Af hverju að moka ofan í skurði?

Umræður um loftslagsmál og skuldbindingar Íslands í þeim efnum, enda iðulega á þessum nótum: Til hvers að standa í öllu þessu veseni – orkuskiptum og skógrækt og landgræðslu og að þróa græna tækni – ef 70 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi koma frá framræstu landi?

Er þá ekki augljóst að við bara mokum ofaní skurði, endurheimtum votlendi og uppfyllum þar með öll okkar markmið og alþjóðaskuldbindingar? Þetta er víst ekki alveg svo einfalt, og markmið þessarar þriðju umfjöllunar Kveiks um loftslagsmál er að skýra þetta, sem best við getum.

Af hverju mengar framræst land?

Byrjum á byrjuninni. Það er að segja – hvers vegna losar framræst land svona mikið kolefni? Eða förum jafnvel einu skrefi aftar - hvað er framræst land? Það er í raun mýri sem skurðir hafa verið grafnir í kringum til að lækka vatnsyfirborðið, þurrka hana upp, oftast til að nýta sem tún eða beitiland.

Hvers vegna losar uppþurrkuð mýri svona mikið af gróðurhúsalofttegundum? Það er vegna þess að í mýrar safnast mikið af lífrænu efni, því þar kemst ekki súrefni að því til að leysa það upp. Þetta er mór, sem Íslendingar notuðu sem orkugjafa í margar aldir. Þegar svo mýrin er þurrkuð, þá fer allt á fullt.

Jóhann Þórsson, líffræðingur hjá Landgræðslunni. (Mynd Kveikur)

„Þá fer sem sagt að berast loft niður í jarðveginn. Það eru örverur í jarðveginum sem taka þá við sér, eru loftháðar,“ útskýrir Jóhann Þórsson, líffræðingur hjá Landgræðslunni.

„Bara eins og rotnun. Þetta er í raun og veru bara hliðstætt ferli. Þær lifa á lífræna efninu í jarðveginum og anda því frá sér sem CO2. Þannig að í rauninni ferlið sem á sér stað þarna er að það er verið að breyta föstu efni í lofttegund, alveg eins og gerist bara þegar við borðum mat. Hluti af þessum mat fer síðan út úr okkur sem CO2.“

Óvíst hversu mikil losunin er

Það er talað um að 72% af allri okkar losun sé vegna framræslu lands. Vitum við það? „Já og nei,“ segir Jóhann. „Við erum í þeirri stöðu eins og alla jafna að þetta hefur ekki verið áherslumál hjá stjórnvöldum varðandi rannsóknir og annað. Þannig að við höfum ekki farið neitt systematískt út í rannsóknir á þessum hlutum.

Doktorsneminn Súsanna Möckel, er að rannsaka íslenskar mýrar. Spurningin er: getum við ekki bara yfirfært alþjóðlega staðla og útreikninga um losun og bindingu mýra, yfir á íslenskt votlendi?

„Ég held því fram að við getum það væntanlega ekki. Við höfum eldvirknina hér og mjög tíð eldgos, þannig að mýrarnar hér á landi eru steinefnaríkari en í öðrum löndum, þær fá mikil vindborin efni sökum gjóskufalls og líka frá þessum stóru auðnum sem við höfum í landinu. Það hefur mikil áhrif á kolefnisbindingu, niðurbrotsferli og kolefnishringrásina í heild. Ég held ekki að þessi staðlar séu hentugir fyrir íslenskar aðstæður,“ segir hún.

Súsanna Möckel, vinnur að því að rannsaka íslenskar mýrar. (Mynd Kveikur)

Þannig að eins og er, þá vitum við kannski ekki alveg nákvæmlega hversu mikið þær binda og hversu mikið þær losa. „Nei, það eru rannsóknir í gangi um það og ég held að það sé smám saman að komast mynd á það, en við þurfum klárlega frekari rannsóknir á því.“

Óumdeilanlega mikil losun

Það er þó óumdeilt að losun úr framræstu landi er mjög mikil, þótt við vitum ekki nákvæmlega hversu mikil hún er. Nýstofnaður Votlendissjóður reiknar með 20 tonnum á hektara á ári út frá alþjóðlegum stöðlum.

Jóhann segir þó erfitt að segja til um hversu mikil losunin er. „Eins og hefur margoft verið bent á að það er mjög lítill hluti af framræstu landi sem er raunverulega nytjaland sem slíkt. Og þetta með að endurheimta votlendið, moka ofaní skurði á svæðum sem menn eru ekki að nota mikið í dag, þetta er í rauninni aðgerð sem menn ættu að skoða sem mjög hagstæða,“ segir hann.

Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli í Kjós, er einn þeirra sem lætur verkin tala. Honum er umhugað um að skila sínu landi af sér í betra standi en þegar hann tók við því.

„Ástæðan fyrir því að ég fer í þetta er að landið er mjög illa farið hérna. Það er mjög illa farið. Mannfólkið er búið að fara um það með veglagningu, vegagerð, námum og miklum skurðgreftri,“ segir hann.

„Af því tilefni að ég varð sextugur, þá ákvað ég í staðinn fyrir það að vera fá fullt af gjöfum, víngjöfum og fánastengur og eitthvað slíkt, þá ákvað ég að koma þeim skilaboðum á framfæri að ég vildi að andvirði slíkra gjafa myndi renna í ákveðinn sjóð sem færi í að bæta landið hérna. Endurheimta votlendi en líka bara landgæði, koma landinu í upprunalegt horf.“

Þetta eru sem sagt afmælisgjafirnar sem hann fékk?

„Já, við svona keyrum af stað með því sem var töluvert verðmæti. Hefði mátt vera meira,“ segir hann kíminn. „En já, við keyrum af stað á því og síðan leggjum við náttúrulega sjálf í þetta svolítið.“

Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli í Kjós. (Mynd Kveikur)

Líklega fleiri og lengri

Það var fyllt í um það bil tvo kílómetra af skurðum þarna í Kjósinni. Skurðakerfi landsins er opinberlega metið um það bil 34 þúsund kílómetra langt. Það er samt ekki vitað, frekar en nákvæm losun.

„Þeir eru sennilega miklu lengri en við héldum. Því það kemur í ljós að núna á síðustu árum hefur verið framræst mjög mikið, þrátt fyrir að það sé í raun ekki heimilt. Þetta er, samkvæmt náttúruverndarlögum þá þarf að fá leyfi fyrir framræslu og það virðist alla jafna bara aldrei vera gert,“ segir Jóhann.

Það er sem sagt enn verið að ræsa fram land á Íslandi, þótt ríkið hafi hætt að niðurgreiða slíkar framkvæmdir fyrir löngu síðan. Það er svo erfitt að meta kostnaðinn við að loka skurðum víða um land - það fer eftir því hvort það sé jarðvegur á staðnum til að fylla í þá, hversu mikið af tækjum og vinnuvélum þarf og svo framvegis. En hann hleypur á milljörðum ef það á að ganga í þetta af krafti.

Og það stendur í bændum, segir Sigurbjörn. „Náttúrulega, þetta er svona verkefni sem menn ýta til hliðar. Þeir hafa ekki verulegar tekjur af því að gera þetta. Ég var búinn að áætla að ég hefði fjármagn kannski í tvo daga fyrir ýtuna, kannski bara hleypur einhver á snærið og hjálpar mér að klára. Þetta er þriggja milljóna króna framkvæmd sem ég er að fara í hérna á þessari jörð,“ segir hann.

Stígvélabyltingin samhliða þurrkun

Ein mesta bylting í lífsgæðum á Íslandi varð þegar stígvélin komu til landsins eftir að við höfðum öslað mýrarnar, blaut í fæturna í þúsund ár. Það er kannski einhver kaldhæðni örlaganna að stígvélavæðingin virðist hafa hafist einmitt sama ár og Jarðræktarlögin voru samþykkt: 1923.

Á næstu áratugum fórum við svo hamförum við að ræsa fram land - um 90% votlendis á láglendi hefur verið ræst fram. Það er þess vegna líka mikilvægt að hafa í huga að endurheimtin snýst ekki bara um kolefnisbókhald.

„Þetta er einn hluti af lausninni. Þetta er hins vegar mjög verðmætt land á margan hátt. Þess vegna er það mjög skynsamlegt að endurheimta votlendi og það er ekki gott að það sé keyrt áfram eingöngu á loftslagsforsendum,“ segir Halldór.

Susanna telur votlendið auðlind. „Það sem ég myndi vilja sjá varðandi endurheimt mýra er að fólk líti á mýrar sem vistkerfi í heild sem er mjög mikilvæg auðlind og þess virði að varðveita,“ segir hún.

Jóhann varar við því að aðeins sé horft til kolefnis. „Við megum ekki falla í þá gryfju að hugsa bara um kolefni og kolefnisbindingu. Af því að það eru svo margþættir aðrir hlutir sem við erum að fá með aðgerðum eins og endurheimt votlendis,“ segir hann.

Verður áfram beitarland

Skurðirnir sem Sigurbjörn hefur unnið að því að fylla upp í eru frá um 1950. Hvernig ætli hann sjái landið fyrir sér eftir að áhrif þess eru fram komin?

„Sko, ég sé það þannig fyrir mér að landið verði ekki rennandi blautt eða vatnið fljótandi alls staðar upp. Þetta er meira bara að hækka grunnvatnsstöðuna og með því að hækka grunnvatnsstöðuna, þá eykur maður slitþol landsins. Af því að ég nota landið í beit, ég er að framleiða nautakjöt,“ segir hann.

Sigurbjörn segir það vel fara saman.

„Já. Svo sé ég það bara þannig fyrir mér að landið verði svona... það stingi ekki í augun þegar maður keyrir hérna framhjá. Það verði valllendi og mýrlendi og einhverjir melar halda sér og það verður fuglalíf - og kýr á beit.“

Allir á einu máli

Sem sagt: Það eru allir sammála um að það sé góð hugmynd að endurheimta votlendi – það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og stórbætir lífríkið og íslenska náttúru.

En hvernig er þá áætlunin? Hver á að gera það, hvar á að gera það og hver ætlar að borga fyrir það? Það er enn óljóst. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar segir bara að áætlun verði gerð um endurheimt votlendis og fjármagn til þess aukið verulega.

Það er líka búið að stofna Votlendissjóð þar sem sakbitnir ferðalangar geta bætt fyrir útblásturssyndir sínar og kolefnisjafnað ferðalög og akstur með fjárframlögum sem renna til endurheimtar.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, grænna lausna. (Mynd Kveikur)

Borgum fyrir að menga

Ísland ætlar að fylgja Evrópuríkjunum á leið sinni að markmiðum Parísarsamkomulagsins. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, grænna lausna, tók áskorun Kveiks um að skýra það kerfi í stuttu máli.

„Þetta er þannig að rammasamningur Sameinuðu þjóðanna, þar höfum við gert samkomulag um samdrátt í losun og við höfum gert nú þegar samkomulag við Evrópusambandið um svokallað ETS-kerfi þar sem fellur undir alþjóðaflugið, og stóriðjan okkar,“ útskýrir hann.

„Hitt kerfið sem við erum að semja um inngöngu í heitir ESR og það er ríkissjóður sem er að semja þar um samdrátt og losunarheimildir og undir ríkissjóð falla ýmiss konar iðnaðarfyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki og svo framvegis.“

„Þannig að ríkissjóður er bara með hluta af losuninni, hinn hlutinn hann er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra, það er að segja stærri fyrirtækjanna okkar.“

Halldór, hjá loftslagsráði, bendir á að í dag er ekkert mál að menga.

„Eins og staðan er í dag geturðu losað koldíoxíð út í andrúmsloftið þér að kostnaðarlausu. Þess vegna eru viðskiptakerfi með losunarheimildir mjög öflugt og gott tæki í mörgum tilfellum,“ segir hann.

Ekki með í bókhaldinu

Mörgum þykir þó sjálfsagt skjóta nokkuð skökku við að úr því að svo stór hluti losunar Íslands - kannski 70% - er frá framræstu landi, að aðgerðir til að stemma stigu við því, með endurheimt votlendis, skuli bara gilda mjög takmarkað í loftslagsbókhaldinu okkar.

Hugi Ólafsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu segir ástæðuna þó vel skiljanlega. Tölur um landnotkun og landbætur eru almennt grófari - það er til að mynda miklu auðveldara að mæla brennslu á jarðefnaeldsneyti en kolefnisbindingu mýra.

Og þótt Ísland hafið knúið á um að fá að telja endurheimt votlendis fram í sínu bókhaldi í Kýótósamkomulaginu, þá voru bara ekki til nógu góðar tölur og aðferðafræði til að fylgja því eftir. Okkur vantar vísindaleg gögn. Ef við bætum hins vegar bókhaldið og förum í alvöru langtímarannsóknir, þá höfum við kannski betri málstað að verja þegar fram í sækir.

Mælingar í gangi

Sunna Áskelsdóttir, verkefnisstjóri endurheimtar votlendis hjá Landgræðslunni, vinnur að því að bæta úr þessu.

Sunna Áskelsdóttir, verkefnisstjóri endurheimtar votlendis hjá Landgræðslunni. (Mynd Kveikur)

„Ég er í raun bara að ganga um svæðið, taka svona punktamælingu um losun á koltvísýringi og metani í hverri mælingu, bæði á þessu framræsta votlendi hérna og svo óröskuðu votlendi hinum megin við, sambærilegu,“ útskýrir hún þegar við sláumst í för með henni í mælileiðangur.

„Svo er hugmyndin að fara að gera nákvæmlega sama á sama tíma á næsta ári. Þá verður sem sagt búið að endurheimta hér og þá ættum við að sjá þetta framræsta svæði vera farið að haga sér miklu líkar þessu óraskaða í gaslosun.“

Jóhann segir að við hefðum þurft að byrja þessar mælingar fyrr.

„Ef menn hefðu farið af stað með svona mælingar einhvern tímann, fyrir einhverjum áratugum, þá ættum við í mjög litlum vandræðum í dag með að segja fyrir um hvað er að gerast í okkar vistkerfum varðandi gróðurhúsamál. Okkur bara vantar alveg stórkostlega að leggja áherslu á svona langtímarannsóknir. Þær bara hafa ekkert verið inni á radarnum hjá stjórnvöldum,“ segir hann.

„Þær kosta talsvert mikla peninga og það er kannski það sem hefur verið vandamálið. Ég get ekki nefnt neina tölu, en við erum að tala um einhverja tugi milljóna.“

Þetta er í raun það sem við erum að reyna að bjara, með því að endurheimta votlendi. (Mynd Kveikur)

Ekki meira skrepp um helgar

Við verðum því að gera töluvert meira og fleira til að uppfylla skilyrðin. Það skiptir nefnilega líka miklu máli efnahagslega.

Margir ráku upp stór augu þegar útreikningar Klappa sýndu að ef ekkert verður að gert, megi gera ráð fyrir hátt í 300 milljarða kostnaði árið 2030 vegna of mikillar losunar, en ef gripið verði til mikilla mótvægisaðgerða, gæti þessi upphæð farið niður í rúma 172 milljarða. Sá reikningur mun þó að mestu leggjast á flugfélög og stóriðju.

Jón Ágúst segir að losunarheimildir hafi hækkað mikið í verði.

„Eins og Icelandair var að greiða ef ég man rétt einhvern milljarð í fyrra í Kýótó-samkomulaginu. En í stað 8 evra á tonnið í losunarheimild, þá er það komið í 20 evrur,“ segir hann.

Flug losar gríðarmikið af gróðurhúsalofttegundum og ETS kerfið er gert til þess að reyna að draga úr því. „Það er ekki nokkur vafi á því að verð á flugi mun hækka verulega,“ segir Jón Ágúst.

Þannig að þessir tímar eru liðnir, saumaklúbburinn að skjótast yfir helgina eitthvað?

„Já, ég held að þeir séu að líða, það mun breytast mjög hratt og það mun gerast bara vegna þess að losunarheimildir, verð á þeim mun hækka, eldsneytisverð mun hækka og einu greiðendurnir að því eru þeir sem kaupa flugið.“

Skýr markmið og leikreglur

Jón Ágúst telur atvinnulífið á Íslandi komið töluvert langt á undan stjórnvöldum í undirbúningi og vinnu fyrir þessi grænu umskipti sem þurfa að verða. Formaður Loftslagsráðs tekur undir það.

„En þeir aðilar innan atvinnulífsins sem hafa verið í forystusveit, það eru fyrirtæki sem eru nálægt neytendum, sem gera sér grein fyrir því að þeirra framtíðarvaxtarmöguleikar byggjast á því að geta mætt þörfum neytenda morgundagsins. Það sem atvinnulífið er fyrst og fremst að kalla eftir er skýr markmið og skýrar leikreglur,“ segir Halldór.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs. (Mynd Kveikur)

Jón segir stjórnvöld líka þurfa að horfast í augu við að þessar breytingar munu kosta töluverða fjármuni og því þurfi að byggja upp loftslagssjóð.

„Sem er þá loftslagssjóður sem ríkið er að koma að, þar sem atvinnulífið er að koma að. Þannig að við séum viss um það að við náum að draga úr losuninni að verðmæti að minnsta kosti 100 milljarða fyrir 2030,“ segir hann.

Landbætur og rafvæðing í forgangi

Verkefnalistinn er langur, en Jón telur landbætur forgangsatriði og svo auðvitað öflugri rafvæðingu landsins.

„Þannig að við getum verið að rafvæða fiskimjölsverksmiðjurnar, rafvæða hafnirnar og rafvæða hleðslustöðvarnar og síðan þurfum við að fara markvisst í það að byggja upp framleiðslugetu í grænni orku, fljótandi orku sem við getum notað á skipin okkar.“

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er gert ráð fyrir 6,8 milljörðum í þennan málaflokk.

„Þetta á ekki að vera alfarið á ábyrgð ríkisins að koma með þessa fjármuni. Heldur eigum við að hugsa þetta þannig: Atvinnulífið og ríkissjóður komi að þessu og við sem einstaklingar, við erum að borga líka kolefnisgjöld, þannig að við viljum að þessi kolefnisgjöld sem við erum að greiða, fari í loftslagssjóð,“ segir Jón.

Tækifæri í að vera græn

Þetta er þó ekki bara erfitt og neikvætt.

„En það eru svo mikil tækifæri sem líka tengjast þessu. Fleira og fleira fólk mun koma til þessa lands, að mínu mati, til þess að geta notið náttúrunnar, með lágu kolefnisspori,“ segir Halldór.

Undir það tekur Jón Ágúst. „Þetta er gríðarlegt tækifæri fyrir Íslendinga til að byggja upp nýtt atvinnulíf, nýja stoð,“ segir hann.

„Og ég hef trú á því að ef við tökumst á við þetta verkefni og vinnum í þessu, þá fáum við mörg hundruð störf út úr þessu. Nú er bara að bretta upp ermarnar og leggja af stað í ferðalagið.“

Maðurinn hefur farið illa með náttúruna víða, Íslendingar eru svo heppnir að eiga þó nokkuð ósnortið land. Sem mörgum finnst heillandi. Til að mynda Súsönnu.

„Ég var lengi að vinna sem leiðsögumaður á sumrin og fór með gönguhópa á svæði sem heitir Arnarvatnsheiði, þar sem eru víðáttumiklar mýrar og óframræstar þannig að ég fékk að kynnast fegurð þessa vistkerfis mjög vel,“ segir hún.

„Það er líffræðileg fjölbreytni þar, það eru mjög skemmtilegar plöntur og fuglalíf... sérstaklega þegar maður sér auðnir í kringum þarna á Arnarvatnsheiði, þá er maður að dást að þessu vistkerfi fyrir seiglu sína. Þannig að já, mér þykir bara vænt um mýrar.“

Erum á brúninni

Og þótt Jón sé almennt bjartsýnn, þá getur stundum verið erfitt að halda í gleðina.

„Maður á svo erfitt með að skilja mannskepnuna. Við eigum öll börn, okkur þykir vænt um börnin okkar, við myndum ganga í sjóinn fyrir börnin okkar, eða fram af hömrum. En við erum einmitt á brúninni, með þessa spurningu: Ætlum við að fara fram af hamrinum – ekki bara við sjálf, heldur með börnin okkar,“ segir hann.

„Af hverju fórnum við ekki einhverju núna, af okkar lífsgæðum, til að þau geti lifað? Maður reynir náttúrulega að vera bjartsýnn, en stundum sekkur maður alveg niður.“

Halldór segir enn tími til bjarga málunum.

„Þetta er svolítið svipað og þér líður sem ökumaður þegar þú ferð inn í krappa beygju. Það er kröpp beygja fram undan. Þú þarft að vita hvað þú getur bremsað, hvað þú getur hægt mikið á bílnum til þess að þú náir beygjunni. Jörðin og íbúar hennar eru í svipuðum aðstæðum. Það er engin spurning að við verðum að setja fótinn á bremsuna vegna þess að heimslosunin er komin fram úr því sem telst ábyrgt, en það sem er hins vegar jákvætt er að við höfum ennþá þessa bremsuvegalengd sem við þurfum á að halda,“ segir hann.

Ef við neglum niður, nógu hratt?

„Já.“