Spara sér fimm daga með því að nota netið

Sá sem þarf að endurnýja ökuskírteinið, sinna erfðamálum, sækja um leyfi fyrir brennu eða breyta um trúfélag þarf að mæta til sýslumanns. Til að flýta fyrir er stundum hægt að prenta réttu eyðublöðin út heima, en svo þarf að mæta í biðröðum og líkast til aðra áður en erindinu er lokið.

Með þessum hætti eru nánast með öll samskipti borgaranna við ríkið og opinbera aðila. Í meira en tvo áratugi hefur verið talað um stafræna stjórnsýslu og birtar stefnur um hana, en ósköp lítið hefur gerst, þótt endalausar rannsóknir sýni fram á sparnað bæði stofnana og þeirra sem bíða annars í biðröðum.

Fyrirmynd annarra ríkja

Í Eistlandi gengur þetta miklu betur, í einhverju stafrænasta samfélagi í heimi. Stjórnvöld þar hafa tekið stafræna stjórnsýslu alla leið. Raunar svo langt að þangað koma spekingar alls staðar að úr heiminum til að læra hvernig á að gera þetta. Og í hverju liggur þessi velgengni? Ekki fólksfjöldanum, Eistar eru 1,3 milljónir, ekkert svo miklu fleiri en Íslendingar. Ekki liggur það í ríkidæminu. Þjóðarframleiðsla á mann er um þriðjungur af því sem gerist á Íslandi.

Og þó að nettengingar í Eistlandi séu með því besta sem gerist í heimi og netfrelsi líka með því mesta, þá er Ísland ofar á lista en Eistland yfir hvort tveggja.

Hvernig varð fámennt ríki að fyrirmyndarríki í stafrænni stjórnsýslu, og það nánast um leið og landið losnaði undan Sovétríkjunum? Einmitt þess vegna: allt í einu var stjórnsýslan horfin. Í stað þess að endurræsa hana í sovéskri mynd, með tilheyrandi skrifræði, ákváðu Eistar að fara alveg í hina áttina, byggja allt upp á nýtt, á nýrri hugsun og lausnum.  

Spara sér mikinn tíma

Og svona rétt til að undirstrika hvers vegna þetta snertir venjulegt fólk, en ekki embættismenn á skrifstofum: Venjulegur meðal-Eisti sparar sér fimm daga á ári með því að þurfa ekki að standa í snatti og biðröðum milli stofnana. Stjórnvöld hafa reiknað út að sparnaðurinn nemi um tveimur prósentum af þjóðarframleiðslu. Eistar geta nánast gert allt á netinu, nema þrennt: að giftast, skilja og kaupa fasteign.

Tobias Koch, starfsmaður e-Estonia. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

„Það sem ég tel mikilvægast hvað snertir Eistland að það er ekki eitt kerfi sem stjórnar öllum hér heldur eitt kerfi sem tengir og sameinar alla. Og það gerir manni kleift sem borgara hér að sinna erindum á netinu í stað þess að fara í viðeigandi stofnun,“ segir Tobias Koch, starfsmaður e-Estonia, kynningarseturs stjórnvalda um stafræna stjórnsýslu. Þangað koma fræðimenn, stjórnmálamenn og fréttamenn í stríðum straumum til að kynna sér í hverju gildurinn er fólginn.

„Öll þjónusta stjórnsýslunnar það má breyta eignarhaldinu á bílnum á netinu. Skila inn framtali, stofna fyrirtæki á netinu, og það á örfáum tímum. Metið er víst átján mínútur.“

Heilsufarsupplýsingar og lyfseðlar

Þannig að öll samskipti við ríki, sveitarfélög og opinberar stofnanir eru á netinu. Enginn pappír, engar biðraðir. Og þetta nær ekki bara til opinbera geirans. Yfir 2000 einkafyrirtæki og þjónustustofnanir nýta líka stafræn skilríki. Og þau opna líka fjölda gátta sem geyma bæði upplýsingar og samskipti við ríkið, eins og til dæmis um alls sem viðkemur heilsu- og sjúkratryggingum.

„Það sem þú sérð hér er aðgangur minn sem sjúklings, heilsufarsupplýsingar mínar,“ segir Tobias.

„Það má sjá nótur sem lagðar voru fram fyrir mann sjálfan af lækni til almannatrygginga. Það má sjá lyfseðla, hverskonar lyf er um að ræða. Og svo tilvísanir til sérfræðinga. Og það má líka sjá samantekt á tilfellum. Svo að maður fær innsýn í sjúkrasögu sína. Pælingin snýst um að maður ráði gögnum um sjálfan sig og hver hafi aðgang að þeim.“

Í Eistlandi er sem sagt kvöð á læknum og öðrum að skrá inn upplýsingar, ekki bara krota á blað, setja í eigin spjaldskrá eða í gagnabanka stofnunar sem ekki er aðgengileg almenningi. Sumt af því hægt er að gera í gegnum þessa eistnesku þjónustu er líka hægt á Íslandi – en á þremur mismunandi vefjum: Heilsuveru, Sjúktratryggingum og Tryggingastofnun, eftir atvikum. Og þar er afar sjaldgæft að hægt sé að klára nokkuð stafrænt.

Hefur áhrif á daglegt líf

Með rafrænu skilríkjunum er líka hægt að skrifa undir hvaðeina með stafrænum og öruggum hætti. Þannig væri til að mynda hægt að undirrita starfssamning við nýjan vinnuveitanda og senda honum án þess að standa upp úr sófanum heima hjá sér.

Á mannamáli má segja að með rafrænum skilríkjum, svipuðum þeim sem eru nú þegar notuð á Íslandi til að mynda opna netbanka, sé hægt að nálgast upplýsingar, ganga frá samskiptum við ríki og fyrirtæki úr tölvu eða síma – uppi í rúmi, þess vegna um miðja nótt. Allar upplýsingar eru dulkóðaðar og upplýsingar um hvern og einn eru geymdar á öruggum stað hjá til dæmis spítala, en venjulegur Eisti get sótt upplýsingar um sjálfan sig – og séð hver annar hefur gert það. Engar biðraðir og enginn pappír.

Heleri Aavastik býr í höfuðborginni Tallinn. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

En ætli venjulegir Eistar noti þessa rafrænu þjónustu í raun og veru? Heleri Aavastik býr ásamt eiginmanni og tveimur börnum í höfuðborginni Tallinn og getur talist nokkuð dæmigerður notandi.

„Kaupa aðeins inn fyrir morgundaginn... Og lesa kannski um hvað börnin voru að gera í leikskólanum svo að ég geti fylgst vel með,“ segir Heleri Aavastik, sem notar e-Estonia í sínu daglega lífi.

Nálgast flest í gegnum netið

Í gegnum vefgátt, sem hún opnar með rafrænum skilríkjum, getur hún fengið nær allar upplýsingar um börnin sín, svo dæmi sé tekið.

„Hér sérðu að ég er með tvö börn í sama leikskólanum og ég get merkt við hvort barnið ég ætla að skoða,“ segir hún. „Og hér má breyta skráningunni á lögheimilinu og hvar má hafa samband ef yfirvöld þurfa að ná í mann.“

Þannig að í raun fara öll hennar samskipti við opinbera aðila, hvort sem það er ríkisvaldið, bæjaryfirvöld eða annað, í gegnum þessa vefgátt?

„Og hér get ég séð hve ökuskírteinið gildir lengi. Hvernig bíl ég á og hve lengi tryggingin gildir. Hvenær hún rennur út. En ég fæ líka senda áminningu. Ég sé hve lengi evrópska sjúkraskírteinið gildir ég get alls staðar gengið að sömu læknisþjónustu í Evrópusambandslöndunum, hve lengi það gildir. Hvenær ég fékk síðast ávísað lyfjum, í júlí. Hvort ég sé tryggð af ríkinu, hver heimilislæknir minn er. Börnin mín eru skráð. Hvaða greiðslur ég fæ frá yfirvöldum. Og í hvaða lífeyrissjóð ég er skráð eins og er.“

„Og hér eru svo gögnin mín... Og héðan get ég valið leikskóla fyrir börnin. Þegar þau fæðast get ég bara setið heima og með barnið sofandi í fanginu og ég get skráð barnið sem eistneskan borgara og gengið frá allri pappírsvinnunni. Sótt um félagslegar bætur sem ég á rétt á. Gert allt frá þessari síðu,“ útskýrir Heleri.

Kýs í tölvunni

Og þetta gæti hún allt gert, jafnvel þó hún sæti á sófa í íbúð í Reykjavík en ekki í Eistlandi.

„Einmitt, og væri ég í Reykjavík og þyrfti að hafa samband við yfirvöld í Eistlandi færi ég þessa leið. Og svo einnig frá þessari yfirlitssíðu við ferðaáætlanir heim og ef eitthvað breyttist... Eða breyta þyrfti einhverjum skjölum og mæta á fund til þess þá má gera það héðan.“

Og Heleri getur líka kosið á netinu. Eistar gerðu fyrstu tilraunina með rafræna kosningu 2007 og síðan þá hefur þeim fjölgað hratt sem kjósa með þessum hætti, þótt kerfið sé ekki óumdeilt. Þetta er sem sagt ekki bara eitthvert stofnanamál fyrir embættismenn eða áhugamál örfárra tækninörda. 99 af hverjum hundrað Eistum nota rafræn skilríki daglega og einfalda lífið stórlega.

Heigo Reinek, eiginmaður Heleri. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

Eiginmaður Heleri, Heigo Reinek, segist hins vegar líka meðvitaður um hættur sem gætu falist í því að treysta um of á rafrænan heim.

„Það eina sem veldur mér áhyggjum er að tæknin brátt stjórni lífi okkar. Þar dreg ég mörkin. Ég leyfi ekki tækninni að stjórna lífi mínu. Mér þykir gaman að beita hamri og vil að sonur minn viti hvað á að gera við hamar og nagla í stað þess að kalla einhvern til til þess að vinna verkið. Ef einhver tekur rafmagnið af þarf maður að geta komist af. Það má ekki týna því niður.“

Vill færa fleira á netið

Munurinn er samt mikill fyrir daglegt líf í Eistlandi.

„Ég hef ekki hugmynd um hve mikil samskipti mín eru við yfirvöld. Maður sinnir þeim bara eftir hendinni. Maður þarf bara ekki að leggja á sig að fara eitthvað heldur sinnir þessu með hraði meðan pastað sýður og snúið sér svo að öðru.“

Svo Heleri þarf ekki að sækja réttu eyðublöðin og standa í biðröð? „Nákvæmlega,“ svarar hún.

Rafrænu skilríkin eru líka notuð æ víðar og á Heigo von á því að losna við enn fleiri kort úr veskinu sínu fljótlega.

„Það er mjög hentugt. Og á hverju ári taka rafrænu skilríkin við af plastkortunum. Ég bíð eftir því að rafrænu skilríkin taki við hlutverki bankakortsins,“ segir Heigo.

Hvernig virkar kerfið?

Það hljómar óneitanlega vel að geta sparað tíma og fyrirhöfn með því að nota eina gátt fyrir svona margt, að geta nánast skipt út öllu plastinu í veskinu fyrir eitt kort og app í símanum. En hérna kann einhver að hika og hugsa með sér: er þá ríkið – stóri bróðir – milliliður í öllum viðskiptum og samskiptum mínum í gegnum þetta kerfi, og allar upplýsingarnar um mig vistaðar á sama stað?

Nei, ríkið veit ekki neitt, heldur leggur bara til þessa öruggu þjónustu, segja talsmenn stjórnvalda. Og upplýsingarnar eru ekki  tengdar saman hjá stóra bróður, heldur hverjum notanda fyrir sig. Allt byggist þetta á kerfi sem aðrir, þar á meðal Íslendingar, vilja nú taka upp og heitir x-road.

(Mynd Sævar Jóhannesson/Kveikur)

X-road, eða straumurinn á íslensku, er er í sinni einföldustu mynd örugg samskiptaleið milli ólíkra kerfa, stofnana og notenda.

Á Íslandi er ekki til neinn miðlægur allsherjargagnagrunnur með upplýsingum frekar en í Eistlandi, heldur er hver stofnun fyrir sig með skrár og gagnagrunna í lokuðum kerfum. Það væri til hægðarauka ef stofnanir gætu auðveldlega skipst á nauðsynlegum upplýsingum. Og það væri sannarlega gott ef Jón og Gunna gætu vandræðalítið nálgast upplýsingar um þau í þessum kerfum.

Á sama tíma verður að tryggja öryggi gagnanna og persónuvernd. Eistar smíðuðu x-road til að geta gert þetta. Auðvelt er að skiptast á gögnum og nálgast þau, án þess að til þess þurfi beiðnir í þríriti og biðraðir. Afraksturinn á að vera aukið gagnsæi og hagræðing.

Fóru strax í stafræna formið

Árangur Eistanna er ekki síst markverður í ljósi þess að það eru ekki þrír áratugir síðan þeir losnuðu undan Sovétríkjunum. Þá var ekki einu sinni helmingur landsmanna með símalínu, hvað þá tölvu. Samskiptaleiðin við útlönd var finnskur farsími sem var vel falinn í garðinum hjá utanríkisráðherranum. Raunar segir sagan að ákveðinn  nágrannarígur við Finna sé enn ein ástæða þess að Eistar tóku stafræna stökkið. Finnar voru byrjaðir og gátu þess utan montað sig af Nokia. Í dag eru Finnar að læra af Eistum.

Robert Krimmer, prófessor í stafrænni stjórnsýslu við Tækniháskólann í Tallinn, segir að árangurinn byggist á því að hafa farið strax í stafræna væðingu.

Robert Krimmer, prófessor í stafrænni stjórnsýslu við Tækniháskólann í Tallinn. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

„Við hlustum ekki á að fyrst þurfi að vinna þetta á prenti og svo stafrænt heldur fara öfugt að. Að byrja stafrænt og liðsinna svo þeim sem hafa ekki tök á því stafræna. Svo að þeir fylgja þessu fast eftir og af hverju ráða þeir við það? Af því það felst í því virðisauki fyrir þjóðina sem hefur hlotið mikið lof og viðurkenningu undanfarin fimmtán ár í þessari þróun. Og í hvert skipti sem fjallað er um Eistland, eins og þú gerir nú, þá er það enn ein festingin fyrir Eistland við Vesturlönd,“ segir hann.

Eitthvað fleira hefur nú komið til, því í Eistlandi hafa líka fæðst fjölmörg netfyrirtæki, frumkvöðlafyrirtæki eins og Skype, svo kannski er það eitthvað í vatninu. Frumkvöðlarnir á bak við þau fyrirtæki voru líka ráðgjafar og hvatamenn í stjórnsýslunni. Og afraksturinn er að nánast hvert einasta mannsbarn notar þetta kerfi – líka eldra fólk eða þeir sem búa við verra aðgengi að tölvum. Víða eru í boði leiðbeiningar- og aðstoðarstöðvar fyrir þá sem eru að vandræðast.

„Það sem Eistar hafa byggt upp er almenn innleiðing á því stafræna. Þegar einhver kvartar yfir því að geta ekki nýtt sér stafræna þjónustu þá segir fólk ekki: Yfirvöld verða að sjá til þess að þú getir sinnt þessu á pappír. Allir segja: Þú verður að læra nýja færni,“ segir Robert.

Ætlum að læra af Eistum

Enginn neitar því að eitt og annað hefur komið upp á, við þróun þessarar stafrænu þjónustu, en Eistar eru bæði ánægðir með hana og stoltir af henni.

Eftir stendur spurningin sem snýr að okkur, Íslendingum. Af hverju hefur ítrekað verið mörkuð stefna, dágóðum summum varið í margs konar misgóðar veflausnir og hvaðeina, en árangurinn er ekkert í líkingu við það sem Eistar hafa náð?

Að hluta til vegna þess að hver stofnun er að gera sitt. 164 stofnanir með 164 stefnur, vefi og aðferðafræði. Ísland er í fertugasta og þriðja sæti samkvæmt úttekt World Economic Forum. En nú segjast ráðamenn hafa séð ljósið, að hægt sé að spara ríkinu háar fjárhæðir og bæta þjónustuna.

Verkefnið „Stafrænt Ísland“ var sett á laggirnar í sumar og til stendur að innleiða lausnir Eista og læra af þeim. Einn burðarliðirinn í þessari áætlun er að efla þjónustugáttina Ísland.is, en þar til það verkefni er lengra komið er það víst bara biðröðin.