40.000 heimilislaus í Los Angeles

11.02.2016 - 02:26
epa04534098 A picture made available on 18 December 2014 shows Homeless men, sleep in the Mission Dolores church in Los Angeles, California, USA, on 17 December 2014. For 26 years the church has run a homeless shelter called the Guadalupanos Homeless
Útigangsfólk hefur átt vísan næturstað í Mission Dolores-kirkjunni í Los Angeles um árabil, svo lengi sem húsrúm leyfir.  Mynd: EPA
Borgaryfirvöld í Los Angeles hafa samþykkt áætlun þar sem gert er ráð fyrir að verja tæpum 1,9 milljörðum bandaríkjadala, ríflega 240 milljörðum króna, til að koma heimilislausum borgarbúum til hjálpar. Los Angeles er stundum nefnd höfuðborg hinna heimilislausu. Áætlað er að um 40.000 manns séu þar heimilislausir, þar af minnst 25.000 bókstaflega á götunni.

Í áætlun borgaryfirvalda er gert ráð fyrir byggingu bæði neyðarskýla og langtímahúsnæðis fyrir alla sem á þurfa að halda á næstu tíu árum, auk fleiri úrræða. Sachi Hamai, talsmaður borgaryfirvalda, segir bág kjör heimilislausra einn alvarlegasta vandann sem Bandarískt þjóðfélag glímir við um þessar mundir.

Borgarstjórn Los Angeles lýsti yfir neyðarástandi á síðasta ári vegna mikillar fjölgunar heimilislausra, en þá hafði þeim fjölgað um ríflega tólf af hundraði á tólf mánaða tímabili. Samspil vaxandi atvinnuleysis, eiturlyfjaneyslu og hækkandi húsnæðisverðs er talið meginorsök hinnar miklu fjölgunar í röðum heimilislausra.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV