200 flóttamenn flýðu eldsvoða í næsta húsi

17.05.2017 - 05:35
Mynd með færslu
 Mynd: C.Carlert  -  SVT
Um 200 manns þurftu að yfirgefa flóttamannaheimili í Växjö í Svíþjóð í nótt vegna mikils eldsvoða í skrifstofu- og samkomuhúsi á vegum sveitarfélagsins. Tilkynnt var um brunann laust eftir miðnætti að staðartíma. Húsið, sem var úr timbri, var alelda þegar að var komið og var tekin ákvörðun um að láta það einfaldlega brenna til grunna. Engan sakaði í eldsvoðanum, sem rannsakaður er sem íkveikja.

Í húsinu, sem stóð nærri flóttamannaheimilinu, var meðal annars rekin þjónustumiðstöð fyrir geðfatlaða. Talið er fullvíst að kveikt hafi verið í því og lögregla hefur girt brunarústirnar af og mun rannsaka vettvang í dag. Enginn hefur verið handtekinn vegna íkveikjunnar.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV