Kerfinu varla kollvarpað fyrir Costco

Guðrún Hafsteinsdóttir.


  • Prenta
  • Senda frétt

Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til greiða fyrir því að smásölukeðjan Costco opni risaverslun á Íslandi. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir ekki ganga að beygja reglur fyrir eina erlenda verslun heldur verði jafnt yfir alla að ganga.

Costco vill flytja inn og selja ferskt bandarískt kjöt auk lyfja og áfengis. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sagði í fréttum RÚV á þriðjudag að á meðan Costco sýndi þessu eins mikinn áhuga og þeir væru að gera þá væru stjórnvöld reiðubúin til að greiða úr þeim úrlausnarefnum sem fyrir hendi væru.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Það kemur henni spánskt fyrir sjónir ef stjórnvöld vilja kollvarpa kerfinu vegna bandarískrar verslunarkeðju. „Því að íslensk verslun hefur barist fyrir breytingum á kerfinu. Hafa kallað eftir breytingum á landbúnaðarkerfinu og fá að selja áfengi í verslunum. Og þá kemur það auðvitað spánskt fyrir sjónir að við séum tilbúin til að  kollvarpa öllu okkar kerfi af því að  bandarískur verslunarrisi vilji koma hingað.“

Hún bætti við að sér þætti ólíklegt að stjórnvöld muni gera róttækar breytingar á t.d. lögum um innflutning á kjöti til að koma til móts við Costco en verði gerðar breytingar þurfi þær að ganga yfir alla. „Að mínu mati verður ný verslun í Reykjavík, hvort sem það er bandarísk verslunarkeðju eða ekki, að fara eftir íslenskum lögum. Það er ekki hægt að beygja reglur eingöngu fyrir hana.“

Guðrún ræddi einnig möguleika á auknum viðskiptum við Bandaríkin. Hún telur hvalveiðar spilla verulega fyrir og að best sé að hætta þeim. Verið sé að kasta krónunni til að spara aurinn. 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku