Svarta hliðin á íslenskum vinnumarkaði

Skoðaðu sérstaka vefútgáfu af umfjöllun Kveiks um svörtu hliðina á íslenskum vinnumarkaði.

Allt frá því stuttu eftir aldamót hafa reglulega borist fréttir af bágum kjörum erlends verkafólks hér á landi.

Allt að 30 þúsund erlendir ríkisborgarar eru í dag starfandi á íslenskum vinnumarkaði og hafa aldrei verið fleiri.

Þrátt fyrir fjöldann og framlag hans til samfélagsins hefur hann litla sem enga rödd og býr almennt við verri kjör og aðbúnað en Íslendingar í sömu störfum.

Skrunaðu niður til að skoða sérstaka vefumfjöllun eða horfðu á þáttinn hér.

Hjalti Tómasson var lengi til sjós en hefur sinnt eftirliti með kaupum og kjörum verkafólks í landi síðustu ár. Hann er ýmsu vanur í störfum sínum enda einn reynslumesti starfsmaður eftirlitsins sem komið var á fót 2010 af stéttarfélögum og atvinnurekendum til að tryggja að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum væri fylgt á vinnumarkaði.

„Við erum náttúrulega alltaf með augu og eyru opin og fáum ábendingar utan að, jafnvel frá öðrum fyrirtækjum sem eru með sína hluti í lagi en eru svo í samkeppni við aðila sem beita öllum ráðum til að koma sér undan því að taka þátt í samfélaginu. Stór hluti af því er bara fólk sem er að leita sér að ódýru vinnuafli, já og ekki ódýru heldur bara ókeypis,“ segir hann.

„Fullt af fólki út um allan heim, það sér Ísland í hillingum. Og þó að það þurfi að þrífa klósett til að geta verið á Íslandi þá er það bara í lagi.“

Árið 2016 var blásið í herlúðra gegn síaukinni ólöglegri þátttöku sjálfboðaliða á vinnumarkaði sem sögð var grafa undan samkeppni, veikja vinnumarkaðinn og kosta ríkið háar fjárhæðir vegna vangreiddra skatta.

Lúðrablæstri yfirvalda hefur þó lítið verið fylgt eftir enda eru íslenskar auglýsingar eftir sjálfboðaliðum fyrirferðamiklar á erlendum vefsíðum.

„Svo náttúrlega harðneita þau fyrir að vera með sjálfboðaliða í vinnu og svo þegar maður fer og heimsækir þessar síður þá sér maður bara þakklætið frá þessum sjálfboðaliðum sem hafa verið í vinnu hjá þeim,“ segir Hjalti.

Við fylgdum Hjalta og Kolbrúnu eftir í eina eftirlitsferð; í Hólmasel.

Iceland dog sledding býður upp á hundasleðaferðir sem eru vinsælar hjá ferðamönnum allt árið um kring.

Fyrirtækið veltir um 100 milljónum árlega en hagnaður þess er hátt í 50 milljónir króna síðastliðin fjögur ár.

Launakostnaður fyrirtækisins er enda í engu samræmi við umfangið enda halda hátt í tíu sjálfboðaliðar starfseminni uppi.

„Það hafa átt sér stað bréfaskipti við þennan atvinnurekanda. Þar sem við létum hana vita að þetta væri ólöglegt og í bréfi sem hún skrifaði mér til baka lofaði hún mér að taka þetta til greina. Síðast í gær var auglýsing frá henni inni á Workawayþar sem hún er að auglýsa eftir sjálfboðaliðum, þannig að hún ætlar ekki að taka mark á þessu,“ segir Hjalti.

Á netinu lýsa fyrrum sjálfboðaliðar allt að 12 tíma vinnudögum sínum í Hólmaseli þar sem þeir búa ýmist í gámum eða tjaldvögnum.

Fimm starfsmenn, reyndust án kennitölu og atvinnuleyfis. Síðast þegar fréttist hafði engin breyting orðið á starfseminni í Hólmaseli.

Hjalti og Kolbrún telja að svo væri ekki ef skatturinn væri virkari í eftirlitinu og beitti sínum úrræðum.

„Þetta er búið að vera svona í tíu ár þannig að það hefur aldrei verið unnið í því að ná þessum stað eða þessum stöðum sem eru að gera þetta, kannski eins og Hjalti segir, úrræðaleysið er kannski þannig.“

Ferðinni var næst heitið til Víkur í Mýrdal þar sem ítrekað hafa verið höfð afskipti af rekstri gistiheimilis.

„Stéttarfélagið á staðnum er nýbúið að innheimta tvær og hálfa milljón í laun fyrir starfsmann sem var þarna. Sá var búinn að vera þarna meira og minna í sjálfboðaliðastarfi og hafði fengið greidda einhverja vasapeninga,“ segir Hjalti.

Marg ítrekaðar heimsóknir, athugasemdir og málarekstur virtist nú loksins hafa skilað sér.

„Ég veit ekki hvað ég er búinn að koma þarna oft í það heila. Sennilega fimm, sex sinnum og það hefur aldrei verið neitt í lagi fyrr en núna. Við vorum bara sannfærð um það að það væri búið að laga þetta og þangað til annað kemur í ljós þá bara trúum við því. En við eigum eftir að koma þarna aftur.“

Málum á borði eftirlitsins hefur fjölgað ár frá ári. Oft leysast þau fljótt og vel. Þeim sem einkennast af einbeittum brotavilja hefur fjölgað og taka mun meiri tíma.

„Það eru lögfræðingar sem eru í því að ráðleggja þessum fyrirtækjum um hvernig eigi að koma sér undan hlutunum. Þetta vitum við,“ segir Hjalti.

Skortur á viðurlögum hjálpar ekki til. Það hefur nánast engar afleiðingar að svíkja fólk um laun. Komist upp um þig, endurgreiðirðu einfaldlega án kostnaðar og getur haldið uppteknum hætti.

„Það á ekki að gera greinarmun á því hvernig þú stelur pening. Hvort að ég fer í veskið þitt og stel þrjátíu þúsund kalli þar. Eða læt þig vinna fyrir umsamin þrjátíu þúsund kall og borga þér ekki. Þetta er sami þjófnaðurinn ekki satt?“

Það að yfirvöld hafi lítið fylgt eftir yfirlýsingum um bann við ólaunaðri vinnu, er ekki skrýtið enda hefur sjálft ráðuneyti vinnumarkaðsmála í mörg ár auglýst eftir sjálfboðaliðum til að sinna fólki með fötlun.

„Við erum að tala um ríkið. Sem auglýsir eftir starfsfólki til að vinna ólaunaða vinnu. Við erum að tala um aðila, hluta af batteríinu sem setur lögin og hluta af batteríinu sem á að framfylgja þeim, og þeir eru sjálfir að auglýsa. Í blóra við eigin lög,“ segir Hjalti.

Brattahlíð travel skipuleggur gönguferðir um Ísland. Carolina kom á þess vegum hingað til lands vorið 2017. Þá blasti við önnur mynd.                              

Þeir sögðu mér að ég fengi starfsþjálfun í fimmtán daga. Þú tekur að þér ferðir sem fólk greiðir tvö þúsund evrur fyrir; svo að ekki var borgað fyrir þjálfunina. Eftir tvo eða þrjá daga spurði ég stjórnandann hvort ég ætti ekki að skrifa undir starfssamning eða hvenær ætti ég að undirrita hann. Nei, þú þarft ekki samning á Íslandi. Eftir það varð þetta dálítið ruglingslegt. Ég fór aldrei í Landmannalaugar svo að ég sinnti öðrum verkum eins og þrifum og tiltektum, eldamennsku. Svo að þetta var allt annað en ég átti von á,“ segir Carolina.

Fyrirtækið hafði aldrei sótt um íslenska kennitölu fyrir Carolinu hér á landi, eins og hún komst að þegar hún talaði við Hagstofuna.                      

Ég spurði hvort ég væri hér starfandi, hvort það væri að sjá. Hef ég eitthvað um það hér á Íslandi? Konan á Hagstofunni svaraði því til að ég væri ekki starfandi hér.

Hún sagði í framhaldinu upp vinnunni en það tók hana langan tíma að fá laun. Og þá allt önnur en samið hafði verið um og íslenskir kjarasamningar gerðu ráð fyrir. 40 þúsund krónur fyrir 20, tólf tíma vinnudaga.

Brattahlíð krafði hana um endurgreiðslu flugmiða, en afhenti henni hvorki launaseðil né kvittun fyrir flugmiðanum.

Carolina leitaði til stéttarfélags, sem gerði launakröfu á fyrirtækið. Hún hljóðaði upp á 800 þúsund krónur og var meðal annars studd ökuritum bíla sem Carolina hafði ekið í vinnu sinni og sýndu einnig hvernig fyrirtækið braut lög um hvíldartíma.

Hún fékk fljótlega vinnu hjá íslensku fyrirtæki þar sem hún varði sumrinu við mun betri aðstæður.

„Ég fæ frídaga en það hafði ég ekki. Ég fæ rétt útborgað, allar klukkustundirnar.,“ segir hún.

Það tók Eflingu heilt ár að sækja laun Carolinu. Hún féllst á hálfa milljón króna frá fyrirtækinu enda ljóst að færi málið fyrir dóm gæti það auðveldlega dregist um ár í viðbót.                  

Ég varð að vera sú sem sagði stopp. Og ég vona að aðrir verði ekki fyrir þessu.

Lögunum ekki fylgt eftir

Árið 2005 voru fyrst sett lög um starfsemi starfsmannaleiga, gagngert til að tryggja kjör og aðbúnað þeirra þúsunda starfsmanna sem hér voru á þeirra vegum og höfðu ítrekað verið sviknir um slík réttindi.

Lögin eru skýr. Samkvæmt þeim er bannað að greiða manni sem leigður er frá starfsmannaleigu inn til fyrirtækis, lægri laun en hann fengi ef hann væri ráðinn til fyrirtækisins beint. Starfsmannaleigum er líka bannað að láta starfsfólk greiða fyrir vinnu sína. Og allar starfsmannaleigur þurfa að skrá sig og skila inn ráðningarsamningum starfsmanna sinna til Vinnumálastofnunar sem ber að fylgja lögunum eftir.

Í vor kom svo inn í lögin ákvæði um keðjuábyrgð, sem færir aukna ábyrgð á fyrirtæki sem leigja til sín slíka starfsmenn og gerir auðveldara að sækja rétt þeirra.

Allt hljómar þetta nokkuð vel en lengra nær það í raun ekki.

Lögunum virðist enda lítið fylgt eftir – þó Vinnumálastofnun geti beitt bæði háum dagsektum og stöðvað starfsemi starfsmannaleigu. Brot á lögunum virðast þó daglegt brauð.

Fjöldi starfsfólks starfsmannaleiga hefur að sama skapi fimmfaldast, úr 300 árið 2016 í 1500 í ár og Starfsmannaleigur á skrá eru nú 30 talsins.

Rúmenarnir Cosmin Dragomir, Dan Cosma og Dumitru Sava hafa síðustu mánuði starfað í byggingarvinnu á höfuðborgarsvæðinu; sinnt gluggaskiptum hér við Landspítalann og  á byggingasvæði við Smáralind í Kópavogi.

„Þetta er einfalt, vinna, fá laun og senda peninga heim til barnanna. Ég er fyrirvinnan, ég verð að sjá um þau,“ segir Cosma.

Þrátt fyrir lögin, hafa þeir verið á mun lægra kaupi en samstarfsmenn þeirra á íslenskum vinnustöðum.

Þremenningarnir eru nefnilega starfsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu - sem auk þess að greiða þeim lægstu mögulegu laun, heldur eftir allt að helmingi þeirra. Þeir segjast hafa látið plata sig hingað til lands.

„Starfsmannaleigan hugsar bara um peninga,“ segir Dragomir.

„Á þessum launum get ég ekkert gert. Þegar við vinnum ellefu stundir, tíu ellefu stundir á dag. Ég er að svipast um eftir annarri vinnu,“ segir Cosma.

Þeir segjast ekki eiga efni á að hætta og yfirgefa Ísland.

Þeir búa ásamt 45 öðrum í húsnæði starfsmannaleigunnar í Kópavogi allt að sex saman í herbergi.

Herbergi rúmenanna.

Fyrir þetta borgar hver og einn hátt í 80 þúsund krónur á mánuði til starfsmannaleigunnar sem leigir þeim sömuleiðis bíl sem þeir deila allt að 9 saman og eru rukkaðir fyrir um 10 þúsund krónur hver. Allir greiða þeir svo um sjö þúsund krónur til vinnuveitanda síns fyrir líkamsræktarkort óháð því hvort þeir nýti það.

Alls tæpar 100 þúsund krónur sem starfsmannaleigan tekur að jafnaði af launum hvers þeirra - hver einustu mánaðamót.

Og raunar oft meira. Menn í vinnu sekta starfsmenn um allt að 15 þúsund krónur vakni grunur um að þeir hafi reykt í bílum starfsmannaleigunnar. Þá grunar einnig að flugfarið sem þeir endurgreiða vinnuveitanda sínum sé ofrukkað.

Tvö hundruð evrur einn mánuðinn og sama annan mánuð. (25 þús. ÍSK). Miðinn kostaði um 100 evrur, frá Búdapest og hingað,segir Cosma.

Dæmi um launaseðil.

Tímakaup þeirra er lægsti mögulegi taxti - 1570 krónur í dagvinnu. Fyrir mánuðinn hafa þeir í vasann um 180 þúsund krónur fyrir 200 stunda vinnu, eftir að starfsmannaleigan hefur tekið sinn skerf og oftar en ekki vantar svo tíma í uppgjörið. Eins virðist málum blandið um afdrif orlofs sem dregið er af þeim og jafnvel lagt inn á mismunandi reikninga milli mánaða.

Ég fer í bankann að athuga stöðuna og er sagt að ekkert sé inni á orlofsreikningnum. Orlofið er lagt inn á reikninginn þeim þeirra hjá starfsmannaleigunni,“ segir Dragomir.

Starfsreynsla og menntun þeirra virðist litlu skipta.

Herbergisfélagi minn er löggiltur pípulagningamaður og hefur starfað sem slíkur í 20 ár. Hann er eldri maður, fimmtíu og eins árs. Og hann fær sömu laun og við,“ segir Cosma.

Stór ástæða þess hve illa gengur að taka á málum sem þessum er sú að öll ábyrgðin er sett á herðar starfsmannanna sjálfra, sem oft eiga líka húsaskjól undir vinnuveitanda sínum. Stéttarfélög eiga oft erfitt með að grípa inn í nema í nafni starfsmannsins.

Vinnumálastofnun er svo gagnrýnd fyrir að sinna ekki skyldum sínum og nýta heimildir til að grípa inn í, á sama tíma og forstjóri hennar segi opinberlega að alla vega þriðjungur starfsmannaleiga brjóti lög.

Nokkrum dögum eftir að við ræddum fyrst við rúmenanna var tveimur þeirra sagt upp störfum en einn þeirra hafði þegar komist í aðra vinnu. Ástæða uppsagnarinnar var að sögn sú að vinnuveitandi þeirra hafði haft pata af samtali þeirra við Kveik. Þeir leituðu í kjölfarið til Eflingar sem er nú með mál þeirra til skoðunar. Þar hittu þeir fyrir tilviljun aðra starfsmenn starfsmannaleigunnar í sömu erindum.

Það eru ekki bara skjólstæðingar starfsmannaleigunnar sem hafa kvartað. Eigandi byggingafyrirtækis sem hefur um nokkurt skeið fengið leigða til sín starfsmenn frá Mönnum í Vinnu Kvaðst í samtali við Kveik hafa í tvígang krafið Menn í vinnu um úrbætur og hótað uppsögn samnings verði ekki bætt úr kjörum starfsmannanna.

Sögur áþekkar þessum eru langt í frá einsdæmi. Starfsmannaleigan Elja, er stærst á markaði hérlendis með 500 starfsmenn á skrá. Hluti þeirra hefur gagnrýnt kjör sín hjá Elju.

„Það er alveg tvöfalt launakerfi í landinu. Annars vegar Íslendingar og hins vegar erlendir starfsmenn,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar.

„Þetta er bara úr raunveruleikanum að það eru kannski sex starfsmenn í einni íbúð og hver þeirra borgar 70-75 þúsund á mánuði, það eru tveir í herbergi. Og það er ekki lítil upphæð sem er þá verið að borga fyrir íbúðina í hverjum mánuði, kannski milli fjögur og fimm hundruð þúsund,“ segir Þorbjörn, hjá Samiðn.

En er þetta regla og svona bara hluti af viðskiptamódelinu hjá sumum af þessum fyrirtækjum?

„Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af því.“

Aldrei hefur verið látið reyna á ákvæði laga um   starfsmannaleigur, þess efnis að bannað sé að láta menn greiða á einhvern   hátt fyrir vinnu, í samhengi við þennan mikla kostnað.

„Þetta er auðvitað algjörlega siðlaust. En við höfum bara ekki fundið leiðina til að segja: Þú ert að brjóta á þessum einstaklingum,“ segir hann.

Iðnréttindi og reynsla erlendra starfsmanna er oftar en ekki einskis virði. Jafnvel hjá fyrirtækjum og starfsmannaleigum sem sérstaklega auglýsa þá og leigja út sem iðnaðarmenn.

„Mér sýnist að flestir þeirra séu þá bara launasettir eins og verkamenn. Evrópu reglurnar eru þannig – sem við höfum gengist undir – að okkur ber að viðurkenna starfsréttindi. Á þessu eru alvarleg brot á Íslandi. Okkur finnst það ganga nokkuð langt þegar starfsmannaleiga auglýsir dag eftir dag, iðnaðarmenn, að hún skuli ekki ganga eftir því að þessir menn séu að fá kjör í samræmi við það,“ segir Þorbjörn

„Stærsti veikleikinn í þessu er að mörgu leyti Vinnumálstofnun. Þegar að starfsmannaleigurnar senda inn gögn til Vinnumálastofnunar þá yfirleitt stendur á þessu bara verkamaður og kauptaxti sem menn eru að fá eru lágmarkslaun verkamanna. Upp á þetta kvittar Vinnumálastofnun án þess að ganga neitt úr skugga um það í hvaða starf maðurinn er að fara. Auðvitað blasir þetta við að það er verið til dæmis að byggja einhverja stóra byggingu að það eru ekki allt bara aðstoðarmenn í verkinu. Það vita þetta allir að það er verið að svindla á þessu og okkur hefur alla vega ekki tekist að fá stofnunina til þess að stíga út á vinnustaðina með okkur og ganga eftir því að verið sé að fara eftir þeim pappírum sem lagðir voru fyrir stofnunina.“

Hæsta einstaka launakrafa stéttarfélagsins Eflingar á þessu ári, er á hendur þrotabúi starfsmannaleigunnar Verkleigunnar. Hátt í 80 starfsmenn fyrirtækisins áttu inni sem nemur 30 milljónum króna hjá fyrirtækinu þegar það var sett í þrot í byrjun árs. Verkleigan starfaði í þrjú ár og var á hverjum tíma með um 150 lettneska og litáíska starfsmenn í vinnu og kvartanir starfsmanna voru nær vikulega á borðum stéttarfélaga.

Fyrst eftir að eigandi Verkleigunnar rak stjórnendur og sakaði um fjárdrátt og virðisaukaskattur fór í vanskil, tóku yfirvöld við sér. Skatturinn greip til aðgerða og félagið fór í þrot. Fyrrverandi stjórnendur Verkleigunnar reka nú áðurnefnda starfsmannaleigu Menn í vinnu.

Sandrius er þrítugur verkfræðingur frá Litáen sem kom til landsins haustið 2016 á vegum Verkleigunnar.

Hann bjó ásamt 30 löndum sínum í atvinnuhúsnæði sem áður hýsti leikskóla hér við Bræðraborgarstíg 3. Þegar Verkleigan varð svo gjaldþrota og fyrrverandi stjórnendur hennar stofnuðu Menn í Vinnu, var lögheimili 30 Rúmena og Litáa á þeirra vegum flutt í húsið hér við hliðina.

Sandrius segir flesta landa sína hafa talið sig svikna við komuna hingað.

Ég er í sömu gildrunni og nokkur hundruð annarra og sumir jafnvel frá sama bæ. Hvað getur maður gert? Hlaupa í burtu? Hvað bíður manns? Eiginkona? Hvar eru peningarnir? Og börnin sem þarfnast hins og þessa. Svo að maður flýr ekki. Svo að maður gerir það sem manni er sagt. Norpa kaldur heilan dag. Og svo drekkur maður dáldið vodka á kvöldin. Þannig kemst maður af,“ segir hann.

Launaseðlar og frásagnir fyrrverandi stafsmanna Verkleigunnar hljóma kunnuglega. Allt að hundrað þúsund krónur voru dregnar af þeim á mánuði í alls kyns kostnað. Sandrius var jafnvel rukkaður um vinnuföt, þó hann fengi engin og fyrir bíl, sem hann aldrei notaði.

Gott og vel, ég hjóla í vinnuna en látið mig fá peninginn fyrir bílnum og bensíninu. Nei, það gengur ekki. Þeir rukka fyrir bílinn og bensínið svo að notaðu hann,“ segir hann.

Sandrius segist hafa orðið mjög hissa þegar hann frétti að hér væru lög sem bönnuðu að starfsfólki væri mismunað í launum á sama vinnustað. Sjálfur fékk hann rétt um 1700 krónur á tímann hjá Verkleigunni sem leigði hann sem bifvélavirkja til bílaumboðsins Brimborgar. Til þess hafði hann enda menntun og reynslu.

Íslenskt starfsfólk Brimborgar sem vann sömu störf var á mun hærra kaupi, þó reynt hafi verið að telja honum trú um annað af yfirmanni hans hjá Brimborg.

Afsakaðu stjórann minn, en hann sagði: Já, samstarfsmaður þinn, Íslendingur, þénar sautján hundruð á tímann. Ég svaraði: Láttu ekki svona. Hann á tvö börn og eiginkonu. Hann ynni ekki fyrir sautján hundruð á tímann. Þetta er uppi á teningnum þegar maður ræðir við Íslendinga um launin,“ segir Sandrius.

Eftir nokkra mánuði hjá Verkleigunni og eilíft stapp um rétt launauppgjör sagði Sandrius upp og réð sig í vinnu hjá fyrirtækinu Stjörnustáli sem rekur starfsmannaleiguna Staff.is.

Á þess vegum vann hann að sögn með hælisleitendum sem þar störfuðu ólöglega, á athafnasvæði Samskipa.

Þá fyrst frétti ég af því að fólk ynni fyrir þúsund krónur á tímann. Ég reyndi að segja þeim að reyna fyrir sér annars staðar. En var um leið ljóst að þeir gátu ekki farið neitt annað. Enginn réði þá án kennitölu.“

Sandrius segist trúa því að Samskip sé meðvitað um að fyrir þá starfi óskráðir verkamenn.

„Auðvitað! Auðvitað.“

Hælisleitendur mega stunda hér atvinnu samkvæmt skilyrðum en atvinnurekandi þarf  að sækja um bráðbirgðatvinnuleyfi fyrir þeirra hönd og sýna fram á að þeir fái laun samkvæmt kjarasamningum. Þá missir hælisleitandinn hins vegar framfærslu og húsnæði á vegum Útlendingastofnunar.

Sumir atvinnurekendur virtust því telja sig hafa hag af því að ráða hælisleitendur ólöglega í svarta vinnu á ólöglegum kjörum.

Við fylgdum hópi georgískra hælisleitenda eftir á leið í vinnu einn morguninn.

Og þar hittum við fyrir vinnuveitanda þeirra.

Þessir og fleiri hælisleitendur sem fyrirtækið hafði haft í vinnu um nokkurra mánaða skeið, voru án kennitölu og atvinnuleyfis. Nokkrum dögum síðar hafði eigandinn samband við Kveik og kvaðst þá hafa séð að sér varðandi tilhögunina og hygðist sækja um leyfi fyrir starfsmennina.

„Við erum á leiðinni í eftirlit á byggingasvæði á höfuðborgarsvæðinu. Við ætlum að kíkja á Landssímahúsið, þar er niðurrif í gangi. Þegar við komum hérna síðast var Prima ehf. að vinna við niðurrifið en heitir í dag Work North. Þetta klabb hét áður Brotafl. Þannig við höfum sérstakan áhuga á því,“ segir Adam Kári Helgason, sem starfar í vinnustaðaeftirliti á vegum Rafiðnaðarsambandsins.

Brotafl og tengd fyrirtæki hafa ítrekað verið fréttaefni síðustu ár vegna gjaldþrota, kennitöluflakks, slæmra kjara og aðbúnaðar erlendra starfsmanna og gruns um mansal ásamt skattalagabrotum.

Á þaki Landsímahússins voru nokkrir erlendir starfsmenn.

Á hæðinni fyrir neðan hittum við yfirmann í verkinu sem sagði vinnumenn hafa kaffiaðstöðu og aðgang að klósetti í næsta húsi. Vinnumennirnir sem eftirlitsmenn töluðu við könnuðust hins vegar ekki við það.

Starfsemin við Grensásveg 12 í Reykjavík er skólabókardæmi um ástandið eins og það gerist verst á íslenskum byggingamarkaði.

Hér hófust framkvæmdir án þess að tilskilin leyfi væru til staðar, erlent starfsfólk við verkið var snuðað um laun og vinnuaðstaðan þótti óboðleg og beinlínis stórhættuleg. Grensásvegur 12 hefur enda verið á borðum allra mögulegra eftirlitsaðila í rúmt ár. Meðal annars lögreglu eftir að starfsmaður hér kærði yfirmann fyrir líkamsárás.

Þegar farið var að ræða við þá erlendu starfsmenn sem voru við vinnu á staðnum var athyglisvert að heyra þá nefna tímakaup sitt.

Upphæð sem er nákvæmlega upp á krónu lægsti mögulegi taxti sem hægt er að greiða starfsmanni með yfir fimm ára reynslu í slíku starfi. Kauptaxti sem er í raun langt frá markaðslaunum sem Íslendingur með sömu eða minni reynslu fengi fyrir sama starf.

Við eftirlitið reyndist það málum blandið hvort og í hvaða stéttarfélag starfsmenn greiddu. Það var líka fleira sem vakti athygli og átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Í kjölfar þessarar heimsóknar vinnustaðaeftirlitsins var Vinnueftirlit Ríkisins enn einu sinni kallað til og aftur lokaði það vinnusvæðinu. Nú vegna þess að í ljós kom að starfsmenn höfðu verið látnir fjarlægja baneitrað asbest úr byggingunni án nokkurs hlífðarbúnaðar. Og enn skorti tilskilin leyfi.

Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, nefnir sem dæmi að í byggingariðnaði, þar sem er mikið um útleigða starfsmenn, séu 36 prósent allra vinnuslysa sem tilkynnt eru þar hjá erlendu starfsfólki. Ekki sé langt síðan hlutfallið var 24 prósent.

„Það eru nokkur ljót dæmi þar sem að fólk frá starfsmannaleigum er að vinna. Þetta gerir það að verkum að við erum að fara í átaksverkefni þar sem ætlum að heimsækja starfsmannaleigurnar og þau fyrirtæki sem að leigja starfsmenn frá starfsmannaleigum,“ segir Eyjólfur.

„Ég held að við verðum að segja það alveg eins og er að við höfum kannski ekki alveg full tök á þessu,“ segir hann.

„Við erum með 0,8 eftirlitsmenn, ef það má orða það þannig, á hverja tíu þúsund starfandi. Viðmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er að eftirlitsmenn séu aldrei undir 1. Noregur og Danmörk eru með um 1,4 á hverja tíu þúsund starfandi. Þannig að við höfum verið stórlega undirmönnuð.“

Gagnrýni á slæm kjör og aðbúnað útlendinga á Íslandi núna er nánast samhljóða þeirri sem var uppi fyrir áratug. Aftur virðist hið opinbera jafn óundirbúið og þá.

„Það hefði mátt vera skýrari stefnumótun um að æðstu stjórnvöld vildu ekki sjá þjóðfélagsþróun í ranga átt og ekki sjá illa framkomu gagnvart þessu fólki sem er hingað að koma til að vinna og svo verða þessar stofnanir að hafa aðstöðu til þess að geta tekið á þessum málum og það hefur svolítið skort á það, ég verð að segja það hreinskilnislega.“

Norsk stjórnvöld hafa tekið þessi mál mjög föstum tökum. Það er alveg frá ríkisstjórn skýr stefnumörkun um að það skuli tekið á þessu. Það hafa verið settir í þetta sérstakir fjármunir. Og þeir hafa komið upp sérstökum miðstöðvum og frá þeim er haldið úti eftirliti og aðgerðum gegn því sem þeir kalla vinnumarkaðs-glæpi.

Til skamms tíma var haldið úti sameiginlegu eftirliti aðila vinnumarkaðarins, vinnueftirlits, vinnumálastofnunar, lögreglu og Ríkisskattstjóra sem þótti gefa góða raun. Skatturinn dró sig hins vegar út úr því eftirliti, að sögn vegna fjárskorts.

„Það var slæmt að mínu mati og væri mjög gott ef þessir aðilar gætu stillt saman strengi og komið upp sama módeli og í Noregi,“ segir hann. „Ég held að það sé löngu tímabært að sameina þessar stofnanir í eina vinnumarkaðsstofnun. Síðan þarf sú stofnun bara að fá skýrari valdheimildir til að bregðast við þegar liggur alveg fyrir að það er ekki verið að fara eftir lögum og kjarasamningum. Eftirlit sem ekki fylgir því eftir sem að það er að staðfesta og gera, það verður ekki mjög markvisst.“

Grunsemdir um að fórnarlömb mansals séu við störf á íslenskum vinnumarkaði hafa ítrekað komið upp undanfarin ár án þess að nokkur þeirra hafi náð fyrir dómstóla.

Sana Shah, er þrítugur Pakistani. Saga hans er sögð bera öll merki vinnumansals.

Þó Sana hafi í átta mánuði starfað svo að segja ofan í skrifstofum starfsmanna Verkalýðsfélags Snæfellinga í Ólafsvik, vissu þau ekki af honum, þar sem vinnuveitandi hans hafði séð til þess að hann greiddi í stéttarfélag í Reykjavík.

Sana kom til Íslands haustið 2017 frá Dubai þar sem hann starfaði sem rútubílstjóri. Í gegnum netið hafði honum boðist vinna hjá North star hotel í Ólafsvík, en það er eitt af á annan tug gistiheimila og hótela sem rekin eru af feðgunum Aðalsteini Gíslasyni og Stefáni Hafliða Aðalsteinssyni í gegnum tvö eignarhaldsfélög þeirra.

Tilboðið sem kom frá eiginkonu Stefáns hljómaði vel en því fylgdu skilyrði:

Fyrir atvinnu- og dvalarleyfin fjögur kveðst Sana hafa greitt um eina og hálfa milljón króna og vísar meðal annars í þessari kvittanir fyrir millifærslum, því til stuðnings.

Raunverulegur kostnaður við slíkt leyfi er að jafnaði um 30 þúsund krónur.

Sana varð snemma ljóst að upplýsingar um vinnutíma og kjör voru ekki eins og lofað hafði verið. Vinnutími var mun lengri og til viðbótar var hann oft og iðulega látin aka milli landshluta með vistir fyrir hótel fyrirtækisins, án þess að fá greitt fyrir það.

Sana lenti svo fljótlega milli steins og sleggju vegna peninga félaga sinna í Pakistan.

Í byrjun árs stungu eigendur hótelanna upp á því að Sana færi heim til Pakistan í mánaðarfrí, sem hann þáði; langþreyttur eftir átta mánaða vinnu. Áður en leyfinu lauk sögðu eigendur hótelsins honum skyndilega upp störfum. Sana segist hafa áttað sig á því að hann hafi verið gabbaður og stæði nú uppi atvinnu- og auralaus með skuldir annarra á bakinu.

„Á átta mánuðum fæ ég eitthvað um tvær milljónir frá þeim í laun og ég þarf að borga eina og hálfa milljón. Svo fyrir hvað var ég að vinna? Hví er ég svo fjarri fólkinu mínu, foreldrum, öllum? Og hvað get ég gert við þessar aðstæður? Ekki neitt. Nú get ég ekki stutt þau, ekki borgað náungunum. Hvar á ég að taka peningana? Þau eru voldug því þau eru efnuð og reka fyrirtæki um allt Ísland.“

Í vonlausri stöðu kvaðst hann hafa ákveðið að snúa aftur til að freista þess að ná peningum sínum til baka. Í gegnum stéttarfélag fékk hann aðstoð. Eigendur hótelkeðjunnar vísuðu öllum ásökunum hans á bug en samþykktu þó kröfu um að greiða honum uppsagnarfrest en neituðu að endurgreiða það sem Sana hafði greitt fyrir atvinnu- og dvalarleyfin. Slíkar greiðslur fyrir aðgang að vinnu eru af alþjóðastofnunum sagðar eitt af megin einkennum vinnumansals.

Starfsgreinasambandið vísaði enda máli Sana til lögreglu með þeim rökum í byrjun sumars.

Síðan kveðst Sana hafa sætt hótunum og að lokum ofbeldi fyrrverandi vinnuveitanda síns sem ráðist hafi á hann á vinnustað Sana í ágúst. Vitni að því atviki gáfu sig fram við lögreglu. Eigendur hótelkeðjunnar hafa á móti kært Sana fyrir ónæði, sem hann segir upplognar ásakanir í sinn garð.

Sjálfur segist hann óttast þau.

„Já, vissulega því peningar ráða öllu. Peningar kaupa allt. Hann sagðist vera í tengslum við glæpamenn. Þeir gætu farið með mig eins og þeim sýndist. Hann kom á vinnustað minn og sló til mín með innkaupakerru og meiddi mig á fingri og einnig á fæti og hné.“

Ekkert gerðist í rannsókn lögreglu á mansalsmáli Sana í næstum þrjá mánuði á meðan það flæktist milli embætta í Reykjavík og á Akranesi. Í lok ágúst var Sana fyrst boðaður til skýrslutöku eftir langa og erfiða bið.

„Ég er orðlaus. Ég virði það sem yfirvöld gera og ég virði lögin. En fyrir mér er þetta
allt vonlaust. Mér líður afar illa. Og gæti gripið til örþrifaráða því ég get ekki lagt
meira á foreldra mína þar sem þau eru undir álagi vegna mín. Svo að ég er sá sem baka þeim vandræði. Foreldrum mínum, fólkinu mínu.“

Ef þú hefur ábendingar sem þú telur að Kveikur ætti að skoða sendu okkur póst á [email protected]