Mikilvægt að hugsa um fleira en eigin þarfir

Í páskaútgáfu Kveiks fylgjum við eftir íslenskri konu sem á gríðarstóran hóp aðdáenda um allan heim, jafnvel þótt Íslendingar hafi ekkert endilega heyrt á hana minnst.

Guðrún Björt Yngvadóttir tók við sem alþjóðaforseti Lions-hreyfingarinnar síðasta sumar og er þar með í forsvari fyrir 1,4 milljóna manna samtök í meira en 200 löndum. Þetta er í fyrsta sinn sem kona vermir forsetastól samtakanna, í hundrað ára sögu þeirra. Þetta gerir að verkum að Guðrún er allt að því í guðatölu hjá sumu Lions-fólki, því hún stendur fyrir breytingar og framfarir.

Guðrún Björt Yngvadóttir - alþjóðaforseti Lions-hreyfingarinnar (Mynd: Arnar Þórisson)

Guðrún varð sjötug í fyrravor en segist hafa lent í forsetastólnum án þess að hafa beinlínis ætlað sér það sjálf. Það séu örlög þeirra sem vinni verkin sín vel að vera sífellt falin stærri og fleiri.

Kveikur hefur hitt hana af og til síðasta árið og var meðal annars í Las Vegas í fyrrasumar þegar Guðrún tók við embættinu. Segja má að þá hafi fengist innsýn inn í annan og öðruvísi heim; einhverskonar Lions-heim, sem er á köflum ótrúlegur.