Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Komandi vetur gæti reynst mörgum heimilum erfiður, meðal annars vegna verðbólgu og hárra vaxta. Samkvæmt nýjum gögnum frá Motus eru vanskil að aukast töluvert og ekki hafa fleiri fasteignaeigendur leitað til Umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda síðan árið 2017. Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara og Arnaldur Sölvi Kristjánsson lektor í hagfræði voru gestir Kastljós.
Hvort er fljótlegra að afgreiða sig sjálf út í búð eða fara bara í röðina á gamla góða kassann? Óðinn Svan fór í búðina á Akureyri og skar úr um það. Í lok þáttar var rætt við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, um hvort stjórnvöld séu farin að undirbúa almyrkvann 2026.
Fréttatengdur skemmtiþáttur þar sem keppendur spreyta sig á misalvarlegum spurningum sem sóttar eru í glóðvolgar fréttir og gamlar í bland. Stjórnandi og spyrill er Kristjana Arnarsdóttir og henni til halds og trausts er fréttamaðurinn Birta Björnsdóttir. Framleiðsla: RÚV.
Keppendur eru Sigmar Guðmundsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Lind Karlsdóttir og Guðmundur Steingrímsson.
Íslensk heimildarþáttaröð í fjórum þáttum. Þótt meirihluti landsmanna búi í þéttbýli býr sumt fólk á stöðum þar sem náttúran hefur meiri áhrif á líf þess en gengur og gerist. Í þessari þáttaröð greinir fólk frá ýmsum stöðum á landinu frá ástríðu sinni fyrir því, hvers vegna það kýs að búa utan þéttbýlis og hvað veldur því að það vill hvergi annars staðar búa. Dagskrárgerð: Magnús Atli Magnússon og Lára Ómarsdóttir.
Marsibil Erlendsdóttir býr á einum afskekktasta bæ landsins og austar er ekki hægt að aka. Hún fluttist að Dalatanga þegar hún var ung stelpa og hefur verið þar allar götur síðan. Þar skiptir veðrið meira máli en víðar annars staðar enda kemur fyrir að Dalatangi lokist af heilu mánuðina. En Marsibil vill hvergi annars staðar búa og segist una sér best í einangruninni. Á Dalatanga líður Marsibil vel, ein á fjöllum með góðan hund eða rollur. Þetta er tanginn hennar.
Árið 2016 voru fimmtíu ár síðan Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar og á þessum fimmtíu árum hefur það sýnt ógrynni af efni allstaðar að af landinu. Í 50 ár eru níu sjónvarpsþættir sem sendir voru út frá vel völdum stöðum á landinu sumarið 2016 þar sem rifjaðar voru upp sögur og svipmyndir af sjónvarpssögu viðkomandi landshluta. Umsjónarmenn: Gísli Einarsson og Guðrún Gunnarsdóttir. Dagskrárgerð: Karl Sigtryggsson.
Í þessum þætti flakka Guðrún Gunnars og Gísli Einars um Vestfirði og rifja upp sjónvarpsefni frá síðustu fimmtíu árum. Þau aka hina svakalegu Svalvogaleið og rifja upp þátt sem Ómar Ragnarsson gerði um þennan veg og ýtumanninn Elís Kjaran. Mick Jagger sést spóka sig á Ísafirði og við hittum manninn sem þekkti hann ekki í sjón! Hin geysivinsæla hljómsveit BG og Ingibjörg kemur við sögu en hún hét reyndar upphaflega BG og Árni. Við fylgjum Stundinni okkar til Suðureyrar. Við lítum við í Ingólfsfirði og á Hornbjargi og við flettum ofan af skíðagöngusvindli! Dagskrárgerð: Karl Sigtryggsson.
Íslensk heimildarþáttaröð þar sem við heyrum einstakar sögur fólks sem hefur látið gott af sér leiða á óeigingjarnan hátt í gegnum starf sitt eða daglegt líf. Í hverjum þætti eru sagðar sögur tveggja einstaklinga sem hafa lagt sig fram við að bæta og efla samfélagið á jákvæðan hátt. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir.
Í þessum þætti kynnumst við Sigurþóru Bergsdóttur, sem notaði sína eigin sáru reynslu af því að missa son sinn til þess að hjálpa öðrum ungmennum í vanda, þegar hún stofnaði Bergið - Headspace. Við hittum líka Bjartmar Leósson sem hefur á undanförnum árum fundið hundruð stolinna reiðhjóla og komið þeim í réttar hendur.
Nýir íslenskir viðtalsþættir þar sem skyggnst er inn í líf fólks sem nýtur eftirlaunaáranna á aðdáunarverðan og jákvæðan hátt. Í hverjum þætti fáum við innsýn í líf einnar manneskju, heyrum sögu hennar, lífssýn og lærdóm sem hún hefur dregið af lífinu, auk þess sem við ræðum þær áskoranir sem fylgja því að eldast. Dagskrárgerð: Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir. Framleiðsla: Elín Sveinsdóttir.
Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri, var alla tíð vakinn og sofinn yfir veðrinu . Hann lifði lífinu á aðdáunarverðan hátt og hafði þann einstaka hæfileika að njóta augnabliksins á gamans aldri. Páll fagnaði níutíu og fimm ára afmæli sínu með fallhlífarstökki, keyrði bíl til níutíu og átta ára aldurs og bjó á eigin heimili fram að hundraðasta aldursári. Við fáum innsýn í líf Páls sem var nýjungagjarn, hæglátur, kurteis og mikill mannvinur. Langri ævi hans lauk á friðsælan hátt stuttu eftir vinnslu þessa þáttar, 10. mars 2024. Hann var þá hundrað ára.
Víkingur Heiðar Ólafsson og Halla Oddný Magnúsdóttir leiða áhorfendur í tali og tónum um töfraheima sígildrar tónlistar. Þau spjalla á léttu nótunum um tónlist frá ýmsum tímum auk þess sem Víkingur leikur verk af nýlegum hljómplötum sínum á sviði Eldborgar í Hörpu.
Sænskur matreiðsluþáttur í umsjón Anne Lundberg og Pauls Svensson. Þau grænvæða vinsæla rétti og skora á kokka að vinna með nýstárlegt hráefni. Jurtaríkið er einungis nýtt að hluta til matar og því er þar enn falin matarkista. Þau ferðast um Skán í leit að hinu óþekkta græna hráefni.
Dana er 9 ára stelpa sem elskar risaeðlur. Líf hennar breytist til frambúðar þegar hún fær gefins handbók um risaeðlur, sem kennir henni ekki aðeins nýja hluti um dýrin, heldur gefur henni ofurkrafta sem gera henni kleift að sjá fyrir sér risaeðlur í raunveruleikanum.
Sænskir þættir sem fjalla um ævintýri sem eiga sér stað í sumarbúðum í Svíþjóð. Þar eru foringjarnir ekki alveg eins og fólk er flest og forvitin börn lenda í fjörugum aðstæðum, sem innihalda meðal annars boga, brjálaða geitunga og bjarnargildrur!
Skemmtiþáttur um íslenska tungu í umsjón Braga Valdimars Skúlasonar og Vigdísar Hafliðadóttur. Þátttakendur etja kappi í fjölbreyttum leikjum og þrautum. Framleiðsla: Skot í samstarfi við RÚV.
Keppendur eru Ágúst Bent Sigbertsson, Erpur Eyvindarson, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Halla Oddný Magnúsdóttir.
Gísli Marteinn tekur á móti góðum gestum á föstudagskvöldum í vetur og fer með þeim yfir helstu atburði vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi. Persónur og leikendur koma í spjall og brakandi fersk tónlistaratriði koma landsmönnum í helgarstemninguna. Stjórn útsendingar: Ragnar Eyþórsson.
Breskur sakamálaþáttur um hinn slungna séra Brown sem er ekki bara kaþólskur prestur heldur leysir glæpsamleg mál á milli kirkjuathafna. Aðalhlutverk: Mark Williams.
Þáttaröðin er hluti af þemanu Sakamálasumar.
Hjartnæmt franskt drama frá 2019 eftir handritshöfunda Intouchables. Myndin fjallar um Bruno sem starfar með einhverfum ungmennum. Aðalhlutverk: Vincent Cassel, Reda Kateb og Hélène Vincent. Leikstjórar: Éric Toledano og Olivier Nakache. Myndin er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.