Bara listamaður

Andri Snær Magnason.


  • Prenta
  • Senda frétt

Andri Snær Magnason flutti pistil í Víðsjá mánudaginn 12. ágúst.

Hver getur stjórnað okkur?

Á undanförnum árum hefur reglulega blossað upp umræða um listir, listamenn, framlag lista og oftar en ekki eru listamenn tengdir við eitthvað ábyrgðarlaust, að starf þeirra sé einskonar áhugamál, föndur aða dútl.

Ég velti fyrir mér hvaðan þessi hugmynd kemur. Hefur nokkur velt fyrir sér hvaða fólk þarf að vinna saman til að leiksýning getur orðið að veruleika? Leikstjórinn þarf að vinna með leikskáldi, leikara, leikmyndateiknara, hann þarf að fylgja ákveðinni listrænni sýn og koma henni til skila. Leikstjóri þarf að vinna með ljósamönnum, tæknifólki, búningahönnuðum og sminkum. Það þarf að vinna með húsverði, sviðsmönnum og svo þarf að markaðssetja og selja sýninguna. Leiksýningar eru ákveðnar með löngum fyrirvara, menn vita af frumsýningardegi allt að ári fyrir tímann. 16. Febrúar klukkan 8 árið 2015. Leikhúsgestir hafa eflaust tekið eftir því að sýningin hefst yfirleitt á hárréttum tíma, tímasetning ljósa og samhæfing við leikara er stillt upp á hár, leikarar eru þekktir fyrir að mæta á svið, hvort sem konan er á fæðingardeildinni eða ættingi á dánarbeðinu.

Ég man ekki eftir neinni leiksýningu sem hefur byrjað of seint og veit af fáum frumsýningum sem hafa frestast. Hins vegar hef ég oft beðið nokkrar vikur eftir smiði og múrara. En það er auðvitað önnur saga.

Margir listamenn hafa hæfileika til að skilgreina hvað er verðmætt og hvað ekki og skapa þannig verðmæti úr engu. Þannig eru þeir ekki endilega fangar peningalegra verðmæta heldur afl sem skapar huglæg verðmæti. Jónas breytti lóunni úr móbrúnum mófugli í heilagan vorboða. Tómas breytti ljótri borg með rottum og slorlykt í rómantískan stað. Þannig geta listamenn oft gengið um í gömlum fötum og búið í gömlum húsum án þess að glata sjálfsvirðingunni. Þannig ryðja þeir oft brautina fyrir aðra í endurnýjun borgarhverfa og flýta hringrás tískunnar.

Þetta er eitthvað sem flestum ætti að vera ljóst en samt er orðið listamaður oft notað um ábyrgðarlausa einstaklinga enda er vinnutími þeirra óreglulegur og þeir sjást stundum á vappi þegar aðrir eru í vinnunni. Það vill nefnilega svo til að þegar fólk fer á tónleika og dansar fram á nótt þá er einhver í vinnunni.

En hafa menn velt fyrir sér hvaða samhæfingu þarf til að koma einni hljómsveit á milli þrjátíu borga í fjórum heimsálfum á 40 dögum? Og hversu flókið það er að semja heila plötu og undirbúa tónleikaferðalag í leiðinni. Þeir sem sáu Bíófílíu Bjarkar eða tónleika Sigurrósar hafa eflaust velt fyrir sér, hvílík vél er þar á ferðinni, Björk ferðast með heilan Langholtskirkjukór og gerir stúlknahóp að heimsborgurum á örfáum mánuðum.

Í hundrað manna Sinfóníuhljómsveit liggja að minnsta kosti 1500 ára nám - í mannárum talið. Ég held samt að flestir átti sig á þvílíkan sjálfsaga sem þarf til að ná tökum á öllum þessum hljóðfærum, og síðan að stjórna þeim öllum svo þau hljómi vel.

Þess vegna er stundum sérkennilegt að hlusta á fólk tala um að einhver hafi ekki vit á samfélagsmálum vegna þess að viðkomandi sé ,,bara" listamaður. Þegar við höfum allar þessa fyrirmyndir fyrir augunum þá má spyrja sig hvers vegna ímynd listamanna er ímynd óáreiðanlega slæpingjans, ímynd ábyrgðarlausa og loftkennda draumóramannsins.

Nú hefur borgin verið í höndum listamanna í þrjú ár á nokkuð erfiðum tímum. Í borgarstjórnarflokknum er raftónlistarmaður, popptónlistarmaður, þungarokkari og bóksali, uppistandari, leikari og rithöfundur, arkítekt svo fátt eitt sé nefnt. Margir töldu að það væri fullkomið glapræði að fela listamönnum stjórn borgarinnar. Að það fæli í sér fullkomna uppgjöf gagnvart skynseminni.

En eftir þrjú ár held ég að menn séu nokkuð sammála því að í meginatriðum hafi stjórn borgarinnar gengið vel, engir skandalar í hámæli, Orkuveitan að rétta við sér en helsta umkvörtunarefnið eru loðnar umferðareyjar. Þá hugmyndafræði má eflaust rekja til annars listamanns, Hrafns Gunnlaugssonar sem benti á að með því að ákveða að meta fegurð túnfífilsins geti borgarbúar sparað sér nokkra tugi milljóna á ári, á svipaðan hátt og maður getur látið sér líka við gamlan jakka eða kjól af ömmu sinni.

En það má spyrja sig. Af hverju datt okkur í hug að jakkafataklæddir karlmenn með bakgrunn í viðskiptum eða lögfræði séu betur til þess fallnir að stjórna stóru gangvirki eins og borg heldur en einhver sem hefur sett upp heila leiksýningu, stýrt listahátíð eða farið með hljómsveit milli fimmtíu borga í fjórum heimsálfum.

Ég ætla ekki að segja að allt sé fullkomið í rekstri bogarinnar, mér finnst ennþá að menn eigi eftir að leysa NASA málið farsællega svo að allir gangi sáttir frá borði. En mér finnst mikilvægt hvernig mönnum hefur tekist að brjóta upp hugmyndina um hver er fær um að fara með vald og hver ekki.

Við erum alin upp við að samkeppni sé nauðsynleg og grunnþáttur velgenginnar en ef tónlistarflóran hérlendis er skoðuð þá er augljóst að velgengnin og gæðin byggir ekki á hörku og samkeppni heldur þvert á móti. Skilin milli hljómsveita virðast stundum alls ekki niðurnegld og augljós og árangurinn virðist sá að mörgum gengur vel og tónlistin sem kemur út á hverju ári er frumleg og framsækin. Hljómsveitirnar sem spretta upp koma manni sífellt á óvart. Ég held að rekstur borgarinnar sé ekki tilviljun heldur hafi menn jafnvel kunnað sitthvað fyrir sér. Ég held að menn gætu jafnvel litið á listalífið og lært enn meira af því.

Það má benda á að FM Belfast er líka Örvar í múm og þau fá stundum Unnstein úr Retro Stefsson lánaðan. Högni í Hjaltalín flæðir inn í Gus Gus sem er með Daníel Ágúst innanborðs sem er líka í Nýdönsk. Og Jónsi slitnar frá Sigurrós og fer á eigin túr með tónlistarmönnum eins og Óla Birni og sem eru líka öðrum hljómsveitum. Og þannig eru margar hljómsveitir eins og amöbur, flæða saman og sundur, tengjast og slitna í nýjar hljómsveitir eða sérverkefni. Hljóðfæri og græjur fara á milli, trommari getur smitast á milli og verið samtímis í nokkrum hljómsveitum.

Það er eflaust rígur einhversstaðar á milli manna en það er sjalfgæft að rekast á tónlistarmann sem skilgreinir sig opinberlega út frá andstöðu við aðra tónlistarmenn og grasrótin virðist ekki skiptast upp í tvo hópa sem skilgreina sig sem andstæðinga. Það er frekar að menn hafi komið mér á óvart með því að tala vel um aðra, raftónlistarmaður sagði mér um daginn að Skítamórall hafi verið ágætt band, vegna þess að þeir gerðu vel það sem þeir ætluðu sér að gera.

Á undanförnum árum hefur hagfræðileg orðræða rutt sér til rúms á nánast öllum sviðum. Við fjárfestum í menntun, fjárfestum í menningu, fjárfestum í öldrunarlækningum. Um leið þarf hagfræðistofnun að blessa hluti með því að sýna fram að þeir skili ávinningi og ef það tekst ekki þá má meta virði landkynningar eða nota aðrar röksemdafærslur sem gleyma þó helsta inntakinu, sem er gildi listarinnar fyrir andann, fyrir þroska okkar, fyrir mannskilning og samfélagið.

Stundum öfunda ég kirkjuna vegna þess að hún getur ennþá talað án þess að nýta sér þessa orðræðu. Hún þarf ekki að reikna út að það borgi sig að vera góður við aðra eða að það geti valdið neikvæðum hagvexti að ljúga of mikið eða stela. Við eigum hins vegar orðið erfitt með að tala um menntun sem skilar ekki beinum tekjum, tónlist sem sem verður ekki landkynning og nýtist ekki í auglýsingar og bækur sem höfða til afar fárra.

Ég velti fyrir mér hvort við gætum lært meira af þessari menningu. Væri betra ef samfélagið almennt losaði um landamærin og yrði meira eins og amaba, að menn leyfðu tækjum og fólki bara að flæða aðeins betur á milli? Að menn reyndu að afnema tvískiptinguna.

Það væri gaman að sjá þessa menningu smitast út í stjórnmálin. Að menn færu að afnema landamærin og skilin, að menn hættu að skilgreina sjálfsmynd sína út frá ímynduðum andstæðum - heldur flæddu bara á milli eins og trommari milli hljómsveita, vera jafnvel í fjórum flokkum samtímis. Það gæti orðið fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með því.

 

 

 

 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku