
Hvað stendur skrifað inni í húsveggnum?
Það er forn hefð að hafa athöfn þegar hornsteinn mikilvægrar byggingar er lagður og eru þá stundum sett skjöl í blýhólk sem stungið er inn í hornsteininn. Á skjölunum má finna upplýsingar um þann tíma þegar hornsteinninn er lagður og stundum spakmæli eða einhvers konar skilaboð til komandi kynslóða. Í þessum þætti verður fjallað um hornsteina, innanlands og utan, og þau skilaboð sem þeir hafa að geyma. Meðal annars eru nokkrir þingmenn spurðir hvort þeir viti hvaða ritningargrein er letruð inni í hornsteini Alþingishússins, sagt verður frá reiði Jónasar frá Hriflu út af hornsteini Háskóla Íslands, lesið verður úr sögunni „Týnda táknið“ eftir Dan Brown og flutt brot úr leikritinu „Hvað er í blýhólknum?“ eftir Svövu Jakobsdóttur. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.