Dagur í lífi þjóðar

Miðvikudaginn 30. september 2015 bauð RÚV landsmönnum að taka upp brot úr lífi sínu. Markmiðið var að búa til einskonar hversdags sinfóníu, svipmyndir af lífi fólksins í landinu á þessum tiltekna degi. Yfir tuttugu klukkustundir af efni bárust frá vel á þriðja hundrað manns hvaðanæva af landinu. Dagskrárgerð: Ásgrímur Sverrisson.

RÚV kynnir heimildamynd um — þig!

Í næstum hálfa öld hefur RÚV fylgst með lífinu í landinu í öllum sínum myndum. Nú er komið að þér að segja frá því sem þú ert að fást við. RÚV býður þér að taka upp myndavélina miðvikudaginn 30. september næstkomandi og segja í lifandi myndum frá lífi þínu þennan dag.

Þú mátt líka segja frá fólkinu í kringum þig, hverjum sem er (svo framarlega sem viðkomandi samþykki). Við viljum fá efni um þitt daglega líf eða viðfangsefna þinna , efni um það sem þér eða þeim liggur á hjarta. Einlægt og persónulegt efni sem veitir innsýn í líf þitt eða viðfangsefna þinna.

Markmiðið er að búa til heimildamynd sem verður sagan af þessum tiltekna degi í lífi þjóðarinnar.

Hvað ertu að fást við? Hvað er í gangi í lífi þínu? Hver eru verkefni dagsins? Sýndu það – segðu frá! Þú getur myndað hvað sem er, en hafðu það persónulegt og um eitthvað sem skiptir þig máli. Heimildamyndin Dagur í lífi þjóðar snýst um þig.

Við viljum fá hversdagslega viðburði eða eitthvað einstakt – þitt er valið. Þetta geta verið veislur og mannfagnaðir, eitthvað sem þú gerir reglulega eða ert að gera í fyrsta sinn; hvort sem er bera út blöðin, heimsækja foreldra þína, mjólka kýrnar, opna búð, fara í jóga, elda mat, láta klippa hárið, skreppa í ferðalag, flytja í nýja íbúð, gifta þig, eignast barn eða búa þig undir skemmtilegt kvöld – eða eitthvað allt annað! Sértu að gera eitthvað stórkostlegt eða æsispennandi viljum við endilega sjá það, en hvetjum þig að sjálfsögðu til að fara varlega.

Hugmyndir um möguleg umfjöllunarefni eru til dæmis:

• Hvað sérðu þegar þú lítur út um gluggann og hvað finnst þér um staðinn þar sem þú býrð?
• Hvað gerir þig sæla/n og hvar líður þér best?
• Hvað líkar þér eða mislíkar varðandi staðinn sem þú býrð á?
• Hvað hefurðu gaman af að fást við?
• Hvað er það mikilvægasta í lífi þínu um þessar mundir?

Þetta eru aðeins nokkrar tillögur – þú hefur frjálsar hendur (sjá skilmála hér).

Vertu með okkur í að segja einstaka sögu af degi í lífi þjóðar

Myndin verður frumsýnd á RÚV í tengslum við hálfrar aldar afmæli RÚV þann 30. september 2016. Dagur í lífi þjóðar verður gerð undir stjórn Ásgríms Sverrissonar og framleidd af RÚV.

Upplýsingar

Þú getur hlaðið myndefninu þínu upp hér frá 30. september til 13. október. Við viljum aðeins myndefni sem tekið er upp þann 30. september 2015

Smelltu hér til að hlaða inn efniSpurt og svarað

Reglur og leiðbeiningar

Ráðleggingar

Skilmálar

StiklurUNDIRBÚNINGURUPPTAKAUPPHLÖÐUN