Fundu plast í salti sem selt er á Íslandi

Í samstarfi við Matís lét Kveikur rannsaka hvort örplast fyndist í þremur tegundum sjávarsalts sem algengt er að fáist í íslenskum matvöruverslunum: tveimur íslenskum og einni erlendri.

Það reyndist örplast í þeim öllum. Í hverjum 100 grömmum voru á bilinu 48-124 þræðir. Að meðaltali 80 agnarsmáir plastþræðir í 100 grömmum af salti.  

Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart. Í nýlegri fjölþjóðlegri rannsókn á salti fannst örplast í 90 prósentum sýna, frá fimm heimsálfum, og af hverju skildi það svo sem ekki vera hjá okkur líka? Enn er þó lítið vitað um áhrif og alvarleika þess að fólk innbyrði örplast.  

„Þetta er til staðar og ég held að við þurfum ekkert að bíða eftir því að kannski vita nákvæmega hver dreifingin er, eða hversu viðamikið þetta er heldur verðum við að byrja á að fara í einhverjar aðgerðir til að reyna að hamla því að það fari meira plast út í umhverfið hjá okkur,“ segir Hrönn Jörundsdóttir, umhverfisefnafræðingur hjá Matís.

Kveikur fjallar um plast í þætti sínum á þriðjudagskvöld og rannsóknir sem farið hafa fram á plastmengun í lífríki Íslands. Kveikur verður örlítið seinna á ferðinni í kvöld en alla jafna og hefst klukkan 20:35.