Steranotkun algeng, hættuleg og skiljanleg

Við viljum öll vera hraust og heilbrigð. En hvað þýðir það? Það er auðvelt að ruglast á því að vera hraustur og heilbrigður, og því að líta vel út. Það er orðið nokkuð langt síðan að flestir áttuðu sig á skilaboðunum sem ungar stúlkur og konur fá um útlit.

En það er fyrst nýlega sem einhvers konar vakning varð um að strákar og karlar fengju skilaboð sem væru engu skárri. Enn þann dag í dag, er strákum sagt að vera stórir og sterkir, frekar en til dæmis heilbrigðir. Óraunhæfar fyrirmyndir eru enn hafðar í hávegum.

Við fengum þrjá unga karlmenn, sem allir uppfylla líklega útlitskröfur samtímans, til að ræða til hvers er ætlast.

Hetjurnar á sterum

Þessi þróun hefur ekki farið fram hjá sálfræðingum og félagsfræðingum sem rannsaka hegðun ungmenna og íþróttafólks, eins og Hafrúnu Kristjánsdóttur. Hún stýrir íþróttafræðasviði HR og var árum saman afreksíþróttamaður.

„Þú ert fimm ára gamall strákur og hetjur þínar í lífinu eru Superman, Batman og Hulk, og einhverjir svona karlar, og þeir eru allir á sterum. Ef maður horfir á þá. Þeir eru með mikinn sixpakk og þeir eru útblásnir. Og það er ekki óalgengt að sjá litla stráka á leikskólaaldri spenna vöðvana og þegar þeir teikna sjálfa sig, þá eru þeir að teikna sixpakk,“ segir Hafrún.

Skilaboðin berast því allt frá blautu barnsbeini. Foreldrar kannast líkast til við að segja sonum sínum að klára matinn til að verða stórir og sterkir. Leikfangakarlarnir eru sannarlega ekki líkir neinu eðlilegu – hrein steratröll. Og ekki má gleyma kettinum Klóa, utan á kókómjólkurfernunum, sem blés út fyrir nokkrum árum. Kötturinn varð eins og steratröll. Og þessi skilaboð eru farin að bjaga skynjun karlmanna á líkamsvexti og útliti.

Athyglin á útlit fer yfir strikið

Það er reyndar alveg eðlilegt að velta fyrir sér útlitinu. Mannskepna er ein þeirra dýrategunda sem velur sér maka út frá útliti.

„En stundum geta þessar áhyggjur orðið of miklar og áherslan á útlit orðið of mikil,“ segir Andri Steinþór Björnson, sérfræðingur í líkamsskynjunarröskun og dósent við Háskóla Íslands.

Andri Steinþór Björnson, sérfræðingur í líkamsskynjunarröskun.

„Flest höldum við og ölumst upp við það að við eigum að trúa eigin augum þegar við horfum í spegil. En það hefur komið í ljós einmitt að sú mynd er yfirleitt ekki rétt, hjá venjulegu fólki jafnvel. Og þegar fólk lendir í vítahring þar sem það fer að fókusera of mikið á útlitið, þá getur hún orðið mjög mikið brengluð. Og þegar það er komið á mjög alvarlegt stig, þá greinist fólk með líkamsímyndarraskanir, eins og átraskanir og það sem við köllum líkamsskynjunarröskun og reyndar fleiri raskanir.“

Líkamsskynjunarröskun er geðröskun sem einkennist af miklum áhyggjum af sýnilegum útlitsgalla sem er ekki til staðar. Fólk sem þjáist af LSR eyðir oft mörgum tímum á dag í að hugsa um útlitið. Þessum áhyggjum fylgir næstum alltaf áráttukennd hegðun, á borð við að líta endurtekið í spegil eða bera útlit sitt saman við útlit annarra, og getur reynst erfitt að stjórna hegðuninni. Röskunin kemur að jafnaði fram á unglingsárum og er kynjahlutfall nokkuð jafnt.

Þrjú prósent með röskun

Og þetta er algengara en halda mætti. Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að 2% íbúa í vestrænum samfélögum þjáist af líkamsskerðingarröskun. Íslenskar rannsóknir benda til þess að hérlendis sé hlutfallið hærra, um 3%.

„Eitt form af þeim vanda er það sem hefur verið kallað vöðvaskynjunarröskun,. Og uppgötvaðist fyrst 1993, það er í raun ótrúlega stutt síðan, í rannsókn á karlmönnum sem hafa notað stera. Og margir af þessum karlmönnum voru kraftlyftingafólk. Og á kom í ljós að það voru karlmenn sem höfðu mjög áleitnar hugsanir um það að vera mjög litlir og grannir, þótt í mörgum tilvikum væri raunveruleikinn hið andstæða,“ segir Andri.

„Þetta voru mjög vöðvamiklir karlmenn oft og tíðum. Þannig að þeir voru með mjög brenglaða sjálfsmynd. Og leið þeirra til að takast á við það, til þess í rauninni að breyta þeirri mynd sem þeir sjálfir höfðu af sínum líkama, var sú að stunda kraftlyftingar til dæmis. Og svo til dæmis er ein mjög árangursrík leið sem hefur einmitt skelfilegar afleiðingar, sem er að nota stera.“

Frekar flottur gæi

Aftur komum við að fyrirmyndunum. Því eftir að útblásnum leikfangabrúðum sleppir tekur annað við. „Maður er alveg með nokkrar fyrirmyndir,“ segir Steinar. Filippus Darri Björgvinsson, 21 árs, nefnir sem dæmi samfélagsmiðlastjörnuna Steve Cook.

Steve Cook hefur atvinnu af því að ferðast um heiminn, sýna æfingar á youtube-síðunni sinni og auglýsa fæðubótarefna, æfingafatnað og fleira. Og hann uppfyllir óneitanlega ítrustu kröfur um að vera stór og sterkur. Eða eins og strákarnir orða það:

„Bara frekar flottur gæi. Í geggjuðu standi og með mjög marga fylgjendur. Unga karlmenn sem vilja vera eins og hann. Og þaðan kemur kannski einhver pressa því að samfélagsmiðlarnir sýna alltaf bara flottu hliðina á lífinu. Síðan þessir ungu karlmenn sem eru að followa þá, þeir sjá þá bara: „Já, hann er að gera þetta og hitt. Kannski þarf ég að vera í flottu standi til að geta fengið eitthvað út úr lífinu“. Þannig,“ segir Filippus Darri.

Sterk tengsl við innflutning eiturlyfja

Steranotkun er algeng. Tölur frá yfirvöldum styðja það. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni hefur ávísunum á testósterón fjölgað gríðarlega á innan við áratug, og er tvöfalt það magn sem er ávísað til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum, þótt það sé mest á eldri aldurshóp sem getur þurft á slíku að halda.

Í skýrslu lögreglunnar um skipulagða glæpastarfsemi var fyrir ári tekið sterkt til orða: „Að mati lögreglu er steranotkun á Íslandi mikil og stöðug. Þeir sem innflutning og sölu stunda eru taldir hagnast verulega. Líkt og við á um fíkniefni er á samfélagsmiðlum að finna lokaða hópa sem stunda viðskipti með stera. Sala á sterum tengist iðulega innflutningi og sölu fíkniefna.“

Það þurfti heil tvö símtöl fyrir Kveik til að verða sér úti um stera. Ferð í hraðbanka til að nálgast seðla og svo stað til að hittast á. Fljótlegt og einfalt, og sterarnir voru komnir til okkar.

Hégómi, sjálfstraust, samþykki

Hafrún segir fyrst og fremst ungir drengir hafi áhuga á að taka stera og að fyrir því séu almennt þrjár ástæður.

„Fyrsta ástæðan og aðalástæðan er til þess að líta betur út. Að einhverju leyti er þetta bara hégómi. Önnur ástæða, sem tengist fyrstu ástæðunni, er til að auka sitt eigið sjálfstraust. Það að vera kominn með sixpack eða í áttina að því að vera með sixpakk. Þeim líður bara betur með sig og þannig eykst sjálfstraust. Og svo þriðja er að með því að líta út á ákveðinn hátt finnst þeim þeir frekar vera samþykktir inn í félagahópinn og það er ákveðinn félagsleg pressa að líta út á ákveðinn hátt,“ segir hún.

Steinar, einn ungu strákanna sem við ræddum við, telur notendur meðvitaða um áhættur og fylgikvilla steranotkunar. En nefnir á sama tíma lykilfrasa, sem fleiri viðmælendur Kveiks nefndu: að nota stera rétt. „Það er til tonn af heimildarmyndum um þetta og, þú veist, það er allt sem þú getur gert rétt, og svona,“ segir hann.

Tómas Þór Ágústsson, innkirtlasérfræðingur hjá Landspítalanum.

Ekki hægt að „gera rétt“

Tómas Þór Ágústsson, innkirtlasérfræðingur hjá Landspítalanum, segir einfaldlega ekki hægt að nota þessi efni án þess að valda sér skaða.

„Ef þú ert að nota testósterón eða anabólíska stera á þann hátt að þú færð einhvern árangur, þessi áhrif sem verið er að sækjast eftir, þá er fræðilega ómögulegt að þú fáir ekki aukaverkanirnar líka,“ segir hann.

„Áhrif testósterónsins og anabólískra efna yfirhöfuð eru mjög víðtæk í líkamanum. Og það að halda því fram að þú getur fengið ein áhrif en ekki önnur, lýsir mjög grunnri þekkingu á viðfangsefninu.“

Áhrif stera – eða testósteróns – eru víðtæk. Sum hverfa þegar notkun er hætt, önnur hverfa aldrei.

Margvísleg áhrif

Testósterónframleiðsla líkamans minnkar og kynhvötin breytist. Frjósemi verður minni. Bólur eru algengar, slitför og og brjóstamyndun, jafnvel mjólkurframleiðsla hjá körlum. Eistun minnka og mýkjast. Sæðisframleiðslan minnkar eða hverfur.

Lengdarvöxtur stöðvast og fullorðinn karl nær ekki fullri hæð miðað við það sem hann hefði annars gert. Vöðvar og sinar verða stífari, ör vöðvamyndun eykur hættuna á sinaslitum.

Blóðið verður þykkara, blóðfiturnar óhagstæðar og blóðþrýstingurinn hærri – en allt getur þetta verið lífshættulegt. Hjartavöðvinn stækkar – eins og aðrir vöðvar – og líkurnar á heilablóðfalli aukast.

Það er líklegt að hárið þynnist og losni. Lifrin getur orðið fyrir skemmdum, sem getur leitt til lifrarbilunar og krabbameins. Blöðruhálskirtillinn stækkar sem veldur vandamálum við þvaglát.

Og þetta er fyrir utan andlegu áhrifin: Heilabörkurinn verður þynnri, gráa efnið í heilanum rýrnar og þetta getur haft í för með sér vitsmunaskerðingu. Skapsveiflur og einbeitingarleysi eru þekktar verkanir. Sama gildir um svefntruflanir.

Sterar hafa í för með sér minni samkennd, aukna árásargirni og tortryggni. Líka depurð og viðkvæmdi. Kvíði, þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingar eru algengar aukaverkanir.

Æfa eins og stjörnurnar

„Er þetta samt ekki bara orðið eðlileg birtingarmynd á karlmennsku í dag? Mér finnst það. Mér finnst að viðhorfið ætti að vera… það horfa allir á svona,“ segir Steinar. „Ég held það. Ég held það, alveg eins og með konurnar.“

Filippus nefnir dæmi þessu til stuðnings. „Það er engin tilviljum að ef þú ferð inn á youtube og skrifar inn Christian Bale eða Christ Evans, eða eitthvað þannig, þá kemur á eftir „workout for Batman“ eða eitthvað þannig,“ segir hann.

„Fólk er að leita að æfingum til að vera eins og þessi. Þannig að það má kannski segja að þetta sé orðin birtingarmynd karlmennskunnar í dag. Að vera eins og einhver Hollywood-leikari.“

Instagram eins og ferilskrá

Andri segir samfélagsmiðla hafa breytt því hvar við sækjum okkur fyrirmyndir.

„Það er til dæmis eitt sem hefur breyst auðvitað, á síðasta áratug, eru samfélagsmiðlar. Og þar eru auðvitað mjög skýrar fyrirmyndir, mjög myndrænar fyrirmyndir um hvernig þú átt að líta út. Þar sem að myndir eru teknar á alveg sérstakan hátt af fólki,“ segir hann.

„Og þetta hefur auðvitað ótrúlega mikil áhrif á fólk. Og það hefur bæst við sem svona hluti af þessum skilaboðum sem krakkar eru að fá sem fyrri kynslóðir höfðu ekki á sama hátt.“

Fillipus segir Instagram einfaldlega vera eins og ferilskrá fyrir stefnumótamenninguna á Íslandi. „Ég lít á það þannig. Mjög margir einstaklingar eru að stilla upp myndum á prófælnum sínum til að lúkka vel fyrir hitt kynið, og líka náttúrulega fyrir sama kyn, bara til þess að þú lúkkir fyrir að vera flottari,“ segir hann.

Fyrirmyndirnar eru því býsna margar úr hálfgerðum gerviheimi – en þrýstingurinn á unga karla að uppfylla viðmiðin er ekkert minni fyrir vikið. Það er kannski ekki skrítið að það sé freistandi að stytta sér leið, létta sér erfiðið, með því að prófa stera.

Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Áhættuhegðun tengd steranotkun

Áhrifin eru ekki bara á líkamann. Viðar Halldórsson er dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands og gerði fyrir nokkru íslenska rannsókn á íþróttaiðkun og steranotkun meðal framhaldsskólanema, sem leiddi meðal annars í ljós tengsl steranotkunar og áhættuhegðunar.

„Áhættuhegðun er að takast á við og taka þátt í einhverskonar athæfi eða neyslu sem að brýtur gegn lögum og getur verið óheilbrigði og óæskileg. Og litið niður á,“ segir hann.

„Það var kannski helstu niðurstöðurnar og sterkustu tengslin. Að steranotkun er bara einn þáttur í áhættuhegðun ungs fólks. Að þeir sem eru líklegir til að nota ólögleg vímuefni, þetta er hópurinn sem er líklegastur til að nota einnig stera. Þannig þetta er ákveðinn áhættukúltúr, áhættuhegðun. Og steranotkun fylgir þessu miklu meira en iðkun formlegra íþrótta í einhverjum íþróttaliðum. Og þessum íþróttakúltúr sem slíkum.“

Sterarnir algengari í ofbeldismálum

Þessi tenging hefur ekki farið framhjá læknum á sjúkrahúsinu Vogi. Þeir hafa tekið eftir því að þessir ungu menn eru meiri misnotendur ólöglegra vímuefna en gengur og gerist meðal annarra sjúklinga á sama aldri.

Þeir segja að þessi hópur sé bráðari í hugsun og verkum, stundum árásargjarnari og framkvæmi oft áður en búið sé að hugsa atburðarásina til enda, stundum með alvarlegum afleiðingum. Og árásargirni kemur fram á heimilum, segir Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari.

„Það voru að koma upp fleiri og fleiri mál þar sem að var sterkur grunur eða vísbendingar um það að menn, þessi mál sem ég er með í huga varða öll menn sem gerendur, þar sem var verið að rannsaka alvarleg ofbeldisbrot gagnvart stúlkun og konum úti í bæ, en oft og tíðum mál sem vörðuðu ofbeldi inni á heimilum gagnvart maka eða fyrrverandi maka, þar sem sterkar vísbendingar voru um að viðkomandi væri í steraneyslu. Það er ákveðin aukning á þessu,“ segir hún.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari. 

„Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni. Ég er með í huga ákveðin mál sem voru mjög alvarleg. Miklu ofbeldi beitt, bæði líkamlegu og kynferðislegu. Og það er enginn vafi í mínum huga að sterarnir hafi spilað stóra rullu.“

Það er reyndar ekki svo að allir sem taka stera endi sem eiturlyfjaneytendur, ofbeldismenn og glæpamenn. En tengslin við áhættuhegðun liggja hins vegar fyrir og það hefur reynst mörgum örðugt að sleppa úr viðjunum.

Notaði stera eins og pabbi

„Þegar ég var mjög ungur, þá var ég alltaf spurður að því hvort ég ætlaði að verða jafnsterkur og pabbi minn. Og þá sagði ég: „Nei, sterkari.“,“ segir Sigmar Freyr Jónsson, sonur Jóns Páls Sigmarssonar, sem um árabil var einn sterkasti maður heims.

Jón Páll var aðeins þrjátíu og tveggja ára gamall þegar hann lést, á miðri æfingu í líkamsræktarstöð sem hann stofnaði sjálfur. Hann var á hátindi frægðar sinnar, en fáir vissu að meira að segja sterkasti maður heims notaði stera. Hvort þeir drógu hann til dauða er umdeilt, en hann ræddi við vini sína um neikvæðar afleiðingar steranotkunar og að hann hafi horfst í augu við að dauðinn blasti við.

Sigmar Freyr Jónsson, sonur Jóns Páls Sigmarssonar.

Sigmar Freyr var ekki nema tíu ára þegar pabbi hans dó. „Ég man að ég spurði hann einhvern tíma út í það og hann bara eyddi því og sussaði það niður. Þá vissi ég alveg hvert svarið var. Gerði mér alveg grein fyrir því. En svo pæli ég ekkert meira í því fyrr en hann er dáinn,“ segir hann.

„Þegar umfjöllunin fer í gang og krakkar fara að spyrja mig og fólk er eitthvað að pæla í þessu. Og þá, einhvern veginn innst inni vissi ég alveg hvert svarið var en mér fannst það ekki svona einfalt að hann… að hægt væri að segja „hann dó út af steraneyslu“. Það er rosalega einfalt svar.“

Hafði áhyggjur af syninum

Barnsmóðir hans, Ragnheiður Jonna Sverrisdóttir, alltaf kölluð bara Jonna, segir eflaust engan hafa gert sér grein fyrir því hvað sterar og hjálparlyf séu skaðandi. „Mönnum fannst ekkert að þessu og ég talaði með því frekar en hitt og fannst bara fáránlegt að vera með þetta kjaftæði,“ segir hún.

Ragnheiður Jonna Sverrisdóttir, móðir Sigmars.

Aðspurð segist hún geta trúað því að sterar hafi haft áhrif á dauða Jóns Páls. „Ég get alveg trúað því já. Og að hann hafi verið viðkvæmari en aðrir því ég veit að það er hjartaveila í ættinni. Og að hann hafi verið mun viðkvæmari,“ segir hún.

Sigmar Freyr hefur sjálfur notað stera. Mamma hans viðurkennir að sér hafi brugðið þegar hún komst að því. „En samt kom það mér ekki á óvart. Af því að það voru svo gríðarlega margir í kringum hann og okkur sem notuðu þetta. Og ég hafði svona á tilfinningunni að hann væri að nota þetta, honum fyndist hann eiga að vera stór og sterkur af því að pabbi hans var það,“ segir Jonna.

Karlmaður með brjóst

Steranotkun fylgja margs konar aukaverkanir. Líkaminn leitast til við að ná jafnvægi á hormónunum og tekur til við að breyta öllu auka testósteróninu í kvenhormónið estrógen. Áhrifin eru mismunandi, en Sigmar glímdi við algenga aukaverkun: brjóstamyndum.

„Fá það sem er kallað „bitch-tits“ á steramáli,“ segir Sigmar. „Geirvörturnar byrja aðeins að standa út. Það voru ekki allir bolir að virka. Og svo fór að koma fita í kring, svo að kassinn þyrfti alltaf að vera pumpaður, þurfti að taka nokkrar armbeygjur til þess að líta almennilega út.“

„Hvítir bolir hættir að virka, og svona. Svo það endaði með að maður fór í svona aðgerð hjá lýtalækni. Þá er skorið svona, tekið svona hálfur hringur, flett upp á geirvörtuna og þessir kirtlar skornir í burtu.“

Sigmar þurfti að fara í þrjár aðgerðir til að fjarlægja kirtlana. Raunar er ennþá aðeins eftir og í einni aðgerðinni var tekin of mikil fita, svo þá vantaði líka upp á fyllinguna í brjóstkassanum. „Þetta er leiðinlegur aukakvilli. En menn sem eru dedicated í þessu taka þessu bara sem sjálfsögðu hlut að fara í svona aðgerð,“ segir hann. „Oft eru menn stútfullir bæði af testósteróni og estrógeni, þannig að menn verða stórir og hrikalegir. En kannski líka móðursjúkir.“

Var óttasleginn en hélt samt áfram

Sigmar segist hafa verið meðvitaður um hættuna sem fylgir því að taka stera. „Auðvitað ætlaði ég aldrei að gera þetta. Jú, maður hugsaði oft út í það, þegar maður var orðinn stífur og var oft farinn að finna einhverja styngi, einhverja millirifjagigt. Að maður vissi ekki hvort það væri millirifjagigt eða eitthvað í hjartanu. Að finna eitthvað í handleggnum, einhverja svona kippi og svona,“ segir hann.

„Jafnvel átt von á því að maður sé búinn að ganga of langt og geti dáið hvenær sem er. En það fékk mig ekki til að stoppa strax. Og það er samt í rauninni ekki , ef ég hugsa út í það, það er ekki beint hræðsla við dauðann sem fékk mig til að hætta.  Heldur meira að vilja meiri lífsgæði.“

Kveikur hefur rætt við steranotendur, meðal annars vaxtarræktarkeppendur, sem segjast ekki kannast við þau einkenni og líðan sem Sigmar lýsir, í það minnsta kosti ekki til lengri tíma. Þeir telja sig fílhrausta og karlmannlega – en vildu ekki koma í viðtal í mynd, meðal annars af ótta við neikvæð viðbrögð samfélagsins, þar sem sjónarmið þeirra og lífsstíll væru litin hornauga.

Birgir Sverrisson, yfirmaður lyfjaeftirlits Íslands.

Mikið um jákvæð sýni

Í nýlegri, íslenskri rannsókn á líkamsímynd og átröskunareinkennum meðal afreksíþróttafólks kom í ljós að íslenskir íþróttamenn eru mun líklegri en erlendir kollegar þeirra til að sýna einkenni líkamsskynjunarröskunar.

Yfir 15% töldust sýna miðlungs til alvarleg einkenni þess að hafa áhyggjur af eigin þyngd og líkamslögun. Á meðal karlanna voru þeir sem stunduðu kraftlyftingar, júdó, MMA og karate, og svo Crossfit og fitness, með mest einkenni líkamsskynjunarröskunar.

Það kemur því kannski ekki á óvart að þegar lyfjaeftirlit gerir lyfjapróf hér á landi, eru líkurnar á jákvæðri niðurstöðu hærri en þekkist erlendis.

„ Við erum með, að mínu mati, of háa tölu jákvæðra sýna. Það er sem sagt of hátt hlutfall jákvæðra sýna á Íslandi. Við erum yfir meðaltalinu.. Þetta er ákveðið áhyggjuefni að af 150-300 prófum séu 2-3% jákvæð,“ segir Birgir Sverrisson. Hann stýrir lyfjaeftirliti Íslands.

Ekki hættulaust að hætta

Það er ekki ólíklegt að einhver sitji nú við skjáinn og hugsi með sér að líkast til sé best að tékka aðeins á syninum, eða eftir atvikum að hætta að nota stera. En það er heldur ekki hættulaust. „Því fylgir mjög mikil vanlíðan. Sem í rauninni byggir á tvennu. Annars vegar er það það, að undirliggjandi orsökin fyrir því að fólk fer að taka stera er einhvers konar óöryggi,“segir Tómas.

„Þú getur rétt ímyndað þér að ef þú hefur þessa undirliggjandi tilhneigingu, ferð að taka stera og þeir virka. Svo þegar þú hættir að taka sterana, þá hverfa áhrifin mjög hratt. Þú tekur eftir því mjög hratt, hvernig þessi aukni vöðvamassi og stinnleiki fer. Þá líður fólki oft mjög illa, á þann hátt.“

„Svo hefur testósterón líka bein áhrif á heilann og líðan okkar. Og þegar þú hættir að nota stera eða minnkar þá, þá finnur fólk fyrir mjög svæsnum einkennum testósterón-skorts. Og upplifir þá mikið þunglyndi og mikla, almenna vanlíðan. Og þetta er kannski hættulegasti tímapunkturinn. Því sjálfsmorðstíðni hjá fólki í þessum fasa er mjög há.“

Grunnvandinn er hins vegar ekki sterarnir. Það þarf að takast á við ástæður þess að sjálfsmynd ungra karla er með þeim hætti að þeim finnst þeir þurfa að grípa til svona úrræða. „Drengir sem eru að taka stera geta alveg verið með átröskun eins og búlimíu eða eitthvað slíkt til þess að hafa þessa stjórn og ná þessum líkamsvexti,“ segir Harpa.

Viðar tekur undir: „Við erum með fyrirmyndir úr dægurmenningunni sem að við samsömum okkur við. Og það að vera stór og sterkur og vöðvamikill og allt það, það er eitthvað sem er litið upp til. Og það er svona hafið upp í dægurmenningunni, þetta eru hetjurnar okkar og allt það,“ segir hann.

„Þannig að ég held að það séu miklu frekar þessir þættir, útlitslegir þættir, þetta snýst um sjálfmynd og hvernig ég kem fyrir, vegna þess að þarna eru fyrirmyndirnar okkar. Svona líta helstu stjörnurnar út og við erum kannski að reyna að samsama okkur við það.“

Vandinn sést ekki

En hvað segja hinir eiginlegu sérfræðingar – ungu karlarnir þrír. Verða þeir þess varir, að vinir þeirra og kunningjar glími við líkamsskynjunarröskun?

„Þetta er kannski orðið algengara, en þetta er samt ekkert endilega algengt. Það eru ekkert endilega margir sem maður myndi þekkja sem væru með svona röskun,“ segir Fillippus.

Steinar segist nokkuð viss um að eiga minnst einn vin sem glími við þessa röskun. „Hann myndi aldrei segja okkur það. Hann segir það í gríni. Maður er svona að æsa, skilurðu. Það er einn sem ég gæti alveg staðfest. Svona einn af tíu strákum sem ég þekki og eru að æfa. Svona tíu prósent, hjá mér.“

Filippus segir að þetta sé falinn vandi hjá fólki.

„Munurinn er líka sá að ef þú sérð þig alltaf í spegli minni, það er allt öðruvísi heldur en anorexía, þar sem annað fólk getur séð að þú ert ekki heilbrigður. En ef þú sjálfur sérð þig í spegli sem lítill en allir aðrir sjá þig vera stóran, þá náttúrulega breytist þetta því eini einstaklingurinn sem veit að hann er með svona bigorexíu, það er bara hann sjálfur. Það er enginn annar að fara að segja við þig: Heyrðu, þú ert með bigorexíu. Nema hann sé orðinn eitthvað extreme case,“ segir hann.

„Maður þarf alveg að líta mjög vel í sinn eigin barm, bara til þess að fatta að þú sért með svona röskun. Af því að það er mjög þunn lína á milli þess að vera heilbrigður, og síðan vera það ekki.“

Ef þú heldur að þú glímir kannski við svona röskun eða þekkir einhvern sem á við þennan vanda að etja, eru nokkur úrræði sem er þess virði að benda á. Hjá Landspítalanum er til dæmis átröskunarteymið við störf, og innan þess er fólk sem þekkir til líkamsskynjunarröskunar. Og þá er hægt að leita aðstoðar hjá Kvíðameðferðarstöðinni.