Plastið ekki endurunnið heldur brennt

Umbúðaplast sem Sorpa hefur sent til Svíþjóðar frá miðju ári, um 800 tonn, hefur ekki verið endurunnið heldur brennt.

Síðasta hálfa árið hefur umbúðaplast sem Sorpa sendir til endurvinnslu í Svíþjóð verið brennt þar í landi. Ástæðan er kollsteypa á mörkuðum, eftir stefnubreytingu hjá Kínverjum.

Í byrjun þessa árs hættu Kínverjar að taka við stórum hluta umbúðaplasts í heiminum til endurvinnslu. Sögðust ekki lengur vilja vera ruslahaugar heimsins. Það lokuðust í rauninni allir markaðir fyrir óunnið plast.  

Ákvörðun Kínverja varð til þess að Evrópa fylltist af plasti sem enginn vildi, miklum mun meira en endurvinnslustöðvar í álfunni gátu tekið við.

Fer í „orkuendurvinnslu“

„Þetta venjulega plast sem að íbúar eru að flokka í dag, það hefur farið frá miðju ári í orkuendurvinnslu,“ segir Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

En þetta þýðir að allt plast sem að Sorpa hefur sent úr landi frá miðju ári, hefur verið brennt?

„Það fer í orkuendurvinnslu já, brennt. En það er ekki alveg þannig að það verði ekki að neinu. Það verður að rafmagni og varma einhvers staðar annars staðar,“ svarar hann.

En það er samt ekki endurunnið?

„Þetta kallast orkuendurvinnsla. Það má alveg hártoga og deila um það hvort að það sé endurvinnsla eða ekki,“ segir Björn Hafsteinn. „Og ég meina, þetta er tímabundið ástand og við urðum einhvern veginn að leysa það og það var leyst með þessu móti.“

Kveikur fjallar um plast í þætti sínum í kvöld og greinir frá rannsóknum á örplastsmengun í lífríki Íslands. Kveikur verður örlítið seinna á ferðinni í kvöld en alla jafna og hefst klukkan 20:35.