Svikin um­fangs­meiri en Procar hefur viðurkennt

Gögn sem fréttaskýringaþátturinn Kveikur er með sýna að átt hafi verið við kílómetrastöðu í bílum fyrirtækisins frá 2011 til 2016, hið minnsta. Kveikur fékk gögnin afhent frá fyrrverandi starfsmanni bílaleigunnar en þau eiga uppruna sinn í tölvukerfi hennar.

Elsta dæmið sem er að finna í gögnunum er frá því í ágúst árið 2011, þegar akstursmæli Mözdu Tribute bifreið var spólað til baka um tæplega 20 þúsund kílómetra. Nýjasta dæmið er frá 2016, þegar akstursmæli Nissan Qashqai bifreiðar var spólað til baka um rúmlega 40 þúsund kílómetra.

Sjá einnig: Breyta kílómetrastöðu bíla fyrir sölu

Gögnin bera það einnig með sér að minnst þrír af lykilstjórnendum Procar hafi verið meðvitaðir um svikin. Persónulegur aðgangur þeirr að kerfinu var notaður til að færa inn breytta kílómetrastöðu bílanna.

Reyna að skila bílum

Bílasölur- og umboð sem átt hafa í viðskiptum við Procar eða haft milligöngu um sölu bíla fyrirtækisins, hafa í gær og í dag, reynt að losa sig við bílana og afhenda þá aftur forsvarsmönnum Procar. Bílasali sem Kveikur ræddi við í dag sagðist þegar í gær byrjað að aka bílum frá fyrirtækinu af bílaplani sölunnar og að skrifstofu Procar.

BL er eitt þeirra fyrirtækja sem átt hafa í viðskiptum við Procar og íhugar nú stöðu sína. Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs, segir málið vera gífurleg vonbrigði.

„Þetta er áfall, ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir greinina. Og það gefur auga leið að það sem er að koma upp núna er mjög alvarlegt, og snýr ekki bara að þeim sem hefur keypt bílinn heldur líka að okkur,“ segir hann.

„Ef við tökum sem dæmi að bíll hefur verið ekinn raunverulega 120 þúsund og skrúfaður niður í ég veit ekki 95 eða eitthvað og seldur og viðkomandi kaupandi kemur beint til okkar út af einhverju sem flokkast undir ábyrgð, þá er búið að plata okkur.“

Vilja upplýsingar um fjölda bíla

BL hefur þegar sent lögmönnum Procar erindi vegna 200 bíla.

„Við erum með svokallaðan gæðastjóra hérna, sem er búinn að vera að vinna bara, hefur ekki gert neitt annað en að vinna að þessu máli, og við erum búin að senda nú þegar lista með um 200 bílum á lögmannsstofu, Draupni, sem hefur tekið að sér þetta mál fyrir hönd Procar. Og þeir taka sér 14 daga til að svara. Meira vitum við ekki,“ segir Skúli.

Þetta miðar við tímabilið sem Procar nefndi í yfirlýsingu sinni eftir þátt Kveiks. Skúli segir að ljóst sé að athuga þurfi fleiri bíla nú þegar ljóst er að tímabilið er í raun lengra.

Ekki hefur náðst í eigendur Procar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Kveiks undanfarna daga.