Ríkið notar sjálfboðaliða

„Það á ekki að gera greinarmun á því hvernig þú stelur pening,“ segir Hjalti Tómasson, einn þeirra sem sinna eftirliti með kaupi og kjörum verkafólks á Íslandi.

„Hvort að ég fer í veskið þitt og stel þrjátíu þúsund kalli þar. Eða læt þig vinna fyrir umsaminn þrjátíu þúsund kall og borga þér ekki. Þetta er sami þjófnaðurinn, ekki satt?“

Hjalti starfar í eftirliti sem komið var á fót 2010 af stéttarfélögum og atvinnurekendum til að tryggja að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum sé fylgt á vinnumarkaði. Starfsstöð Hjalta og Kolbrúnar Erlendsdóttur samstarfskonu hans er á Selfossi.

Það að yfirvöld hafi lítið fylgt eftir yfirlýsingum um bann við ólaunaðri vinnu, er ekki skrýtið enda hefur sjálft ráðuneyti vinnumarkaðsmála í mörg ár auglýst eftir sjálfboðaliðum til að sinna fólki með fötlun.

„Við erum að tala um aðila, hluta af batteríinu sem setur lögin og hluta af batteríinu sem á að framfylgja þeim, og þeir eru sjálfir að auglýsa. Í blóra við eigin lög,“ segir Hjalti.

Nánar er rætt við Hjalta og Kolbrúnu og fleiri í Kveik í kvöld þar sem kafað er ofan í stöðu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Kveikur er á dagskrá klukkan 20.00 á RÚV og hér á vefnum.