3 Zika-tilfelli í Noregi

11.03.2016 - 03:57
epa05152762 A yellow fever mosquito (Aedes Aegypti) is presented at a press conference from the Ministry of Science in Wiesbaden, Germany, 10 February 2016. The type is considered the main carrier of the Zika virus, which is currently spreading primarily
 Mynd: EPA  -  DPA
Zika-veiran, sem landlæg er í Brasilíu og víðar í Suður- og Mið-Ameríku, hefur numið land í Noregi. Norsk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í gær að þrír Norðmenn hefðu smitast, þar af tvær þungaðar konur. Sá þriðji er karlmaður. Öll þrjú voru nýlega á ferðinni í Suður-Ameríku. Í janúar greindist ungur Dani með Zika-veiruna. Hann smitaðist einnig á ferðalagi í Mið- og Suður-Ameríku. Zika-veiran hefur einnig greinst í Frakklandi, Bretlandi og á Spáni.

Í öllum tilfellum nema einu smituðust þessir evrópsku ferðalangar með moskítóbiti. Franskur karlmaður, sem þannig smitaðist í Brasilíu, smitaði hins vegar franska unnustu sína þegar heim var komið, er þau höfðu mök.

Zika-veiran hefur nú greinst í ríflega 40 löndum, langflestum vestanhafs. Heilbrigðisyfirvöld hér á landi leggur ekki til ferðabann til þeirra ríkja Suður- og Mið-Ameríku þar sem faraldurinn geisar um þessar mundir en hvetur þungaðar konur sem hafa hug á að ferðast þangað til að fresta för þar til eftir barnsburð, þar sem mikil fylgni hefur komið í ljós milli Zika-sýkinga og fósturskaða. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, ræður þunguðum konum eindregið frá því að ferðast um þessar slóðir.