RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Kóðinn er eitt fjögurra verkefna í “proud to present” hjá EBU, Evrópusambandi almannaþjónustumiðla

Frá aðalfundu EBU í Dublin 2017
Á aðalfundi EBU, Sambandi útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu, var íslenska verkefnið Kóðinn eitt af fjórum verkefnum sem kynnt var í flokknum “Proud to present” fyrir útvarpsstjórum Evrópu.

Það var Sindri Bergmann Þórarinsson stjórnandi KrakkaRÚV sem kynnti verkefnið í dag fyrir fullum sal stjórnenda útvarps- og sjónvarpsstöðva Evrópu í Ráðhúsinu í Dublin á Írlandi. 

Kóðinn er verkefni sem hleypt var af stokkunum haustið 2016 af KrakkaRÚV, Samtökum Iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Menntamálastofnun og fjölda fyrirtækja á Íslandi, þar á meðal Microsoft á Íslandi. Markmið verkefnisins er að efla þekkingu og áhuga ungs fólks á Íslandi á forritun enda ljóst að öll störf eru að breytast og á næstu áratugum er tækniþekking og þekking á forritun forsenda flestra starfa hér á landi eins og annars staðar.  

Fyrir ári síðan var öllum börnum í 11 og 12 ára bekk í grunnskólum á Íslandi boðið að fá smátölvuna Microbit en á hana er hægt að forrita á ótal ólíka vegu, bæði í gegnum tölvuna eina en einnig með tengingum við önnur tæki og tölvur. Viðbrögð fóru langt fram úr væntingum en innan tveggja mánaða voru 97% barna á þessum aldri komin með tölvuna og byrjuð að forrita. Þau gátu nálgast fjölbreytt fræðslu- og skemmtiefni á KrakkaRÚV auk þess sem þar var hægt að taka þátt í áskorunum af ýmsu tagi. Forritunarleikarnir Kóðinn 1.0 voru haldnir allan veturinn og voru verðlaun afhent af menntamálaráðherra í Útvarpshúsinu nú í maí. Ákveðið hefur verið að halda áfram með verkefnið á komandi vetri og byggja það á sömu uppbyggingu samstarfs og áður.

Evrópskum almannaþjónustumiðlum þótti verkefnið afar áhugavert og ekki síst hvernig hið fjölbreytta samstarf opinberra aðila og einkaaðila getur skilað eftirtektaverðum árangri. Af þeim sökum var óskað eftir því að fá kynningu á verkefninu með það fyrir augum að aðra almannaþjónustumiðla í Evrópu geti fylgt fordæminu og sett af stað samskonar verkefni í öðrum ríkjum Evrópu. 

 

 

30.06.2017 kl.13:11
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni, Kóðinn EBU