Laun lækka en fátækt minnkar  • Prenta
  • Senda frétt

Meirihluti landsmanna kveðst eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman. Þetta er meðal þess sem kom fram í skýrslu um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar. Í dag kom út sá hluti hennar sem fjallar um aðgerðir stjórnvalda - áhrif mótvægisaðgerða á skuldavanda, fátækt og atvinnu


Skuldir landsmanna eru miklar. Þær urðu mestar árið 2009 en hafa lækkað nokkuð síðan. Þó fara nú um ellefu prósent af tekjum heimila í afborganir af lánum. Fólk á mun erfiðara með að láta enda ná saman í heimilisrekstri nú en fyrir hrun. Árin 2006-2008, sögðust aðeins tæp sex prósent vera í miklum erfiðleikum. Þrettán prósent kváðust eiga í miklum erfiðleikum í fyrra og hitteðfyrra. Í skýrslunni kemur fram að fátækt fari minnkandi. Mælikvarðinn er að fátækir séu þeir sem hafa minna en sextíu prósent af meðaltekjum milli handa. Sem þýðir að lækki meðallaun, þarf fólk líka að hafa lægri laun til að það teljist vera fátækt. En samkvæmt þessum mælikvarða voru 18% þjóðarinnar fátæk árið 2007. En aðeins 4,6% nú. Stefán Ólafsson, einn höfundar skýrslunnar, segir að veikleikarnir í aðgerðum stjórnvalda snerti barnabætur og kjör eldri borgara. Barnabætur hafa lækkað jafnt og þétt frá árinu 1997, segir í skýrslunni. Hjá þeim 10 prósentum Íslendinga sem hafa lægstar tekjur, eru þær 3% af heildartekjum. Tekjur eftirlaunafólk hafa minnkað um 13% frá því sem var árið 2008.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku