5-10 prósent komast aldrei á vinnumarkað

27.05.2013 - 20:00
Mynd með færslu
Hætt er við að 5 til 10 prósent ungs fólks á Norðurlöndunum komist aldrei inn á vinnumarkaðinn. Varlega áætlað eru tvö til þrjú prósent þessara ungmenna þegar utan hans, eru hvorki í skóla né vinnu, né heldur að búa sig undir störf.

Atvinnuleysi á norrænum vinnumarkaði er mun meira hjá fólki á aldrinum 15 til 24 ára en almennt er. Fjölgað hefur í hópi ungs atvinnulauss fólks undanfarin ár, ekki síst eftir að efnahagskreppan skall á fyrir fimm árum. 

Björn Halvorsen, ráðgjafi segir að þetta kunni að sýnast lág tala, en rauninni sé hún hærri. Varlega áætlað eigi í raun 5-10 prósent ungs fólks það á hættu að lenda endanlega utan vinnumarkaðar. Það sé ekki víst, en mikið hætta á því. Svo séu, varlega áætlað, 2-3 prósent sem þegar séu utan vinnumarkaðar og verða þar mest allt lífið og það séu ansi mörg ár. 

Það hlutskipti og sú félagslega einangrun sem því getur fylgt er meira áhyggjuefni en tímabundið atvinnuleysi. Halvorsen segir að engin einföld lausn sé á vandanum en bendir á að huga þurfi að efnahagsstefnu stjórnvalda og hve mikil áhersla er þar lögð á atvinnuþátttöku, hvort atvinnustefna taki mið af ungu fólki og því hvernig skólakerfið býr fólk undir vinnumarkaðinn.

Það sé sérstakt umhugsunarefni fyrir íslensk stjórnvöld. Hvergi á Norðurlöndunum er brottfall úr framhaldsskólum meira en hér. Auk alls þessa verði að huga að velferðarstefnunni, því margir þeirra sem lenda utangátta eigi við veikindi að stríða, oft geðræn. Til að vinna gegn brottfallinu verði að byrja snemma og fylgjast grannt með nemendum alveg niður í leikskólann. 

Halvorsen segir að svo þurfi líka að bæta verknámið í framhaldsskólunum og gera það meira aðlaðandi fyrir ungt fólk. Sumir 15-16 ára unglingar séu skelfilega leiðir á stærðfræði og ensku, eða að minnsta kosti kennsluaðferðunum. Hagnýtt nám og verkþjálfun séu betri, sérstklega fyrir strákana.