18 ára aldur. Samtökin telja að þjóðhagsbatinn vegna þessa yrði um 70 milljarðar króna á ári.

Samkvæmt tillögum SA verður skólaskyldan áfram 10 ár en með því að setjast á skólabekk fimm ára lykju nemendur grunnskólanum einu ári fyrr eða 15 ára. Með styttingu framhaldsskólans í þrjú ár væru flestir að útskrifast úr framhaldsskóla 18 ára. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA, segir að ýmis efnahagsleg rök mæli með því að þessi breyting verði gerð.

„Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir nemendur þannig að þeir flosni ekki upp úr námi og að þeir fái bestu kennslu sem völ er á. Og að við nýtum tímann í leikskóla sem er fyrsta skólastigið, í grunnskóla og framhaldsskóla betur. En ekki síður hitt að við þurfum líka að líta á blákaldar efnahagslegar staðreyndir. Fá fólk fyrr út á vinnumarkaðinn og halda betur utan um fólkið okkar í skólakerfinu,“ segir Þorgerður Katrín.

Auk þess að leggja til að skólaskylda hefjist við 5 ára aldur leggja samtökin til að kennaramenntun verði endurskoðuð, framleiðni og samkeppnishæfni skólakerfisins verði efld og eftirfylgni aukin í kennslu og sömuleiðis endurgjöf til kennara. En með því að færa skólaskylduna niður um eitt ár yrði árleg rekstrarhagræðing hjá sveitarfélögunum um 3,2 milljarðar króna. Í stærra samhengi er talið að efnahagsbatinn gæti orðið allt að 70 milljarðar króna á ári. Það helgast meðal annars af því að ungt fólk kæmi fyrr á vinnumarkaðinn. Talið er að landsframleiðsla myndi aukast um 40 milljarða vegna fjölgunar á vinnumarkaði og um 55 milljarða ef helmingur nemenda kláraði grunnskólann 14 ára.

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi