RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Klassíkin okkar: Heimur óperunnar Óperuveisla í beinni útsendingu úr Eldborgarsal Hörpu

Mynd með færslu
Í vor gafst almenningi færi á að kjósa sér draumaóperutónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands á vef RÚV.

 

 

Á föstudagskvöld er komið að því að Sinfóníuhljómsveit Íslands leiki verkin sem flest atkvæði hlutu í sannkallaðri óperuveislu í beinni útsendingu úr Eldborgarsal Hörpu í samstarfi við Íslensku óperuna. Tónleikarnir hefjast kl 20.

Daníel Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands og stórum kór og fjölmargir söngvarar hefja upp raust sína í aríum og dúettum. Það eru þau Kristinn Sigmundsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Elmar Gilbertsson, Dísella Lárusdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Þóra Einarsdóttir og breska sópransöngkonan Suzanne Fischer sem bregður sér í hlutverk næturdrottningarinnar í Töfraflautu Mozarts.

Kynnar kvöldsins verða þau Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir.

Habanera, þokkafullur söngur sígaunastúlkunnar Carmenar úr óperu Bizets, reyndist vinsælasta óperuarían í kosningunni Klassíkin okkar - heimur óperunnar sem fór fram fyrr í sumar. Í ljós kom að franska tónskáldið Georges Bizet nýtur nokkurra vinsælda hjá Íslendingum en dúettinn Au fond du temple saint úr óperunni Perluköfurunum eftir Bizet var í þriðja sæti kosningarinnar. Í öðru sæti var arían Nessun dorma úr Turandot eftir Puccini.

Efnisskrá tóneikanna í heild sinni er að finna á vefsíðu Hörpunnar:
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/klassikin-okkar-heimur-operunnar/

Þetta er annað árið í röð sem Sjónvarpið sýnir beint frá Sinfóníutónleikum þar sem almenningur hefur fengið að setja saman efnisskrána. „Þetta gekk ótrúlega vel í fyrra“ segir Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Við fundum eiginlega bara flóðbylgju af þakklæti og væntumþykju eftir þessa tónleika, þeir þóttu heppnast alveg einstaklega vel. Svo það var eiginlega ljóst strax eftir þessa tónleika að við þyrftum að halda þessu verkefni áfram, það var svo mikil eftirspurn eftir því.“

Í ár á óperan sviðið, með öllum sínum örlagaflækjum og ógleymanlegu laglínum, og tónleikarnir því í samstarfi við Íslensku óperuna.

Í fimm vikulegum þáttum á Rás 1 síðastliðið vor voru 42 aríur og atriði úr sígildum óperum kynnt fyrir hlustendum. Í kjölfarið fór fram sérstök kosning á vefsíðunni ruv.is/klassikin þar sem hægt var að velja milli atriðanna og hafa þannig áhrif á efnisskrá sérstakra hátíðartónleika. Umsjón með útvarpsþáttunum Klassíkin okkar – heimur óperunnar hafði Guðni Tómasson, og Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, hafði aðalumsjón með því að velja atriðin 42 sem kynnt voru í þáttunum.

Nánari upplýsingar: Halla Oddný Magnúsdóttir (halla.oddny.magnusdottir@ruv.is, s: 8604646) og Guðni Tómasson (gudni.tomasson@ruv.is, s: 6982313)