Raf­bíla­væðingin: „Inn­viðirnir eru bara ekki klárir“

Af hátt í 270.000 fólksbílum hérlendis, eru 63 prósent bensínbílar, tæpur þriðjungur díselbílar, tæpt prósent rafbílar og afgangurinn annað. Samtals 267.647. Ef þetta verður þróunin munu orkuskipti í samgöngum ganga ákaflega hægt.

Og svo eru það bílaleigurnar. Þær hafa keypt 43 prósent af öllum nýjum bílum frá 2009. Fjöldi bílaleigubíla hefur fimmfaldast á þeim tíma og er nú um 25.000 bílar. 99 prósent þeirra eru bensín- og dísilbílar, sem svo fara notaðir inn á markaðinn eftir 2-3 ár.

„Óraunhæfar“ kröfur

Í byrjun árs sagði Guðni Jóhannesson orkumálastjóri að bílaleigurnar tefðu mjög fyrir orkuskiptum og rétt væri að skylda þær til að fjölga umhverfisvænni bílum í flotanum hjá sér. Hvað finnst bílaleigufólki um þær hugmyndir?

„Þær eru náttúrulega bara, hvað á ég að segja, óraunhæfar. Vegna þess að innviðirnir eru bara ekki klárir,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigunnar Hölds. „Það segir sig líka sjálft eins og aðstæður eru í dag, þær eru bara ekki fyrir hendi eins og á Keflavíkurflugvelli eða bara hér á Reykjavíkurflugvelli.“

Gríðarlegur kostnaður í Leifsstöð

Minnst þúsund hleðslustöðvar þyrftu við flugvöllinn til að hægt væri að anna eftirspurninni, að hans mati. „Ég gæti trúað að á stærstu dögunum í Keflavík séu að fara út í greininni svona þúsund bílar. Svo er þetta spurning, eru þetta hraðhleðslur eða venjuleg hleðsla? Ef við ætlum að fara að taka normal hleðslu sem tekur 8-12 klukkutíma, þá er það gríðarlega kostnaðarsamt fyrir bílaleigurnar, því það dregur úr nýtingartíma fjárfestingarinnar, bílsins. Þannig að ég tel að það þurfi 1000-2000 stöðvar í Keflavík, lágmark.“

Og kostnaðurinn er hár.

„Þú getur fengið rafhleðslustöð frá 90.000 krónum og upp í nokkrar milljónir. Hraðhleðslustöðin, þá ertu farin að tala um nokkrar milljónir,“ segir Steingrímur.

Hraðhleðsla bara redding

Þetta kostar nefnilega – hver ætlar að borga fyrir þúsund hleðslustöðvar í Keflavík? Og það er fleira sem kemur til. Í nýrri byggingarreglugerð sem var minnst á hér áðan, er atvinnuhúsnæði undanskilið þeirri skyldu að gera ráð fyrir rafbílatengingum. Hótel og gistiheimili þar með.

„Þessar hraðhleðslustöðvar, það eru bara reddingar. Fólk er að hlaða á næturstað. Þannig að þessi gistiheimili, hótel, þau þurfa að bjóða upp á þessa aðstöðu,“ segir hann.

„Og við höfum lent í því, því miður, eins og bara í sumar að það eru viðskiptavinir hjá okkur sem höfðu tekið rafbíl hjá okkur, við erum með rafbíla í dag, og þeir þurftu að skipta, því það er ekki möguleiki að hlaða bílinn um kvöldið.“

Þetta er hluti umfjöllunar Kveiks um rafbílavæðinguna og loftslagsmál sem sýnd verður í kvöld klukkan 20.00.