Sjóðsstjórinn sem gerir sem minnst

Við erum stödd við Tahoe-vatn í Nevada í Bandaríkjunum. Ástæðan liggur kannski ekki alveg í augum uppi því hver er svo sem tengingin milli íslenskra lífeyrissjóða og Nevada? En hinkrið aðeins, við ætlum að segja ykkur litla sögu.

„Ég heiti Steve Edmundson og er sjóðstjóri lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna í Nevada,“ segir Steve Edmundson.

Það mætti kannski segja að Steve þessi sé nægjusamur maður. Hann býr í hjólhýsahverfi, í 50 fermetra smáhýsi, með eiginkonu sinni og hundinum Bókar.

Og hvað kemur það okkur við? Jú, það vill nefnilega þannig til að sjóðurinn sem Steve Edmundson stýrir er einn og sér svona nokkurn veginn jafn stór og allt íslenska lífeyrissjóðakerfið til samans. Nema hvað, á Íslandi eru sjóðirnir vel yfir tuttugu.

„Í sjóðnum eru núna 41,2 milljarðar dollara,“ segir hann.

Sem eru hátt í 4.300 milljarðar króna, miðað við meðalgengi Bandaríkjadals á þessu ári . Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða í lok síðasta árs voru rétt rúmlega 4.100 milljarðar.

Einfaldur og lítill sjóður

„Við höfum alltaf verið kölluð einfaldi sjóðurinn. Við greiðum lægstu fjárfestingagjöld í bransanum. Við erum með fæsta starfsmenn. Ég er eini starfsmaður fjárfestingasviðs sjóðsins,“ segir hann.

Steve heldur sem sagt einn og sjálfur utan um allar fjárfestingar lífeyrissjóðsins. Samt sem áður hefur honum tekist að ávaxta eignir hans betur en heilu herdeildum fjárfesta hjá öðrum lífeyrissjóðum.

Hver er galdurinn?

„Ég held gjöldunum lágum. Hef þetta einfalt. Færri hreyfihlutar. Við fjárfestum í gæðaeignum og gerum það til langs tíma. Við nýtum þessa einföldu aðferð af miklum aga.“

Steve er reyndar þekktur í fjármálaheiminum fyrir að vera maðurinn sem mætir í vinnuna og leggur sig síðan fram um að gera sem allra minnst. Því einmitt í því felist sjálf vinnan. Hann reynir til dæmis frekar að fara út að hlaupa en að gera hvatvísar breytingar á eignasafninu.

Öfugt við íslensku leiðina

Það verður seint sagt um íslenska lífeyrissjóði að fjárfestingastefna þeirra byggist á sem mestu aðgerðaleysi.

Íslenskir lífeyrissjóðir tóku virkan þátt í uppbyggingu atvinnulífsins eftir hrun, enda fáir sjóðir jafn digrir í landinu og einmitt lífeyrissjóðirnir. Tveimur árum fyrir hrun áttu þeir 6% allra skráðra hlutabréfa í landinu en 41% áratug síðar. Á sama tíma fór skuldabréfaeign þeirra úr 41 prósenti í 71.

Á tæpum áratug innan fjármálahafta keyptu lífeyrissjóðirnir svo gott sem allt sem þeir gátu keypt innanlands.

Myndi seint teljast áhættusækinn

Steve er fæddur og uppalinn í Nevada, heimaríki fjárhættuspila, en er fjarri því að vera manngerðin sem fer óvarlega með peninga.

Hann mætir yfirleitt með tvö nestisbox í vinnuna; annað undir morgunmatinn, hitt undir hádegismatinn. Segja má að hann hafi með nægjuseminni skapað sér goðsagnakennt orðspor innan fjármálaheimsins, sem stundum einkennist af hinu gagnstæða.

Það er um hálftíma akstur úr hjólhýsahverfinu til Carson-borgar, þar sem skrifstofur lífeyrissjóðsins eru. Leið sem Steve ekur tvisvar á dag, fimm daga vikunnar, á 13 ára gömlum Honda Element, eknum langleiðina til tunglsins.

Breytti um kúrs þegar hann mætti

Steve tók við sem fjárfestingastjóri Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna í Nevada fyrir sex árum og réðst strax í breytingar.

„Síðan ég byrjaði hjá sjóðnum höfum við hætt allri virkri stjórnun sjóðsins,“ segir hann.

Fram að því hafði stór hluti eigna lífeyrissjóðsins verið bundinn í hlutabréfasöfnum sem áttu að geta náð forskoti á markaði. En Steve tók sig til og sagði tíu fjárfestingaráðgjöfum af 19 upp og færði allar eignir lífeyrissjóðsins yfir í vísitölusjóði.

Það þýðir á mannamáli að í staðinn fyrir að halda áfram að borga þessum tilteknu fjármálasérfræðingum þóknanir og laun fyrir að segja honum í hverju hann ætti að fjárfesta, setti Steve peningana frekar í einfaldar langtímafjárfestingar.

„Þetta var 90% einfalt en ég breytti því í 100%,“ segir hann og bætir við: „Með þeirri breytingu urðu gjöldin mjög lág.“

Með þessu móti segir Steve að hann spari um 150 milljónir dala á ári, eða hátt í 16 milljarða. Og að eftirlaunaþega Nevada muni um minna.

„Við viljum að hver einasti dollari í fjárfestingakerfinu safni vöxtum í þágu sjóðfélaga og eftirlaunaþega. Í stað þess að greiða þessa dollara í gjöld viljum við halda þeim í fjárfestingakerfinu,“ segir Steve.

Enn ódýrara en hér

Rekstrarkostnaður íslenska lífeyriskerfisins er reyndar ekki sérstaklega hár í alþjóðlegum samanburði. Það kostar innan við fjórðung af einu prósenti, af öllum eignum sjóðanna að reka þá á ári. En fjórðungur af prósenti af 4.100 milljörðum eru reyndar heilmiklir peningar.  

Rétt er að taka fram að þarna eru fjárfestingagjöld ekki meðtalin. En það eru einmitt fjármunirnir sem Steve er að spara með fjárfestingastefnu sinni. Þar fyrir utan er rekstrarkostnaður Nevada PERS helmingi lægri en íslensku sjóðanna, þótt hann sé lágur, eða 0.12% af heildareignum.

Á undanförnum árum hafa heyrst gagnrýnisraddir um að yfirbygging íslenska lífeyrissjóðakerfisins sé of mikil. Að of margir séu á of mörgum skrifstofum á of háum launum við að stýra þeim og reka.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur átt eina af þessum röddum. „Fjórtán stærstu lífeyrissjóðirnir eru með uppgefinn og viðurkenndan 13,7 milljarða rekstrarkostnað með fjárfestingagjöldum á síðusta ári,“ sagði hann í Kastljósi í ágúst á síðasta ári. „Þetta er allt of mikil yfirbygging.“

Við spyrjum Steve hvort hann haldi að fleiri sérfræðingar og hærri fjárfestingagjöld myndu skila sér í betri ávöxtun.  

„Það er hugsanlegt en ekki líklegt, að mínu mati,“ svarar hann. „Ég hef trú á sjálfum mér sem öguðum fjárfesti. Ég hef ekki sömu trú á að ég geti séð fyrir það sem gerist eftir tvær vikur.“

Pressan líka til staðar í Nevada

Í gegnum tíðina hefur reglulega skapast mikill þrýstingur á lífeyrissjóðina að fjármagna ýmiskonar verkefni með samfélagslega hagsmuni að leiðarljósi. Eins og til dæmis að byggja hjúkrunarheimili, að fjárfesta í atvinnutækifærum í heimabyggð og fleira.

Svo er það auðvitað hagur þeirra sem starfa við fjárfestingar lífeyrissjóðanna – að þeir séu einmitt virkir í fjárfestingum.

„Auðvitað er alltaf pressa þegar maður hefur umsjón með 41,2 milljörðum dollara. Utanaðkomandi öfl? Það eru alltaf einhverjir sem telja að maður eigi að sinna starfi sínu á annan hátt. Það gæti til dæmis verið eignastjóri. Ég ákvað að losa okkur við virka stjórnun. Það snertir þá sem unnu sem stjórnendur og þeir verða aldrei ánægðir með slíka ákvörðun,“ segir hann.

Hefur gengið vel

Aðspurður segir Steve að ávöxtun sjóðsins hafi verið góð. „Ávöxtunin hefur verið góð en aðallega vegna styrkrar stöðu á fjármálamörkuðum. Á síðasta fjárhagsári var ávöxtunin 11,9 prósent,“ segir hann.

„Við höfum verið svo lánsöm að ávöxtunin hefur verið sérlega góð lengi. Ef við horfum aftur til stofnunar sjóðsins fyrir 34 árum hefur ársávöxtun numið um 9,3 prósent að meðaltali. Ég myndi segja að okkur hafi gengið vel. Það er eiginlega sönnunin á ágæti þessarar einföldu aðferðar.“

„Útkoman hjá okkur lítur mjög vel út í samanburði við flóknari eignasöfn.“

Leyndarmálið einfalt

Það liggur beint við að spyrja hvert leyndmárlið að velgengninni sé.

„Ég vildi að það væri flottara frá að segja en það er sáraeinfalt: Við höfum sýnt aga. Við höfum haldið okkur við þessa aðferð lengi. Við héldum í hana meira að segja þegar umhverfið hentaði slíkri aðferð ekki vel,“ segir Steve

Öfugt við þá sem leggja áherslu á virka sjóðastjórnun reynir Steve að láta sér fátt um finnast þegar fjármálamarkaðir taka byltur. Hann vinnur yfirleitt ekki utan hefðbundins vinnutíma, frá átta til fimm, og missir ekki svefn þótt sitthvað gangi á.

„Það er auðvelt að láta glepjast af því að halda að breytingar séu alltaf af hinu góða. Fjárfestingakerfi sem er hannað fyrir 30-50 ár ætti alls ekki að breyta reglulega,“ segir Steve.

„Opinberir lífeyrissjóðir ættu samkvæmt hugmyndinni að vera þeir fjárfestar á markaði sem horfa lengst fram í tímann. Það er auðvelt að gleyma því í þessum heimi þar sem fréttir eru sagðar allan sólarhringinn, stöðugar fréttir af gangi mála á fjármálamörkuðum.“

„Það sem gerist á markaði í næstu viku skiptir ekki máli í samhengi 30 ára fjárfestingaáætlunar. Það sem skiptir máli fyrir 30 ára áætlun er að fara eftir henni í þessi þrjátíu ár án þess að hafa áhyggjur af atburðum næstu viku á fjármálamörkuðum. En það er hægara sagt en gert í miðri hringiðunni.“

Er það þá satt að góður dagur í vinnunni sé dagur þegar þú gerir nánast ekki neitt? Eða mjög lítið?

„Ég er oft spurður um þetta. Þið eruð sjóðurinn sem gerir ekkert. En að gera ekkert er erfiðara en það virðist,“ segir hann. „En hvað breytingar á eignasafninu varðar er það tvímælalaust góður dagur ef við gerum engar breytingar.“

Af hverju gera þetta ekki allir?

Í umfjöllun um Steve og velgengni hans hefur stundum verið látið að því liggja að hann sé eini starfsmaður lífeyrissjóðsins, sem stemmir reyndar ekki alveg. Hið rétta er að hann er eini starfsmaðurinn sem hefur með fjárfestingar að gera, sem er vissulega óvenjulegt.

Fyrir utan Steve vinna rúmlega 70 manns önnur störf fyrir sjóðinn. Til samanburðar má nefna að meira en þrefalt fleiri vinna hjá íslenskum lífeyrissjóðum, þótt þeir séu í heild smærri en þessi eini sjóður.

Hvað finnst þér um þá mynd sem er dreginn upp af þér og sjóðnum, að þið séuð sjóðurinn sem geri ekki neitt?

„Ég skal glaður gangast við því, ef fólk sér okkur þannig utan frá finnst mér bara gott að vera sá sjóður. Ég trúi því staðfastlega að við eigum sem sjaldnast að gera breytingar. Ef við erum sjóðurinn sem gerir ekkert skal ég þiggja það. Það er í góðu lagi,“ segir hann.

En af hverju eru þá ekki allir að gera það sem þið eruð að gera?

„En af hverju gera ekki allir það sem þið gerið? Það sem gengur hérna í Nevada gengur ekki endilega upp annars staðar. Það þjónar okkur vel. Galdurinn er að finna rétta jafnvægið. Hver sem sú aðferð er getur hún gengið upp en ef vikið er frá henni á röngum tíma gildir einu hversu skynsamleg aðferðin er; hún ber ekki árangur,“ segir Steve.

Erfitt að bera saman

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er samsett úr 24 sjóðum sem samtals eru álíka stórir og þessi eini sjóður sem Steve fjárfestir fyrir. Hann segist ekki geta gefið álit á þeirri stöðu.

„Ég get eiginlega ekki tjáð mig um það þar sem ég skil ekki fyllilega hvernig kerfið ykkar er byggt upp,“ segir Steve.

„Það kann að vera góð og gild ástæða fyrir því að á Íslandi eru 24 lífeyrissjóðir. Ég á fullt í fangi með Nevada og allur minn tími fer í að hugsa um þróunina í Nevada. Ég hef engar upplýsingar um íslenska kerfið.“

„Engir bónusar í Nevada“

Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið við íslenska kerfið eru laun stjórnenda.

„Það getur ekki verið nein hagkvæmni í því þegar við erum með yfirbyggingu á íslenska lífeyrissjóðakerfinu þar sem að lykilstjórnendur og stjórnarmenn voru með í launagreiðslur 940 milljónur á síðasta ári,“ sagði Ragnar Þór til dæmis í fyrrnefndu Kastljósviðtali.

En hvað ætli Steve fái greitt? „Í fyrra hafði ég tekjur upp á 145 þúsund dollara,“ svarar hann. Það er ígildi mánaðarlauna upp á eina komma þrjár milljónir króna eða rúmar 15 milljónir á ári.

„Ef ég vildi þéna meira myndi ég fara eitthvað annað,“ segir Steve um kjörin. „Nei, það er enginn lúxus hjá mér en við erum ánægð með störf okkar.“

Það eru heldir engir bónusar sem toga launin upp. „Nei. Engir bónusar í Nevada.“

Það er þó ekki að sjá að hann sé óánægður í starfi. „Hvað get ég beðið um meira en að starfa við það sem ég hef gaman af, fjármál, og starfa í þágu þess sem ég trúi á, opinberra starfsmanna í Nevada?“ spyr Steve.

„Það líður aldrei sá dagur að ég kem í vinnuna og hlakka ekki til vinnudagsins. Sumir dagar eru æsilegri en aðrir og upp koma flókin úrlausnarefni en ég nýt meira að segja leiðinlegu daganna.“