
Stabat Mater eftir Giovanni Battista Pergolesi
Hljóðritun úr Hallgrímskirkju frá Pálmasunnudegi 13. apríl sl.
Hallveig Rúnarsdóttir sópran
Hildigunnur Einarsdóttir messósópran
Kammersveit Reykjavíkur
Una Sveinbjarnardóttir leiðari
Björn Steinar Sólbergsson orgel
Arcangelo Corelli 1653 – 1713
Sonate da chiesa op. 3, nr. 4, í h-moll,
Largo - Vivace - Adagio - Presto
Tomaso Albinioni 1671 – 1751 / Remo Giazotto 1910 – 1998
Adagio, í g-moll
Giovanni Battista Pergolesi 1653 – 1710
Stabat Mater
1. Stabat Mater Dolorosa (Duet)
2. Cujus animam gementem (Soprano Aria)
3. O quam tristis et afflicta (Duet)
4. Quae moerebat et dolebat (Alto Aria)
5. Quis est homo (Duet)
6. Vidit suum dulcem natum (Soprano Aria)
7. Eja mater fons amoris (Alto Aria)
8. Fac ut ardeat cor meum (Duet)
9. Sancta mater, istud agas (Duet)
10. Fac ut portem Christi mortem (Alto Aria)
11. Inflammatus et accensus (Alto Aria)
12. Quando corpus morietur (Largo assai) (Alto Aria)
Amen (Presto assai)
Ítalía var uppspretta flestra þeirra nýjunga í tónmáli og formgerð sem sem litu dagsins ljós á barokktímanum. Óperan, óratórían, sinfónían, sónatan og konsertinn, allt eru þetta fyrirbæri sem urðu til og þróuðust í Flórens, Róm, Feneyjum og öðrum menningarmiðstöðvum Ítalíu á 17. öld. Á þessum tónleikum hljómar tónlist eftir þrjá ítalska barokktónsmiði sem fæddust á seinni hluta aldarinnar og teljast allir meðal þekktari höfunda síðbarokksins.
Arcangelo Corelli stundaði tónlistarnám í Bologna og Róm og starfaði lengst af ferils síns í síðarnefndu borginni með stuðningi auðugra velgjörðarmanna. Hann var frábær fiðluleikari og hafði með leik sínum og tónverkum mikil áhrif á framgang fiðlunnar á þessum tíma og lék einnig stórt hlutverk í þróun sónötunnar og konsertformsins. Tónlist hans naut aðdáunar fyrir einstaka fágun og jafnvægi, og fyrir skýra, tjáningarríka og laghæfa fjölröddun. Gagnrýnendur kepptust við að hlaða hann lofi, hann var nefndur „hinn nýi Orfeifur“ og tónskáld víða um lönd á borð við Vivaldi, Couperin, Händel og Bach urðu fyrir áhrifum frá honum. Verk hans voru gefin út í sex tólf verka söfnum, eitt þeirra inniheldur konserta, annað sónötur fyrir fiðlu og fylgirödd (continuo) en hin fjögur geyma tríósónötur, það er að segja sónötur fyrir tvær fiðlur og fylgirödd. Sónatan sem hljómar í dag er úr einu hinna síðarnefndu, op. 3, sem var gefið út í Róm árið 1689. Þetta er verk af þeirri tegund sem nefnd var sonata da chiesa (kirkjusónata) og er samsett af fjórum köflum, hægum og hröðum til skiptis.
Það er óhætt að segja að staða Tomaso Albinonis í tónlistarsögunni sé sérstök. Hann naut mikillar hylli í lífanda lífi, verk hans, sem voru fjölmörg að tölu, hljómuðu víða (Bach hreifst af þeim og samdi fúgur við stef úr þeim), en eins og svo mörg önnur tónskáld barokktímans gleymdist hann fljótlega eftir að hann hvarf úr tölu lifenda. Þegar áhugi á eldri tónlist jókst á síðustu öld var hann einn þeirra meistara sem var aftur dreginn fram í dagsljósið, en ef ekki væri fyrir eitt einstakt verk væri nafn hans líklega aðeins þekkt meðal sérstakra barokkáhugamanna. Og það sérkennilega er að þetta verk, Adagio í g-moll, sem núorðið er án efa eitt af þekktustu tónverkum heims, er alls ekki eftir Albinoni, í það minnsta ekki nema að litlu leyti.
Ítalski tónlistarfræðingurinn Remo Giazotto (1910–1998), sem stundaði rannsóknir á tónlist Albinonis, birti árið 1958 og tryggði sér höfundarrétt á verki með svohljóðandi titli: Adagio í g-moll fyrir strengi og orgel byggt á tveimur stefjabrotum og tölusettum bassa eftir Tomaso Albinoni. Samkvæmt frásögn Giazottos fann hann stefjaefnið sem um ræðir á handritsbroti við rannsóknarvinnu í Saxneska ríkisbókasafninu í Dresden skömmu eftir stríðslok. Hann taldi efnið vera brot úr kirkjusónötu eftir Albinoni og ákvað að „fylla í eyðurnar“. Handritsbrotið hefur aldrei komið fyrir almenningssjónir og sumir telja að Giazotto hafi einfaldlega samið verkið frá grunni.
Höfundur lokaverks tónleikanna ber nafnið Giovanni Battista Draghi í kirkjubókum en er jafnan nefndur Pergolesi eftir bænum Pergola í Marche-héraði á Ítalíu, en þaðan átti hann rætur að rekja. Hann hóf ungur tónlistarnám í fæðingarbæ sínum Jesi en fluttist fimmtán ára gamall til Napolí og nam við hinn sögufræga tónlistarskóla Conservatorio dei Poveri di Gesù Cristo þar í borg. Pergolesi útskrifaðist 21 árs gamall árið 1731 og starfaði næstu ár sem organisti, fiðluleikari og tónskáld, að mestu í þjónustu aðalsmanna. Ferill hans varð þó ekki langur, Pergolesi lést úr berklum í mars árið 1736 aðeins 26 ára að aldri, allra yngstur þeirra fjölmörgu frægu tónskálda liðinna alda sem létust langt fyrir aldur fram.
Í lifanda lífi var Pergolesi einkum þekktur meðal tónlistaráhugafólks í Napolí og Róm þar sem óperur hans og önnur verk höfðu hljómað. Að honum látnum breiddist áhugi á tónlist hans hinsvegar út um Ítalíu og Evrópu alla og nafn hans var fljótlega baðað frægðarljóma. Um hann spunnust slíkar sögur um snilld og dramatísk örlög að helst má líkja við goðsögnina um Mozart hálfri öld síðar. Sá kvittur komst meira að segja á kreik að öfundsjúkur keppinautur úr hópi tónskálda hefði drepið hann með eitri! Nótnaútgefendur sáu sér leik á borði. Á næstu árum og áratugum birtust nokkur hundruð tónverka sem báru nafn Pergolesis og síðari tíma tónlistarfræðingar áttu fullt í fangi með að greina raunveruleg tónverk hans frá verkum sem aðeins höfðu fengið þennan frægðarstimpil til að gera þau söluvænlegri.
Á okkar dögum eru það einkanlega tvö verk sem halda nafni Pergolesis á lofti. Hið fyrra er stutta gamanóperan La serva padrona sem var upphaflega millispil í óperunni Il prigionier superbo. Sú síðarnefnda, sem fjallar um danskan prins og norska prinsessu, féll fljótt í gleymskunnar dá, en millispilið öðlaðist sjálfstætt líf og hafði mikil áhrif á hinn ítalska gamanóperustíl, opera buffa.
Síðara verkið eftir Pergolesi sem enn hljómar reglulega um allan heim er að sjálfsögðu Stabat mater. Fjölmörg tónskáld hafa sett tóna við þessa latnesku 13. aldar sekvensu eftir munkinn Jacopone da Todi (eða Innosentíus páfa III.) um harmkvæli Maríu guðsmóðir og mannkyns við kross Krists, en verk Pergolesis er vafalaust sú gerð sem oftast hefur hljómað í aldanna rás. Verkið er samið fyrir sópran- og alteinsöngvara, tvær fiðlur, víólu og fylgibassa og var að öllum líkindum hið síðasta sem hinn berklaveiki Pergolesi setti á blað, samið á lönguföstu árið 1736. Eiginhandarrit Pergolesis hefur varðveist svo aldrei hefur leikið neinn vafa á því að hann sé réttur höfundur þessa verks. Bræðralagið Cavalieri della Vergine dei Dolori di San Luigi al Palazzo í Napolí pantaði verkið til flutnings á árlegri hugleiðslustund á föstudaginn langa. Alessandro Scarlatti hafði samið samskonar verk fyrir þessar athafnir tólf árum áður, en félagar bræðralagsins álitu tónlist Scarlattis fljótlega „gamaldags“ og leituðu því til Pergolesis.
Verkið náði strax miklum vinsældum og útbreiðslu og var það tónverk sem oftast var prentað á 18. öld. Mörg tónskáld gerðu eigin útsetningu á verkinu og má þar fremstan nefna Johann Sebastian Bach sem flutti verkið í Leipzig í kringum 1746 við þýskan texta byggðan á 51. sálmi Gamla testamentisins (Tilge, Höchster, meine Sünden, BWV 1083).
Í Stabat mater sýnir Pergolesi frábær og fumlaus tök sín á durezze e ligature stílnum sem átti upptök sín í Napolí og einkenndist af löngum og tjáningarfullum ómstríðurunum. Upphafskafli verksins er líklega þekktasta dæmið um þennan stíl. „Fullkomnasti og áhrifamesti dúett sem nokkurn tíma hefur verið saminn!“ sagði heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau. En verkið einkennist líka af léttum og leikandi stíl hinnar ítölsku óperu, svo mjög að tónlistarfræðingurinn Padre Martini lýsti því yfir árið 1774 að sér þætti tónlistin minna of mikið á gamanóperur Pergolesis til að hæfa hinu háalvarlega efni textans. Aðrir gagnrýnendur hafa hinsvegar bent á hárfínt jafnvægið á milli hinna ómstríðu og tilfinningaþrungnu þátta og kafla með bjartara yfirbragði og auk þess hvernig hið fíngerða handbragð höfundarins og léttleikandi tónvefurinn virkar sem sefandi voð á hinar þungbæru tilfinningar sem textinn kveikir í brjósti áheyrenda.
Texti: Halldór Hauksson