RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ný stefna RÚV til 2021 fjárfestir í framtíðinni

Mynd með færslu
Bætt þjónusta fyrir ungt fólk, aukið samstarf við skapandi greinar, opnari hugmyndaþróun, dýpri fréttaskýringar og stórsókn í íslensku leiknu efni. Þetta er meðal þess sem RÚV leggur áherslu á í nýrri stefnu sem kynnt var í dag á ráðstefnu um fjölmiðlun til framtíðar í Útvarpshúsinu við Efstaleiti.

"Verkefni okkar á næstu árum er fyrst og fremst að þróa þjónustuna svo hún mæti breyttum kröfum nútímafólks í nýju tækniumhverfi, á sama tíma og við stöndum vörð um almannaþjónustuhlutverkið; að upplýsa, fræða og skemmta. Til viðbótar viljum við efla RÚV sem uppbyggilegt hreyfiafl í samfélaginu, sem opinn vettvang hugmyndaþróunar, til samstarfs og uppbyggilegrar samfélagsumræðu sem skilar áþreifanlegu virði til einstaklinga sem og samfélagsins alls. Stefnan felur þó ekki í sér stærra RÚV, langt í frá, heldur mun skarpari forgangsröðun innan þess ramma sem fyrir liggur" sagði Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.

Í stefnunni er lögð áhersla á að RÚV verði að ná til allra aldurshópa og því verður þjónusta við yngra fólk (15-29 ára) bætt með þróun nýrra miðlunarleiða og dagskrárefnis. Nú þegar verður auglýst eftir nýjum verkefnisstjóra sem starfar þvert á miðla að þessu verkefni.

RÚV vill efla sköpun og miðlun íslenskrar menningar, m.a. með stórsókn íslensks leikins efnis og dagskrárgerð og eflingu RÚV-mynda.

Áhersla er lögð á að efla ritstjórnir sem starfa jöfnun höndum fyrir alla miðla RÚV. Þróaður verður nýr spilari sem eykur efnisframboð utan hefðbundinnar útsendingar. Á sama tíma verður samtalið við þjóðina galopnað með rýnihópum, enn markvissari úrvinnslu gagna og opnum hugmyndadögum þar sem óskað verður eftir hugmyndum að dagskrárefni.

Þá vill RÚV auka samstarf við menningarstofnanir og skapandi greinar auk annarra fjölmiðla, m.a. með því að gera myndver A aðgengilegt sjálfstæðum framleiðendum. Með þessu vill RÚV leggja sitt af mörkum til þess að viðhalda fjölbreyttri fjölmiðlun á Íslandi.

Starfsfólk RÚV er meðvitað um hve mikilvægt er að veita snarpa og hraða fréttaþjónustu í bland við dýpri rýni sem krefst tíma og þolinmæði. Meðal aðgerða til að mæta þessu stefnumiði er nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur sem hefur göngu sína haustið 2017. Lögð er áhersla á að fjalla um og sýna íslenskt mannlíf í samhengi við umheiminn og umheiminn í samhengi við Ísland.

Um áratugaskeið hefur samtímasagan verið fönguð hjá RÚV og á komandi árum verður almenningi gefinn kostur á að leita í þessum menningararfi í safni RÚV og á vef.

Til að nýjar stefnuáherslur nái fram að ganga verður ráðist í uppfærslu á stafrænum stoðkerfum og tækjabúnaði RÚV.  Auk þess verður þjálfun og endurmenntun starfsfólks efld markvisst með RÚV- skólanum. Aukinn kraftur er settur í hugbúnaðarþróun og sprotaverkefni.

"Á liðnum fimm árum hefur orðið sannkölluð umbylting í alþjóðlegum fjölmiðlaheimi. Samfélagsmiðlar eru orðnir fjölmiðlar og streymiveitur kollvarpa viðskiptalíkönum áskriftarmiðla. Aðgangur að erlendu afþreyingarefni er nánast takmarkalaus en efni á íslensku, um íslenskt samfélag og samhengi, er af skornum skammti. Þessi breyting hefur svo áhrif á óskir almennings um þjónustu. Þetta eru spennandi tímar sem fela í sér margs konar áskoranir og stefna RÚV til 2021 snýst ekki síst um að útskýra hvernig RÚV ætlar að takast á við þetta verkefni. Þannig viljum við tryggja að RÚV sé nútímalegur, íslenskur almannaþjónustumiðill. Ákveðin verkefni eru í forgangi en það þýðir alls ekki að allt annað sé víkjandi. Við höfum á undanförnum misserum forgangsraðað og breytt ýmsu. Það miðar alltaf að því að gera betur, að bæta þjónustuna. Þetta er jákvæð og eðlileg þróun þar sem við vinnum jafnt og þétt í því að hnika til dagskrá, færa til fjármuni innan tiltekinna ramma o.þ.h. Þannig tryggjum við að RÚV sé að veita trausta og áhugaverða almannaþjónustu sem er í takt við tímann og óskir almennings" sagði Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.

Nánari upplýsingar um stefnuna og aðgerðir má finna hér.