Flýtileiðir

31. janúar 2015

Stafrænt sjónvarp

Áríðandi tilkynning

Nýtt dreifikerfi verður virkjað og gamla dreifikerfinu lokað 2. febrúar 2015 á eftirfarandi stöðum: (póstnúmer)
 • Höfuðborgarsvæði (101, 103, 104, 105, 107, 108, 109, 110, 111, 112, 113, 116, 170, 200, 201, 203, 210, 220, 221, 225, 270, 271)
 • Reykanes (190, 230, 233, 235, 240, 250, 260)
 • Akranes (300, 301)
 • Ísafjarðardjúp (400, 401, 410, 420, 425, 430)
 • Strandir (510, 512, 520, 524)
 • Vestur-Húnavatnssýsla (530, 531)
 • Austur-Húnsvatnssýsla (540, 541, 545)

Með stafrænum sjónvarpssendingum, í gegnum loftnet, stórbatnar þjónusta RÚV við sjónvarpsáhorfendur um land allt. Til að ná stafrænum útsendingum þarf í fæstum tilvikum aukabúnað. Þorri sjónvarpstækja sem hefur verið seldur á Íslandi undanfarin ár styður útsendingarstaðalinn DVB-T og nýjustu tækin DVB-T2. Þeir sem eiga eldri tæki (t.d. túbusjónvörp eða eldri flatskjái) þurfa hins vegar að kaupa stafræna móttakara sem fást víða. Þeir sem kaupa sjónvarpsáskrift um ADSL eða ljósleiðara á vegum Vodafone og Símans þurfa engar breytingar að gera en athugið að þótt RÚV sé dreift um þessi kerfi eru þau ekki hluti eigin kerfis RÚV.

Stafræn útsending RÚV þýðir að gæði útsendingar verða meiri. Samhliða stafrænum útsendingum hefjast útsendingar í háskerpu. Stefnt er að því að nýja dreifikerfið nái til a.m.k. 99,8% landsmanna fyrir árslok 2014 og verða þá tvær sjónvarpsrásir í boði í stað einnar nú.

Eftir því sem nýja, stafræna dreifikerfið tekur við af hliðrænu útsendingunni færist útsendingin yfir í háskerpu. Fyrir árslok 2014 verða 2 sjónvarpsrásir RÚV komnar um allt land og önnur þeirra í háskerpu(HD). Stefnt er að því að báðar verði í háskerpu 2016.

RÚV hefur samið við Vodafone um stafræna sjónvarpsútsendingu. UHF dreifikerfi Vodafone verður stækkað og eflt til að þjóna notendum RÚV. Útsendingar RÚV verða eftir sem áður opnar og ókeypis. Ekki er þörf á myndlykli eða áskrift að Vodafone til að ná þeim.

Hvað þarf ég að gera til að ná stafrænu útsendingarmerki RÚV í gegnum loftnet?

Ef þú átt nýlegt sjónvarp eru allar líkur á að tækið sé með stafrænan móttakara sem skilur DVB-T eða DVB-T2-staðalinn. Fyrir önnur tæki þarf að kaupa stafrænan móttakara fyrir DVB-T2, þar sem sá staðall nær yfir breiðara svið en DVB-T og háskerpusendingar verða á því formi.

Þarf ég að kaupa nýtt loftnet eða annan móttökubúnað?

Núverandi hliðrænt dreifikerfi RÚV er víða á VHF sviði. Stafrænu útsendingarnar verða á UHF sviði. Þar sem nýja, stafræna merkið er sterkt, einkum nálægt sendi, er hægt að nota VHF loftnet áfram en mælt er með að notast sé við UHF loftnet – greiður – til móttöku á UHF sendingum. Ekki er þörf á nýjum loftnetssnúrum því stafræna merkið fer um sama koparvír (coax-loftnetssnúru) og notaður hefur verið fyrir hliðræna merkið til þessa. Nýrri sjónvörp þurfa fæst sérstakan móttökubúnað en við eldri tæki (einkum túbusjónvörp) þarf að tengja stafrænan móttakara sem fæst víða og er ekki dýr. Þeir sem það kjósa geta leigt sér myndlykla hjá Vodafone og Símanum, en bæði fyrirtækin dreifa sjónvarpsstöðvum RÚV á sínum kerfum.

Ég er með gamalt sjónvarp. Get ég þá ekki horft á RÚV?

Til að taka á móti stafrænu útsendingarmerki þarf að líkindum að kaupa DVB-T2 móttakara fyrir eldri tæki. Slíkir móttakarar fást í helstu raftækjaverslunum og hjá Vodafone. Eldri sjónvörp taka hins vegar fæst við háskerpumerki og því geta eigendur þeirra ekki notið bestu myndgæða.

Ég ætla að kaupa mér nýtt sjónvarp. Hvað þarf ég að hafa í huga?

Sjónvarpið ætti undantekningarlaust að vera háskerputæki (HD) og með innbyggðan DVB-T2 móttakara.

Hvar fæ ég loftnet ef ég þarf að skipta?

Athugaðu að ekki er víst að skipta þurfi um loftnet. UHF-loftnet fást víða í raftækjaverslunum. Á heimasíðu Samtaka rafverktaka er listi yfir rafvirkja sem bjóða upp á loftnetsþjónustu.

Verður útsendingin betri?

Stafrænar sendingar geta í mörgum tilfellum sýnt mun betri mynd en þær hliðrænu. Myndir sem eru í myndhlutföllunum 16:9 munu þekja skjáinn allan en hliðrænu sendingarnar voru hugsaðar fyrir 4:3 myndhlutfall. Truflanir svo sem snjókoma og draugagangur heyra sögunni til og móttökuskilyrði batna í mörgum tilfellum auk þess sem UHF-loftnet eru mun minni en VHF-loftnet, taka á sig minni vind og endast því lengur.

Hvað getur valdið truflunum á móttöku?

Helstu þættir sem geta valdið truflunum á móttöku sjónvarpsmerkja um loftnet eru:

 • Ef raki kemst í loftnetskapalinn eða loftnetið sjálft getur það haft truflandi áhrif á móttökugæðin.
 • Eitthvað skyggir á sendinn, t.a.m. tré eða byggingar.
 • Sé móttaka merkis tæp geta truflanir orðið vegna veðurs, (sérstaklega mikillar snjókomu eða rigningar.
 • Einnig getur valdið vandamálum þegar merki berst yfir sjó (t.d. á Suðurnesjum frá aðalsendi örbylgjunnar). Við ákveðin skilyrði (sléttan sjó) getur endurkast frá sjó borist í loftnetið ásamt merkinu frá sendinum. Þessar aðstæður geta valdið tímabundnum truflunum.
 • Örbylgjuofnar, þráðlausar tengingar og önnur tæki sem senda frá sér örbylgjur geta valdið truflunum á móttöku örbylgjusendinga.
 • Spennugjafar sem fæða örbylgjuloftnet geta bilað með þeim afleiðingum að loftnetið hættir að virka. Í þeim tilvikum sem móttökumerki berst til myndlykils, sjónvarpstækis eða stafræns móttakara um loftnetskerfi getur lofnetskerfið valdið truflunum. Biluð eða slitin tengi geta einnig valdið truflunum.
 • Of sterkt merki getur líka valdið truflunum.

Í þeim tilvikum sem merki loftnetsins berst myndlyklinum um loftnetskerfi fjölbýlishúss getur lofnetskerfið valdið truflunum. Tengi geta verið biluð eða komið slit í þau.

Hvenær verður hliðrænum (analog) sendingum hætt?

RÚV hættir hliðrænni sjónvarpsdreifingu í áföngum. Byrjað verður að slökkva á fyrstu sendunum seinni hluta árs 2013 og því verður að fullu lokið 2. febrúar 2015.

Hvenær hefjast háskerpuútsendingar (HD) RÚV?

RÚV HD er þegar dreift í háskerpu á dreifikerfum Símans og Vodafone yfir ADSL, Ljósnet, ljósleiðara og örbylgju.

Einnig mun RÚV dreifa rásum sínum í háskerpu á nýja stafræna dreifikerfinu þegar það tekur við af því hliðræna. Stefnt er að því fyrir árslok 2014 ráði RÚV yfir tveimur sjónvarpsrásum í háskerpu sem náist um land allt.

Get ég horft á RÚV í háskerpu?

Hægt er að horfa á RÚV HD í háskerpu ef sjónvarpið er merkt HD eða HD Ready en aðeins á dreifikerfum símafélaganna yfir ADSL, Ljósnet og ljósleiðara með myndlyklum frá þeim. Einnig er RÚV HD í boði á örbylgjudreifingu Vodafone en þá dugar sjónvarp með stafrænum móttakara.

Þegar RÚV mun sjálft fara að dreifa rásum sínum í háskerpu yfir UHF þá mun duga sjónvarp með stafrænum móttakara (DVB-T2) ásamt UHF loftneti, en sú dreifing mun ekki ná um land allt fyrr en síðla árs 2014.

Nánar um háskerpudreifingu Vodafone og Símans.

Get ég horft á RÚV HD yfir ljósleiðara?

Ef þú ert með netáskrift yfir ADSL, Ljósnet eða ljósleiðara geturðu horft á RÚV HD í háskerpu með HD myndlykli frá þínu símafélagi. Athugið þó að á einhverjum svæðum er ekki hægt að bjóða upp á háskerpu yfir ADSL.

Nánar um háskerpudreifingu Vodafone og Símans.

Hvernig verður HD-merkið?

RÚV mun senda út í 720p. Þetta er í samræmi við gæðamat European Broadcasting Union (EBU), en niðurstaða sérfræðinga EBU var að þótt ýmsir dagskrárliðir, þar sem hreyfing er lítil, komi vel út í staðlinum 1080i, væru gæði annarra útsendinga þar ekki jafngóð. Einkum var þá horft til íþrótta og annarra viðburða þar sem hraði er mikill.

Af hverju hættir RÚV hliðrænum sjónvarpsútsendingum?

Núverandi sjónvarpsdreifikerfi RÚV er gamalt og byggir á úreltri tækni. Hliðrænar sjónvarpsútsendingar eru víðast hvar að leggjast af og allur tækjabúnaður sem nú er framleiddur, sjónvarpstæki og útsendingarbúnaður, er gerður fyrir stafræna útsendingu. Stafrænar útsendingar munu bæta þjónustu RÚV við landsmenn.

Nást sendingar RÚV einnig um önnur dreifikerfi?

RÚV og RÚV HD munu sem fyrr nást á xDSL, og ljósleiðarakerfum Vodafone og Símans. Þær útsendingar eru ekki á vegum RÚV heldur hafa símafyrirtækin heimild til að dreifa útsendingunni á dreifikerfum sínum. Nánar um dreifikerfi Vodafone og Símans. Athugið að símafyrirtækin rukka fyrir afnot af myndlyklum en ekki er greitt viðbótargjald fyrir RÚV.

Hefur nýja dreifikerfið áhrif á útvarpssendingar?

Rás 1,Rás 2 og Rondó verður dreift um nýja kerfið en hefðbundin FM-dreifing verður áfram við lýði sem og langbylgjan. Upplýsingar um dreifikerfi útvarps.