Landnám tegunda verður ekki aftur tekið

Fána Íslands ber þess merki að við búum á eyju á norðurhveli. En stundum slæðast hingað dýr frá suðlægari slóðum. Sumarið 2017 fannst t.d. hópur froska á vappi í Garðabæ og skömmu seinna skaut þvottabjörn upp kollinum á Reykjanesi.  

Svo er það þessi hérna:

Þetta er líkan af skjaldböku sem fannst á svamli í Steingrímsfirði árið 1963. Þú getur lesið meira um hana hér.

En, ekkert þessara dýra sem hér hafa verið talin upp áttu mikla möguleika á því að geta sest að á Íslandi en það á ekki við um allar tegundir sem hingað koma.

Rauðhumla, folafluga, spánarsnigill, trjágeitungur, minkur og grjótkrabbi. Svo ekki sé nú minnst á lúsmý - eða mínímý, eins og einhver stakk upp á að það yrði kallað. Allt eru þetta dæmi um framandi tegundir sem hafa borist til landsins og náð að gera sig heimakomnar.  

En sumar tegundir náðu ekki bara fótfestu heldur gerðu gott betur og eru skilgreindar sem ágengar í náttúru Íslands. Það er að segja; þær pluma sig svo vel í nýjum heimkynnum að það kemur niður á tegundum sem voru þar fyrir.

Hefur áhrif á vistkerfið

„Ágeng tegund flokkast sem tegund sem hefur neikvæð áhrif á vistkerfið eða efnahagsleg neikvæð áhrif gagnvart okkur. Sem sagt neikvæð áhrif á nytjastofna og svo framvegis,“ segir Óskar Sindri Gíslason, eða Sindri. Hann er sjávarlíffræðingur og einn af þeim sem hafa fylgst náið með landnámi nýrrar tegundar við strendur Íslands; grjótkrabbans.

Krabbinn sást fyrst til í Hvalfirði fyrir rúmum áratug. (Mynd/Óskar Sindri Gíslason)

„Hann er sem sagt kominn. Búinn að dreifa úr sér á 70% af strandlengjunni og finnst bara í mjög miklum þéttleika víða,“ segir hann. Grjótkrabbinn er ekki orðin ágeng en hefur alla burði til þess. „Því þetta er stór krabbi, það er mjög mikill þéttleiki af honum. Þetta er alæta. Þannig að það bendir mjög margt til þess að hún sé orðin ágeng.“

Ágengar tegundir hafa valdið miklum skaða víða um heim. Stundum er talað um að japanska plantan ködzu hafi étið Suðurríki Bandaríkjanna. Hún var flutt þangað sem landgræðsluplanta og til þess að prýða verandir heimamanna - en gerði talsvert meira en það.  

Evrópskar kanínur voru líka fluttar til Ástralíu á 18. öld, sem uppspretta matar og upplögð veiðibráð. Þær fjölguðu sér hins vegar fram úr hófi, sem kom harkalega niður á plöntu- og dýrategundum sem fyrir voru og stuðluðu að alvarlegri landeyðingu.

Það er því kannski ekki furða þótt íslenskir fræðimenn séu á varðbergi þegar kemur að landnámi nýrra tegunda hér á landi.

„Við erum með okkar vistkerfi sem hefur þróast hérna í gegnum tíðina og þegar það koma svona nýjungar inn sem eiga ekki heima í þessu vistkerfi þá geta þessar nýju tegundir sett ansi mikið strik í reikninginn,“ segir Erling Ólafsson.

Framandi tegundum fer fjölgandi ár frá ári hérlendis, en samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum eru sjö þeirra ekki bara framandi, heldur líka ágengar.

Menja von Schmalensee. (Mynd Kveikur/RÚV)

„Þetta er hins vegar tala sem er svona eiginlega alltaf í stöðugri endurskoðun,“ segir Menja von Schmalensee. „Og við stöndum frammi fyrir því akkúrat núna að vera að endurskoða þennan gagnagrunn og þessar tölur þannig að ég reikna með því að rauntala sé í rauninni eitthvað hærri.“

Þekktustu ágengu tegundirnar eru líklega minkur, alaskalúpína og skógarkerfill. En á listanum eru líka fleiri lífverur sem minna fréttist af. Þar er til dæmis mosategundin hæruburst sem heldur til á jarðhitasvæðum, og ferskvatnssnigillinn búrabobbi, ættaður úr fiskabúrum.

Þarna er líka húshumla, býflugutegund sem veitir öðrum býflugutegundum harða samkeppni, svo mjög að ein þeirra, garðhumla er því sem næst horfin. Og síðan hinn alræmdi spánarsnigill.

En svo eru aðrar tegundir sem standa svo að segja á þröskuldinum. Eru framandi í náttúru Íslands en ekki taldar ágengar - ennþá. Jafnvel tegundir sem fólk leiðir ekki endilega hugann að í þessum efnum, til dæmis kanínur eða litlu loðnu vinir okkar kettirnir.

„Víða erlendis þá hafa þeir valdið gríðarmiklu tjóni og útdauða tegunda, sérstaklega á eyjum.“

Stærra vandamál en mengun

„Í dag eru framandi tegundir önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á eftir búsvæðaeyðingu. Þannig að þetta er í rauninni stærra vandamál en mengun. Og það er nú gríðarlegt vandamál í dag. Þannig að ábyrgðin er rosaleg hjá okkur,“ segir Sindri. „Og við erum allt of kærulaus, það er bara sorglega staðreyndin við þetta.“

Hér er ekki til umræðu náttúrulegur flutningur tegunda, heldur þegar dýr eða plöntur öðlast ný heimkynni fyrir tilstilli mannsins – hvort sem hann gerir það viljandi eða ekki.

Dæmi um það þegar flutningurinn er óviljandi, eða að minnsta kosti ekki megintilgangurinn heldur frekar aukaverkun, er þegar fluttur er inn erlendur jarðvegur. Ýmist einn og sér, eða sem pottamold með plöntum og trjám.  

Guðríður Helgadóttir hefur starfað við garðyrkju lengi. Við hittum hana í gróðrarstöðinni Storð í apríl, þegar stæðurnar af erlendum plöntum voru nýkomnar til landsins.

Sjósundsfólk vari sig

Með hækkandi sjávarhita hefur framandi sjávartegundum við Ísland einnig farið fjölgandi, þótt engin þeirra teljist ágeng - enn sem komið er. Einungis framandi.  

Flestar framandi sjávarlífverur skjóta fyrst upp kollinum við sunnan- og vestanvert landið, þar sem skipaumferð er mest. Í fyrrasumar var þó staðfestur nýr landnemi í Eyjafirði, sem hafði reyndar áður sést til á Faxaflóa og vakið litla kátínu. Það var dýr sem heitir griphvelja.  

„Frumniðurstöður benda til þess að sá stofn sem hingað er kominn sé frá Asíu og það er mun eitraðari stofnar heldur en eru við Norður Ameríku,“ segir Sindri. „Eitrið getur valdið bólgum í hálsi, sem sagt þrengslum í hálsi. Öndunarerfiðleikum og vöðvakrömpum. Og þetta er náttúrulega mjög bagalegt fyrir fólk sem lendir í þessu. Helstu áhrifin eru þá kannski við sjósundfólk, eins og hérna við Ísland. En annars ætti þetta ekki að hafa mikil áhrif sko.“

Sindri segir að sjósundsfólk ætti að fara varlega. „Bara forðast þetta, að koma nálægt þeim og komast í snertingu við þær því eitrið er í stingfrumum á örmum hveljunnar. En það er mjög auðvelt að komast hjá því að vera eitthvað utan í þeim,“ segir hann.

Griphveljan er upprunnin í Kyrrahafi en hefur flust til annarra svæða með kjölfestuvatni skipa. Það er algengasta flutningsleið framandi sjávarlífvera til nýrra búsvæða. 

Sindri hefur ekki síður áhyggjur af tegundum sem eru vísvitandi fluttar inn.  

„Eins og bara með flutning eldistegunda. Það þarf virkilega að pæla í hvaða tegundir er verið að flytja inn og það þarf alveg að vera ljóst að þessar tegundir geti ekki lifað hérna eða fjölgað sér. Og eins að þær séu ekki að bera inn sníkjudýr og sjúkdómsvalda fyrir aðrar tegundir,“ segir hann.

„Þetta virðist vera svoleiðis með eiginlega allar tegundir að þær sleppa samt út. Alveg sama hversu vel menn eru viljaðir að koma í veg fyrir það. Annað hvort sleppa út eða er sleppt út.“

Sindri tekur dæmi sem Íslendingar þekkja flestir.

„Ég nefni oft dæmið um bara minkinn á landi. Þetta er landspendýr og ætti að vera auðveldara að eiga við það heldur en bara sjávarlífverur. En okkur hefur ekki tekist að uppræta minkinn hérna og svo þegar við lítum bara út í sjó. Hvernig ætlum við að geta brugðist við framandi tegund í sjó?“ spyr hann.

Sindri er sjávarlíffræðingur. (Mynd Kveikur/RÚV)

„Og ég held að stjórnvöld og almenningur séu ekki nógu meðvituð um það sko. Það er bara, af hverju er ekki í lagi að einhver ný tegund komi hérna? Það bara, við ráðum ekkert við hvernig hún spjarar sig hérna og hvað hún gerir. Og hvaða áhrif verða á okkur og okkar afkomu í rauninni,“ segir hann.

Sindri telur að herða ætti reglur um kjölfestuvatn og innflutning á eldisdýrum.

„Líkurnar á landnámi aukast stöðugt með hækkandi hitastigi hérna við landið. Og hvað gerist eftir fimm ár, tíu ár? Núna er þetta kannski svona takmörkuð útbreiðsla. En eftir 10 ár með hlýnun. Ef það verður hlýnun og ef hún heldur bara áfram þá getur útbreiðsla þessara tegundar orðið bara allt í einu gríðarleg,“ segir hann.

Hvar eru mörkin dregin?

Það er samt ekki laust við að þessi umræða hafi á sér svolítið óþægilegan blæ. Sér í lagi þegar hún snýr að því að sumar tegundir séu á einhvern hátt rétthærri en aðrar. Upprunalegar. Því hvað er svo sem upprunalegt og hvað ekki? Og hvar á að draga línuna?

„Þetta er í rauninni ekkert svo erfitt að draga línu,“ segir Menja. „Upprunaleg tegund er tegund sem er innan síns upprunalega útbreiðslusvæðis. Það er að segja tegund sem hefur þróast á þeim stað. Þannig að t.d. kengúra er upprunaleg tegund í Ástralíu. Hún bara varð til þar.“

„En með því að taka tegund og færa hana til þá erum við að hafa, í einhverjum tilfellum, gríðarlega mikil áhrif á náttúrulega ferla. Við erum að valda því að kannski aðrar tegundir verða útdauðar eða við erum að gjörbreyta samkeppnisaðstöðu einhverra tegunda. Hins vegar, mér finnst alveg erfitt stundum að horfa upp á, eins og í þessum tilfellum þar sem að mjög miklar útrýmingaraðgerðir hafa farið af stað með eitri og svona, ef maður horfir á sko  dýravelferðarsjófnarmið t.d. þá getur þetta verið mjög erfiður punktur.“

Menja segist persónulega verar þeirrar skoðunar að það eigi að grípa til aðgerða gegn ágengum tegundum. „Það er ekki spurning, en það er mín skoðun að við verðum samt að beita mannúðlegum aðferðum,“ segir hún.

Slöngumaðkar í íslenskum garði

Erling nefnir dæmi um framandi tegund sem fannst í garði í Reykjavík nýlega, sem hann telur ólíklegt að muni ávinna sér miklar vinsældir; orma sem kallast slöngumaðkar.

„Þeir eru upprunnir í Asíu og þeir hafa flust þaðan vítt og breitt, meðal annars til Norður-Ameríku og það eru heilmiklar skemmdir eftir þá. Þeir éta upp undirgróður í skógum,“ segir hann.

Tegundin hefur enn verið bundin við þennan eina garð. „En hann er búinn að vera þarna í tvö, jafnvel þrjú ár, þannig að hann lifir af vetur. Og þetta er enginn aufúsugestur í garða, ef hann nær að dreifast út,“ segir Erling.

Hann telur ljóst hvernig þessi tegund kom til landsins. „Með jarðvegi. Það er ekki um annað að ræða. Sko ég veit ekki hvað við erum að gera með þessu. Getum við ekki búið til mold sjálfir? Mér stendur ekki á sama um þetta, ég verð bara að viðurkenna það,“ segir hann.

En myndi hann þá mæla gegn því að fólk keypti erlenda mold í pokum? „Sko, má maður skemma viðskipti? Ég veit ekki hvernig það er. En þetta er bara, þetta eru bara púra viðskipti. Þetta á að vera óþarft,“ segir hann.

„Ja ég ætla bara rétt að vona að áhugasamir garðræktendur hafi þetta í huga. Að með því að kaupa einhvern svona innfluttan jarðveg í garðinn sinn þá eru þeir kannski að gera usla í garðinum sjálfum. Og svo fyrir utan garðinn sjálfan er það sem heitir íslensk náttúra. Og það eru dæmi um það að svona meinsemdir hafa flutt sig út í náttúruna.“

Birkið á í vök að verjast

Erling nefnir annað dæmi: birkikembu. „Það eyðileggur birki, birkilauf. Og það eru þær að gera fyrripart sumars. Garðeigendur þekkja það vel að birkið sölnar allt svona seinni partinn í júní. Og þetta fiðrildi hefur einmitt farið óðfluga út í náttúruna og er komið út um allt Suðurland. Uppeftir öllu,“ segir hann

Ofan í kaupið fór nýlega að bera á öðrum landnema sem herjar á birkið seinnipart sumars; birkiþélunni. Hvaða afleiðingar gætu þessar pestir haft á birki, sem er eina innlenda tegundin sem myndar skóg á Íslandi?

Gurrý segir að við þurfum eiginlega að bíða og sjá. „Gæti þetta mögulega gert út af við birkið? Ég vona ekki. En maður veit ekki. Kannski nær birkið vopnum sínum. Kannski nær það að mynda einhver efni sem gerir það verra á bragðið heldur en ella,“ segir hún.

Erling segir að við þurfum bara að tresta á birkið verji sig sjálft. „Við erum ekki að fara að eitra Brekkuskóg allan. Já eða bara... eða allt Suðurland. Nei nei,“ segir Erling. Hann furðar sig á því að ekki sé strangari reglur um innflutnings jarðvegs en það þykir líklegt að bæði birkikemban og birkiþélan hafi laumast með honum hingað til lands.

Erling Ólafsson er skordýrafræðingur. (Mynd Kveikur/RÚV)

„Það vita það allir að hingað mega ekki koma veiðimenn frá útlöndum með veiðigræjur, veiðistöng og allt það. Það þarf að fara í gegnum mjög stranga sótthreinsun og allur búnaður, stígvél og annað, áður en þetta fer hér út í íslenska náttúru. Og þá er bara verið að hugsa um vötnin. Það sé ekki verið að bera sjúkdóma í fiskana okkar og svo framvegis. En hvað er vatnið öðruvísi en þurra landið? Af hverju megum við bera sjúkdóma í þurrlendið? Án þess að það sé nokkuð eftirlit með því? Við erum ekki alveg samkvæm sjálfum okkur þarna, finnst mér,“ segir hann.

Leyfilegt er að flytja inn svokallað mómosamold og hins vegar moldina sem fylgir rótum innfluttra planta. Hvoru tveggja þarf að fylgja opinbert plöntuheilbrigðisvottorð. Erling segir reyndar að vottorð sé ekki nóg til þess að hindra landnám nýrra tegunda. Dæmin sanni annað.

„Og það er kannski helst að neytendur geti stýrt þessu frekar heldur en einhver annar,“ bendir Erling á.