RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Tónaflóð - stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt

Frá tónleikum Rásar 2, Tónaflóði á Menningarnótt í Reykjavík 2015.
 Mynd: Frímann Kjerúlf Björnsson  -  Rás 2
Menningarnótt fer fram með pompi og prakt þann 19. ágúst og Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2, verða að sjálfsögðu á sínum stað um kvöldið.

Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Reykjavíkurborg, Vodafone, Egils appelsín og Hljóð-X og verða í beinni útsendingu á Rás 2 og RÚV.

Á Tónaflóði 2017 koma fram hinar sjóðheitu Reykjavíkurdætur. Þær hafa verið starfandi í nokkur ár og hafa undanfarið vakið athygli út fyrir landsteinana. Þær hafa spilað þó nokkrum sinnum ytra og leika á tónleikum í Hollandi kvöldið fyrir Menningarnótt. Þær snúa heim aðeins nokkrum klukkustundum áður en þær hefja leik á Tónaflóði.

Á eftir Reykjavíkurdætrum stígur Hafnfirðingurinn og sjarmörinn Friðrik Dór á svið. Hann er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins og mætir í sparifötunum með 11 manna hljómsveit sem skipuð er landsliðinu í íslenskri tónlist.

SVALA sigraði kannski ekki í Eurovison en hún fór til Kænugarðs í Úkraínu og sigraði hjörtu okkar Íslendinga. Hún féllst á að koma hingað heim frá Los Angeles sérstaklega til að slá botninn í Eurovison-ævintýrið sitt með því að syngja Paper og önnur vel valin lög á Tónaflóði Rásar 2.

Síðan skein sól var ferskasta og vinsælasta hljómsveitin á Íslandi árið 1987. Sveitin gaf út hverja plötuna á fætur annarri fyrstu 5-6 árin, spilaði um allt land og lögin hennar hljómuðu alla daga á Rás 2. Í ár hefur hljómsveitin starfað í 30 ár. Það er okkur sannur heiður að fá Helga Björns og félaga til að fagna með okkur afmælinu á Tónaflóði á Menningarnótt.

Dagskráin er svona: 

20.00 – REYKJAVÍKURDÆTUR
20.30 – FRIÐRIK DÓR
21.15 – SVALA
22.00 – SÍÐAN SKEIN SÓL

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20 og standa fram að flugeldasýningu kl. 23.

Kjörorð Rásar 2 hefur lengi verið „fyrst og fremst í íslenskri tónlist“ og við erum stolt af því að hafa sameinað Íslendinga á öllum aldri með lifandi tónlist á Menningarnótt frá 2003. Við leggjum metnað okkar í fjölbreytta dagskrá. Við á Rás 2 og RÚV erum gríðarlega ánægð með að fá enn og aftur frábæran hóp listamanna til liðs við okkur á þessum stærstu og fjölsóttustu tónleikum ársins.

Tónaflóð 2016 verður í beinni útsendingu á Rás 2, RÚV og RÚV HD!

Upptöku- og útsendingarstjóri RÚV er Egill Eðvarðsson og kynnir Ólafur Páll Gunnarsson.