Staðfesta hvort átt hafi verið við kílómetra­stöðuna

Bílaumboðið Askja telur sig geta staðfest hvort átt hafi verið við kílómetrastöðu bíla af þeim tegundum sem fyrirtækið flytur inn. Þeim sem eiga bíla frá umboðinu, sem áður voru í eigu Procar, býðst að láta kanna hvort kílómetrastöðunni hafi verið breytt.

Staðfesta hvort átt hafi verið við kílómetra­stöðuna

Framkvæmdastjóri Öskju, Jón Trausti Ólafsson, segir hægt að bera saman gögn úr vélartölvu KIA og Mercedes Bens-bifreiða til að sannreyna upplýsingar í mælaborði bílanna.

Eins og fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld er þegar staðfest eitt dæmi þess að upplýsingar frá Procar standist ekki, en eigandi KIA-bifreiðar gat sannreynt að mælirinn hefði verið færður niður, þótt Procar segði svo ekki vera.

„Við munum núna í framhaldi af þessu bjóða KIA-eigendum og Mercedes Bens-eigendum að koma til okkar þar sem við munum raunverulega lesa af bílnum og skoða hvort það sé misræmi í kílómetrastöðu á kílómetramæli bifreiðarinnar annars vegar og á vélartölvu bifreiðarinnar hins vegar,“ segir Jón Trausti.

Hafa svarað hátt í 500

Eigendum gamalla Procar-bíla hefur verið vísað á lögmannsstofuna Draupni til að fá staðfest hvort þeirra bíll hafi verið færður niður eða ekki.

Samkvæmt yfirlýsingu sem Draupnir sendi Kveik í dag hefur lögmannsstofan svarað hátt í 500 fyrirspurnum vegna Procar-málsins. Aðeins eitt tilvik hafi komið upp þar sem misræmi virðist í sölugögnum bíls og útleigusögu, það sem Kveikur fjallaði um í kvöld, og að það mál verði skoðað nánar.

Þá séu viðræður við óháðan aðila um mat á bótafjárhæð á lokametrunum og til standi að upplýsa bíleigendur um það ferli fyrir lok vikunnar.